Reykjanesskagi

Heimsókn á gosstöðvarnar – Hraunið sækir fram í Nátthaga

Undirrituðum gafst loksins tækifæri til þess að heimsækja gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í gærkvöldi.  Eins og búast mátti við blasti við stórfenglegt sjónarspil móður náttúru.

Í sjálfu sér hefur ekki mikið nýtt átt sér stað hvað gosið varðar síðustu tvær vikurnar eða svo.  Tilraunin með varnargarðana var góðra gjalda verð.  Þeir hægja vissulega á hraunstraumi niður í Nátthaga en hraunið hefur nú þegar komist yfir eystri varnargarðinn í allmiklu magni og eitthvað lekið yfir þann vestari.

Jarðfræðingar eru ekki sammála um hve langan tíma tekur fyrir hraunið að komast að Suðurstrandavegi.  Heyrst hefur frá einni viku og upp í fáeina mánuði.  Þess má geta að fyrsta sólarhringinn sem hraunið rann niður í Nátthaga komsta það um þriðjung leiðarinnar að veginum!  Hallinn er þó minni eftir því sem neðar dregur auk þess sem náttúruleg fyrirstaða er í minni dalsins sem ætti að tefja hraunflæðið verulega.  Auk þess  er mögulegt að hlaða upp varnargörðum svipuðum og gert var í nafnlausa dalnum svokallaða en ólíklegt verður að telja að það sé einhver langtíma lausn.

Nú hefur gosið staðið í rúmlega tvo mánuði og meðalhraunrennsli er talsvert meira nú en fyrstu vikurnar.  Mikil hrauntjörn hefur myndast suðaustur af gígnum sem gæti verið fyrsta vísbending um dyngjumyndun.  Tjörnin mun eftir því sem á líður þjóna hlutverki einskonar miðlunarlóns sem deilir hraunstraumum í allar áttir.  

Nú veltum við fyrir okkur sviðsmyndum varðandi lengd gossins:

Hvað gerist ef gosið stendur í 6-12 mánuði?  

Hraunið mun óhjákvæmilega ná niður á Suðurstrandaveg og til sjávar.  Vegurinn verður að sjálfsögðu úr leik allan þann tíma.  Hraunið í Geldingadal mun nær örugglega loka leiðinni uppá “Sjónarhól” og reyndar líklegt að það gerist innan tveggja vikna eða svo.

Hvað gerist ef gosið stendur í 1-5 ár ?

Svosem ekki mikið meira en ef það stendur í 6-12 mánuði nema hvað hraunið mun algjörlega fylla Meradali, Geldingadali og Nátthaga.  Líklegt er að hrauntangi verði til út í sjó neðan nátthaga.  Hraun mun flæða uppúr Geldingadal og niður eftir gönguleiðinni og að endingu rjúfa enn stærra skarð í Suðurstrandaveg sem að sjálfsögðu verður ónothæfur allan tímann sem gosið varir.

Hvað gerist ef gosið varir í 5-20 ár eða lengur?

Við sjáum stóra dyngju myndast.  Hún gæti jafnvel hulið fjallendið í kring að miklu leyti.  Hraun rennur eftir sem áður aðallega til suðurs og austurs en leitar einnig leiða til suðvesturs og vesturs.  Það gæti komið til þess að huga þurfi að því að verja Grindavík, beina hrauninu frá bænum.  Núverandi gönguleiðir að eldstöðvunum færu allar undir hraun. 

Mögulega gæti myndast dyngja á stærð við Þráinsskjöld en miðað við núverandi hraunrennsli tæki slík myndun um 20 ár en heildarrúmmál Þráinsskjaldar er um 5 rúmkílómetrar.  Reikna má með að 10-20 kílómetrar af Suðurstrandavegi færu undir hraun.  Þá er ekki hægt að útiloka hraunflæði til norðurs en landslagi þarna háttar þannig að mjög ólíklegt verður að telja að hraunið færi að ógna Reykjanesbrautinni.  Líklega yrði þegar farið að gjósa annarsstaðar á Reykjanesskaganum þar sem ógnin væri meiri hvað það varðar.

 

Mikil aukning á gosvirkni milli vikna

 

Myndin er fengin af vef Jarðvísindastofnunar Háskólans og sýnir þróun hraunrennslis og efnafræði kvikunnar.

Jarðvisindastofnun Háskólans mælir vikulega hraunrennsli og efnasamsetningu kvikunnar í eldgosinu í Fagradalsfjalli.  Nýjustu mælingarnar frá því í gær verða að teljast allnokkur tíðindi því nú mælist meðal hraunflæði 12,9 rúmmetrar á sekúndu en hefur hingað til verið á milli 5-7 m3. á sekúndu.  Það er því greinilegt að gosið er að sækja í sig veðrið svo um munar, þetta er tvöföldun á hraunrennsli frá því sem áður var.

Líklegasta ástæðan fyrir aukningunni er trúilega útvíkkun gosrásarinnar frá kvikuþrónni í efri lögum möttuls, sennilega hlutbráð, þ.e. kvikan bræðir veggi gosrásarinnar smámsaman og víkkar hana þannig að meira magn kviku getur flætt um hana.  

Það eru ekki komnar nýjar tölur um gaslosun en hún hlýtur að vera í samræmi við hraunrennslið sem þýðir að meiri hætta stafar af gasi í grennd við gosstöðvarnar en áður.  

Hvað þetta þýðir fyrir framhald gossins er ekki gott að segja nema þá að fullyrða má að það sé langt í goslok.  Eins og áður hefur verið fjallað um þá er efnasamsetning kvikunnar mjög lík efnasamsetningu í dyngjum á Reykjanesskaganum, sér í lagi stóru dyngjunum.  Líkur á löngu gosi sem endar í dyngjumyndum verða að teljast allmiklar.  Þá erum við að tala um nokkur ár eða jafnvel lengur.

Skjálftar við Krýsuvík – “Nýr gígur” reyndist vera gróður að brenna

Nokkuð var um jarðskjálfta um 3-4 km norður af Krýsuvík í nótt og í morgun, við vesturenda Kleifarvatns.  Sá stærsti mældist M 3,2 og fannst á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta eru eðlilegir spennulosunarskjálftar á þessu svæði og tengjast ekki gosinu, amk. ekki beint. 

Af gosinu er það að frétta að það sem margir töldu nýjan gíg vera að opnast í gær, reyndis gróðurbruni af völdum gjalls og hraunslettna sem höfðu borist frá aðalgígnum.  Þetta kom nokkuð á óvart, þ.e. að gosefnin væru að berast þetta langt og er ein ástæða þess að nú er verið að endurskoða hættumat fyrir svæðið enda engum holt að verða fyrir glóandi gjalli, vikri og hraunslettum.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök nýjustu skjálfta á Reykjanesskaga.

Líklega að opnast nýr gígur í suðurhluta Geldingadals – Gosið í aðalgígnum slitrótt

Mikill reykur sést nú á vefmyndavél RÚV frá suðurenda Geldingadals.  Einhverjir töldu að etv. væri um sinubruna að ræða en það er eiginlega útilokað enda reykurinn staðbundinn og talsvert frá hraunjaðrinum þar sem líklegast er að gróðureldar blossi upp.  Þarna gæti því verið um nýja opnun að ræða. 

Óróagraf frá Fagradalsfjalli 2. maí Á vef Veðurstofu Íslands

Ef af verður þá er líklegast að hraunið renni beint niður í Geldingadal en auki á hraunlagastaflann í suðurhlutanum og meiri líkur á að það nái að skríða yfir haftið yfir í Nátthaga.

Í nótt virtist gosið í aðalgígnum breyta um hegðun.  Í staðinn fyrir stöðuga gosvirkni varð hún slitróttari en með mjög háum kvikustrókum þess á milli, hærri en áður hafa sést í gosinu.  Þá er einnig mikil breyting á óróagröfum, virknin er mun breytilegri en áður, sérstaklega á hæsta tíðnisviðinu.  Það mynstur fellur reynda alveg að sýnilegu breytingunum.   Þessi breyting gæti stafað af því að meiri fyrirstaða sé í gosrásinni eða gígnum sem eykur líkur á nýrri gígamyndun.  Það virðist akkúrat vera að gerast.

Skjáskot af vefmyndavél RÚV og sýnir gasútstreymi frá mögulega nýrri opnun í Geldingadal.

Einn gígur mjög virkur – Kvikustrókar allt að 50 metra háir

Myndin er af vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og sýnir nýjustu mælingar frá 26. Apríl

27. Apríl 2021

Þær breytingar virðast hafa orðið á gosvirkninni að einn af gígunum sem opnuðust 13. Apríl er orðinn langvirkastur meðan frekar lítið líf er í öðrum og nokkrir alveg hættir að gjósa eða sýna neitt lífsmark

Þetta er þróun sem almennt er talin verða í dyngjugosum, að þau opnist á sprungum en virknin færist að mestu á einn gíg þegar líða tekur á gosið.  Þetta sést ágætlega á vefmyndavél Rúv.

Annað sem er helst að frétta af gosinu:

  • Kvikuframleiðslan er enn  á milli 5-7 rúmmetra á sekúndu . Allra nýjasta mæling sýnir 6,3 m3 á sekúndu.
  • Hraun hefur runnið niður í Meradali úr tveimur áttum og stutt í að það loki af hrygginn sem Morgunblaðsmyndavélin er staðsett á.  Enn vantar þó mikið upp á að fylla Meradalina af hrauni.
  • Gosórói rokkar nokkuð samkvæmt mælum.
Skjáskot af myndavél Rúv 27. Apríl og sýnir mikla kvikustrókavirkni í gíg sem opnaðist 13. Apríl.

 

Scroll to Top