Orðskýringar – Hugtök

Birta á :

Hér á eftir er hugtakalisti í jarðfræði.  Listinn er í stafrófsröð.  Í sumum tilfellum fylgir enska heitið með til þæginda ef leita á að viðkomandi efni á netinu.

Andesít Ísúrt gosberg, þ.e. Millistig á milli Basalts og Ríólíts (Líparíts) Kísilsýrumagn SiO2 er a bilinu 52-65%
Apalhraun Tiltölulega þykkt hraun (10-30 metrar), úfið yfirborð úr gjalli eða frauðkenndu hraungrýti.  Mörg basalthraun og öll Andesít og Ríólít hraun eru Apalhraun.
Aska (ash) Mjög fíngerð gjóska
askja (caldera) Stór sigketill í megineldstöð sem oftast myndast þegar kvikuþró fellur saman eftir að hafa tæmst í stóru eldgosi.  Öskju er að finna í flestum stóru megineldstöðvunum á Íslandi en þekktust þeirra er Askja í Dyngjufjöllum sem myndaðist í kjölfarið á miklu sprengigosi þar árið 1875.
Álftanesskeið Tímabil ísaldar fyrir um 12-13000 árum þegar loftslag kólnaði skyndilega á ný og mynduðust jökulgarðar sem eru áberandi á Álftanesi
Basalt Basískt gosberg.  Dökkt eða svart á lit og með minna kísilsýrumagni en Andesít og Ríólít.  Algengasta gosbergið á Íslandi.
Basískt storkuberg Storkuberg sem er gert úr basaltkviku.
Bergeitill (laccolith) Smærri útgáfa af Berghhleif.  Kvika sem storknar djúpt í jörðu en kemur í ljós við rof.  Oftast úr ríólíti.   Dæmi: Sandfell í Fáskrúðsfirði
Bergfræði Fræðigrein innan jarðfræðinnar sem fjallar um gerð og uppruna bergs
Berghleifar Djúpberg svokallað, kvika sem storknar djúpt í jörðu og kemur í ljós við rof.  Erlendis eru Berghleifar oftast úr gabbrói eða graníti en hér er súra bergið yfirleitt úr granófýr.  Dæmi: Eystrahorn
Bergkvika bráðið berg blandað gosgufum úr iðrum jarðar.  Við storknun skiljast gosgufurnar frá.
Bergtegundir Berg er yfirleitt samansett úr nokkrum steindum en stundum úr aðeins einni steind.  Bergtegundum er skipt í þrjá meginflokka, storkuberg sem verður til við storknun bergkviku, setberg sem verður til úr bergmylsnu og myndbreytt berg sem verður til við kristöllun set- eða storkubergs djúpt í jörðu.
Blágrýti Blágrýti er basalt þ.e. Basískt gosberg og er því mjög algengt hér á landi.
Blönduð gos Blönduð gos eða blandgos er þegar bæði er um að ræða hraunrennsli og kvikustrókavirkni eða jafnvel þeytigos í sama gosinu.  Eldvörpin eru þá gjall og klepragígaraðir sem eru algengastar Íslenskra eldstöðva
Bólstraberg (pillow basalts) Kvika sem kemur upp undir það djúpu vatni að þrýstingur er of mikill til þess að gufusprengingar verði. Storknar hún þá sem einskonar boltar eða koddar.  Bólstraberg getur myndast við neðansjávargos, gos undir stöðuvatni eða undir jökli.
Brotaskjálftar Algengasta gerð jarðskjálfta.  Þeir eiga upptök á mörkum jarðskorpufleka jarðar og á misgengjum tengdum þeim.  Allir meiriháttar jarðskjálftar í heiminum eru brotaskjálftar.
Deighvel Einnig nefnt “Linhvel” (Asthenosphere) Lag úr deigu eða plastísku efni sem jarðskorpuflekarnir fljóta á. Þetta lag er á um 20 km dýpi undir úthöfunum en allt að 150 km dýpi undir meginlöndunum
Devon Eitt af jarðsögutímabílum fornlífsaldar.  Hefst fyrir 416 milljónum ára og endar fyrir 359 m. árum.  Fyrstu skógar myndast á landi.
Djúpberg Kvika sem storknar djúpt í jörðu.  Reyndar storknar meirihluti kviku djúpt í jörðu í stað þess að ná til yfirborðs.  Vegna jarðvegsrofs sést djúpberg þó víða á yfirborði.
Dyngja (shield volcano) Flatur og oftast nokkuð reglulegur hraunskjöldur myndaður úr þunnum hraunlögum úr flæðigosi.  Gosið byrjar gjarnan sem sprungugos en takmarkast við einn gíg þegar líður á gosið og þá hleðst dyngjan upp.  Algeng fyrst eftir að kuldaskeiði ísaldar lauk en sjaldgæf nú hér á landi.
Eldborg Þunnfljótandi kvika sem kemur upp um kringlótt gosop.  Gígbarmar myndast utan um hrauntjörn sem storknar þegar gosinu lýkur. Eldborg á Mýrum er dæmigerð eldborg.
Eldfjall Þar sem endurtekin gos verða á sama stað hlaðast með tímanum upp eldfjöll.  Virkt eldfjall er það kallað ef gos hefur orðið í fjallinu eða eldstöðvakerfinu eftir ísöld þ.e. Á síðastliðnum 12000 árum, annars telst það óvirkt.
Eldgjá Gossprunga þar sem hreint flæðigos hefur orðið á.  Slíkt er sjaldgæft hér á landi en þó mætti nefna eldgosin við Kröflu á árunum 1975-84.  Eldgjá í Skaftártungum flokkast ekki sem eldgjá þrátt fyrir nafnið enda ekki um hreint flæðigos að ræða á henni.
Eldhryggur Þar sem ílöng gossprunga tekur upp á því að gjósa ítrekað hleðst upp eldhryggur.  Hekla er þekktasta dæmið um eldhrygg.
Eldkeila (stratovolcano) Þar sem síendurtekin gos eiga sér stað úr kringlóttu gosopi hleðst upp eldkeila.  Slík eldfjöll eru mjög algeng erlendis en hér á landi eru Eyjafjallajökull, Öræfajökull og Snæfellsjökull allt virkar eldkeilur og reyndar Tindfjallajökull  líka en sú eldkeila splundraðist í miklu gosi fyrir um 50.000 árum.
Eldský – gjóskuflóð (Pyroclastic flow) Einnig nefnt “helský” eða “gusthlaup”.  Hættulegasta fyrirbrigði eldgosa.   Þegar gosrás í kraftmiklu sprengigosi þar sem upp kemur súr kvika stíflast þá brjótast út gosgufur blandaðar gjósku og æða niður hlíðar fjallsins á ógnarhraða og verða allt að 500 gráður heit.  Eldský eyða öllu lífi sem fyrir verður. Þau eru sjaldgæf hér á landi en þó er talið að eldský hafi orðið fjölda fólks að bana í Öræfajökulsgosinu árið 1362.
Eldstöðvakerfi Samheiti yfir landsvæði þar sem er sprungumyndun og gosvirkni.  Ekki er endilega megineldstöð í öllum eldstöðvakerfum.
Eldvörp Gígur eða hluti gossprungu þar sem eldgos hefur orðið
Feldspat Ein algengasta frumsteind í bergi.  Feldspat er úr kalíum, natírum eða kalsíum ál sílikötum.
Flekakenningin Upphaflega sett fram af Þjóðverjanum Alfred Wegener árið 1912 og gekk út á það að jarðskorpan skiptist upp í nokkra stóra jarðskorpufleka sem væru á stöðugri hreyfingu, rækjust saman og á sumum stöðum frá hvor öðrum.  Kenningin öðlaðist alþjóðlega viðurkenningu  í kringum árið 1970 en var fram að því ekki tekin mjög alvarlega.  Í dag ganga nánast allir jarðfræðingar að því að hún sé sönn.
Flekamót (convergent boundary) Þar sem úthafsfleki sekkur og skríður undir meginlandsfleka eru flekamót.  Úthafsskorpan er þyngri en meginlandsskorpan. Á um 100  kílólmetra dýpi tekur hún að bráðna og kvika myndast sem ýmist storknar í meginlandsskorpunni eða kemur upp í eldgosum.
Flekamörk (plate boundary) Þar sem jarðskorpuflekar mætast, annaðhvort rekur þá saman (flekamót), meðfram hvor öðrum (sniðgeng flekamót) eða frá hvor öðrum (flekaskil)
Flekar (tectonic plates) Jarðskorpuflekarnir sem eru á stöðugri hreyfingu.  Talið er að 7 stórir flekar séu á jörðinni auk fjölmargra minni og flekabrota.
Flekaskil (divergent boundary) Þar sem tvo fleka rekur í sundur frá hvor öðrum eru flekaskil.  Á og við Ísland rekur Ameríkuflekann og Evrasíuflekann frá hvor öðrum sem veldur að hluta til þeirri eldvirkni sem hér er.
Flikruberg Samþjöppuð súr gjóska sem verður til af völdum eldskýs.   Sjaldgæft á Íslandi en þó má sjá þykk flikrubergslög í Þórsmörk eftir að Tindfjallaeldstöðin splundraðist fyrir um 50 þúsund árum.  Sést einnig á Austfjörðum í grennd við forla eldstöð í Breiðdal, talið 2-3 milljón ára gamalt.
Flotajafnvægi Þegar jarðskorpan flýtur á hinu deiga möttulefni jarðar þá leitast hún við að ná jafnvægi en aukafarg, t.d. Ís getur raskað því.  Þetta kallast flotajafnvægi.
Flæðigos (effusive eruption) Gos þar sem langstærstur hluti gosefna kemur upp sem fljótandi hraunkvika.  Getur verið apal eða helluhraun og alltaf basalt.  Dæmi:  Kröflueldar 1975-84, gosið á Fimmvörðuhálsi 2010.
Flöguberg Ein tegund myndbreytt bergs sem verður til þegar storkuberg eða setberg umkristallast djúpt í jarðlögum.  Nýmyndaðir kristallar raða sér eftir hreyfistefnunni og mynda flögur í berginu.
Forkambrium Elsta jarðsögutimabilið en spannar þó 9/10 af aldri jarðarinnar, frá því fyrir 4,6 milljörðum ára þar til fyrir um 570 milljónum ára.  Meginlandsskyldir verða til og líf fæðist fyrir um 4000 milljónum ára en er mjög frumstætt út allt forkambríumtímabilið.
Fornlífsöld Tímabil í jarðsögunni frá 570 m. árum til 245m. árum.  Fornlífsöld skiptist í eftirfarandi tímabil,yngsta fyrst: Perm, Kol, Devon, Sílúr, Ordóvisium og Kambríum.  Líf þróast hratt, bæði dýr og plöntur.
Frumlífsöld Síðari hluti forkambríum tímabilsins, Upphafsöld er fyrri hlutinn.   Fremur vanþróuð dýr koma fram á sjónarsviðið, holdýr,liðormar og armfætlur.   Dýr á þessumt tíma höfðu ekki harða líkamshluta og því ekki mikið af steingerðum dýraleifum frá frumlífsöld.
Gabbró Basískt berg sem hefur storknað djúpt í jörðu og nefnist því djúpberg.
Gangar (dikes) Verða til þegar kvika treður sér upp um sprungur og storknar þannig.  Oft mjög þunnir, 1-2 m en geta orðið tugir metra á þykkt.  Oftast er um fornar gosrásir að ræða og geta gangar verið tugir km. á lengd.
Geislakolsaðferð Ein aðferð við að aldursgreina berg eða lífrænt efni.  Aðferðin byggist á að mæla geislavirkar samsætur kolefnis sem helmingast (eyðast) á þekktu tímabili
Gervigígar Verða til þegar hraun rennur yfir grunnt stöðuvatn, árfarveg eða votlendi.  Vatn kemst í glóandi hraunið sem veldur sprengingum og eftir standa gígar eða gígþyrping sem líkist við fyrstu sín venjulegum gjallgíg en lega gervigígana og óregleg röðun veldur því að þeir eru yfirleitt auðgreinanlegir frá gígum yfir eldvarpi.
Gígaraðir Gos á gossprungu þar sem kvikustrókavirkni er áberandi veldur því að gígaraðir hlaðast upp, þ.e. Margir gígar á sömu sprungunni.
Gígvötn Algengt er að eftir gos í sprengigíg nái gígurinn niður fyrir grunnvatnsflötinn og safnast þá vatn í gíginn.  Þessi vötn eru yfirleitt lítil um sig en geta verið djúp.  Dæmi um gígvötn eru Ljótipollur á Landmannaafrétti og Grænavatn í Krísuvík.
Gjall Í gíg eða á gossprungu þar sem er kvikustrókavirkni hlaðast upp gígbarmar úr kleprum og gjalli.  Yfirleitt nokkuð stórir og blöðróttir gjóskumolar.
Gjallgígar (cinder cones) Gígar sem myndast og hlaðast upp úr gjalli við kvikustrókavirkni.  Eldfell á Heimaey er dæmigerður gjallgígur.
Gjóska (tephra) Samheiti yfir nokkur laus gosefni ss. ösku, gjall, klepra  og hraunkúlna.  Þar sem kvika mætir vatni t.d. Við gos undir stöðuvatni, jökli eða grunnvatni ,tætist hún í sundur og myndar gjósku.
Gosbelti Landsvæði eða belti  þar sem nokkur eldstöðvakerfi raða sér á.
Gosgufur gas sem er hluti af bergkvikunni þegar hún kemur upp úr iðrum jarðar.  Vatnsgufa er jafnan fyrirferðarmest í gosgufum en einnig brennisteinssambönd, koltvísýrlingur og fleiri efnasambönd.
Gosmökkur Við eldgos komast heitar gosgufur út í andrúmsloftið.  Loftið hitnar einnig vegna hita frá gosopinu og stígur upp.  Aska og gjall lenda einnig í uppstreyminu og þessi blanda verður að gosmekki.
Gosórói Nær samfelldur lágtíðnititringur sem kemur fram á jarðskjálftamælum.  Kvika er á hreyfingu og er gosórói oft undanfari eldgoss.  Einnig getur slíkur titringur komið fram á mælum án þess að kvikan nái yfirborði í eldgosi.
Gossprunga Eldgos getur komið upp um einn gíg eða á gossprungu.  Í flæðigosi myndast ekki gigar en í gosi þar sem kvikustrókavirkni er til staðar myndast gígaraðir á gossprungunni.  Gossprungur geta orðið tugir kílómetra á lengd.
Grágrýti Grágrýti einkennir hraunlög sem runnin eru á hlýskeiðum ísaldar.  Meirihluti þeirra eru hraunlög sem komið hafa upp í Dyngjugosum og má nefna að grágrýtið í Reykjavík hefur runnið frá fornri dyngju á Mosfellsheiði
Grunnvatn Einnig nefnt jarðvatn og fyllir allar glufur fyrir neðan svokallaðan grunnvatnsflöt.  Hæð grunnvatnsflatar er þó oft breytileg eftir veðri og árstíðum.  Grunnvatnsflötur er hár eftir vætutíð og vorleysingar en lágur eftir frostkafla og þurrka.
Hafnarbylgja (tsunami) Flóðbylgjur sem verða vegna róts á hafsbotni, yfirleitt vegna stórra jarðskjálfta sem lyfta upp spildum á hafsbotni.  Hafnarbylgjan æðir í allar áttir frá upptakastað og getur orðið tugir metrar á hæð þegar hún nær landi og valdið gríðarlegu tjóni eins og átti sér stað í Indónesíu 2004 og Japan 2011.
Harka Hér er átt við hörku steinda.  Notaður er kvarði sem skipt er niður í 10 stig og eru ákveðnar steindir valdar sem einnkennissteind fyrir hvert stig.   Linasta steindin hefur 1 í hörku (talk) og sú harðasta 10 (demantur)
Háhitasvæði Svæði þar sem hiti á 1 km. dýpi er yfir 150°C sem eru alþjóðleg mörk milli lághita og háhita.
Heitur reitur (hot spot) Svæði á jörðínni þar sem  möttulstrókur stígur upp úr möttli og veldur gosvirkni.  Ísland er á heitum reit og einnig Hawaii eyjar.  Heitir reitir eru á milli 30 og 40 á jörðinni og ekki bundnir við flekamót, virðast raðast tilviljanakennt um jörðina.
Helluhraun (pahoehoe) Fremur slétt basalthraun sem hafa orðið til við storknun á þunnfljótandi kviku.  Þau eru yfirleitt auðveld yfirferðar.  Við ákveðnar aðstæður getur yfirborð kviku storknað en hraun runnið undir yfirborði.  Geta þá myndast allstórir hellar undir yfirborði hraunsins og eru þeir allnokkrir á Íslandi t.d. Surtshellir.
Hitastigull Er mælikvarði á hitaaukningu miðað við fjarlægð. Í jarðfræði er átt við hitaaukningu frá dýpi til yfirborðs og er mælikvarðinn yfirleitt í gráðum á Celsíus á metra eða kílómetra.
Hlýskeið Ísöld skiptist í skeið með köldu loftslagi sem nefnd eru jökulskeið og tímabil þar sem loftslag er hlýrra og nefnast þau hlýskeið.  Við lifum nú á hlýskeiði ísaldar.
Holufyllingar Efni sem setjast með tíð og tíma í holur, glufur og sprungur í bergi nefnast holufyllingar.  Þessi efni eiga greiða leið um bergið með rennandi vatni.
Hrafntinna Myndast við snögga kælingu ríólítkviku, t.d. ef hún kemst í snertingu við vatn.  Hrafntinna er svört að lit.  Hún telst ekki til steinda þar sem hún er ekki kristölluð.  Mikið er af hrafntinnu á nokkrum stöðum á Íslandi t.d.  áTorfajökulssvæðinu.
Hraundrýli Brattar strýtur úr kleprum sem hlaðast upp við uppstreymisop nálægt eldgíg.
Hraungúll Verða til er seig og þykk ríólítkvika hleðst upp yfir gosrás í stað þess að renna burt sem hraun.  Þessi tegund eldgosa er nefnd troðgos.  Hlíðarfjall í Mývatnssveit er dæmi um hraungúl.
Hraunkúla Myndast þegar hraunflyksur þeytast upp í loftið yfir gosstöðvum.  Þær snúast um sjálfar sig og verða fyrir vikið kúlulaga eða ílangar.  Stærri kúlur splundrast oft þegar þær lenda en þær minni halda frekar laginu enda yfirleitt storknaðar í gegn.
Hraunkvika Þegar kvika nær yfirborði í gosum aðskilst hún í gosgufur sem rjúka burt í gosmekkinum og hraunkviku sem annaðhvort rennur frá eldstöðinni sem hraun eða þeytist upp sem gjóska.
Hrauntröð Þegar kvika streymir út um skörð í gígveggjum þá rennur hún oft í farvegi á yfirborði og nefnist sá farvegur hrauntröð.  Geta hrauntraðir verið margra kílómetra langar.  Ein þekkt hrauntröð er Búrfellsgjá ofan við Hafnarfjörð.
Hrunskjálftar Sjaldgæfasta tegund jarðskjálfta.  Erlendis eru þeir algengastir þegar hellisþök á kalksvæðum brotna niður en hér á landi geta bergskriður valdið titringi sem kemur fram á jarðskjálftamælum og er þá um að ræða hrunskjálfta.  Þeir eru alltaf vægir.
Hverir Hver er uppstreymisop heits vatns eða gufu á jarðhitasvæðum.
Innræn öfl Atburðir sem eiga sér stað í iðrum jarðar t.d. Eldgos og jarðskjálftar
Innskot Sá hluti bergkviku sem kemur upp úr iðrum jarðar og  nær ekki til yfirborðs storknar með tímanum á msimunandi dýpi í jarðskorpunni.
Innskotslög Einnig nefnt laggangar eða sillur.  Verða til þegar kvika treður sér á milli jarðlaga eða á lagmótum.  Getur verið erfitt að greina frá hraunlögum.
Ísúrt storkuberg Storkuberg með 52-65% kísilsýrumagni.  Einskonar millistig milli basalts og ríólíts.  Andesít er dæmi um ísúrt gosberg.
Ísöld Tímabil í jarðsögunni þar sem þykkur jökull hylur stór landsvæði.  Síðasta ísöld hófst fyrir 2,6 milljónum ára og stendur enn, en nú er svokallað hlýskeið á ísöld en þau vara venjulega í aðeins 10-20.000 ár.
Jarðeðlisfræði Fræðigrein innan jarðfræðinnar þar sem innri gerð jarðar er könnuð með ýmsum mælingum.  Dæmi: jarðskjálftamælingum, segul- og leiðnimælingum ásamt þyngdarmælingum.
Jarðefnafræði Fræðigrein innan jarðfræðinnar sem fjallar um efnasamsetningu jarðar og hvernig hringrás efna í náttúrunni á sér stað.
Jarðfræði Í stuttu máli fjallar jarðfræðin um myndun og mótun jarðskorpunnar af völdum innrænna og útrænna afla.
Jarðgas Kolvetnissambönd neðanjarðar sem myndast við rotnun lífrænna leyfa.
Jarðhiti Heitt vatn eða vatnsgufa sem hitnar í iðrum jarðar og berst þannig til yfirborðs.
Jarðsaga Tímaröð atburða og breytinga á jörðinni.  Á það bæði við af völdum útrænna og innrænna afla og einnig sögu lífs og lífvera.
Jarðskjálftabylgjur (seismic waves) Við jarðskjálfta verða til fjórar tegundir af bylgjum sem saman eru kallaðar jarðskjálftabylgjur.
Jarðskjálftar (earthquakes) Snöggar hreyfingar í jarðskorpunni sem eru mælanlegar.  Oftast af völdum spennu sem losnar, þ.e. Berg brotnar en einnig af völdum eldsumbrota eða hruns ofarlega í jarðskorpunni eða á yfirborði hennar.
Jarðskjálftaupptök (epicenter) Upptök jarðskjálfta í iðrum jarðar
Jarðskorpan Efsta lag jarðarinnar.  Jarðskorpan er um 10-70 km. þykk og þykkust undir meginlöndunum en þynnst undir úthöfunum.
Jaspis Algeng sprungufylling í basalti og einnig í ríólíti. Oft mjög litfögur steind, rauð, græn blá osvfrv. Aðkomuefni lita steindina.  Þekktur fundarstaður er t.d. Hestfjall í Borgarfirði.
Júra Tímabil í jarðsögunni á miðlífsöld sem nær frá tríastímabilinu  fyrir um 200 milljónum ára til upphafs Krítartímabilsins fyrir 146 milljónum ára.  Einkenni júratímabilsins voru risaeðlurnar.
Jökulhlaup Flóð í jökulám sem verða annaðhvort af völdum eldsumbrota eða þegar jökulstíflur bresta.
Kambríum Upphafstímabil fornlífsaldar í jarðsögunni.  Nær frá því fyrir 542 milljónum ára til 488 m ár.  Líf þróast svo hratt á þessu tímabili að talað er um kambríumsprenginguna.  Liðdýr, þríbrotar og frumstæðar jurtir þróast.
Kjarni jarðar Innsti hluti jarðkúlunnar nefnist kjarni.  Hann er um 7000 km í þvermál og er að mestu úr járni.  Kjarninn er tvískiptur, innri kjarninn er úr föstu efni en ytri kjarninn úr fljótandi efnum og í honum er meira nikkel heldur en i innri kjarnanum.
Kleprar Þétt gjall og hraunklessur sem koma upp um gosop eru einnig nefndir kleprar.
Kleyfni Hér er átt við kleyfni steinda.  Þ.e. Hvernig þær brotna eftir flötum og stefnum.  Þetta er ein af fjölmörgum aðferðum sem notaðar eru til að flokka og aðgreina steindir frá hvor annarri.
Kolatímabil Jarðsögutímabil á fornlífsöld sem hefst fyrir 359 milljón árum og lauk fyrir um 290 m árum.  Gríðarlegir fenjaskógar uxu þá á jörðinni sem síðar urðu að miklum kolalögum.
Kristallar Kristall er fast efni þar sem frumsteindirnar mynda reglulegt munstur
Krítartímabil Jarðsögutímabil á miðlífsöld sem hefst fyrir 146 milljónum ára og lauk fyrir 65,5 milljónum ára en þá hefst nýlífsöld.  Talið er að í lok Krítartímabilsins hafi gríðarstór loftsteinn rekist á jörðina og valdi einhverjum mesta fjöldaútdauða sem um getur á jörðinni.
Kvars Kvars er ein algengasta steindin á Íslandi.  Það finnst bæði sem frumberg í súru bergi og sem holufylling og sprungufylling í bergi.
Kvarter Tímabil í jarðsögunni sem hófst fyrir um 2,588 milljónum ára og stendur enn.  Það einkennist af reglubundnum jökulskeiðum.
Kvika (magma) Oftast bráðið möttulberg eða skorpuberg í iðrum jarðar.  Nær yfirborði í eldgosum og þá sem hraun eða gjóska ásamt lofttegundum sem losna úr kvikunni.
Kvikuhlaup Talað er um kvikuhlaup þegar kvika ferðast neðanjarðar frá kvikuþró eða kvikuhólfi án þess að koma upp á yfirborðið beint yfir kvikuþrónni.  Getur hún þá ýmist storknað neðanjarðar eða komið upp annarsstaðar, jafnvel langt frá kvikuþrónni. Þetta gerðist ítrekað í Kröflueldum 1975-84.
Kvikuhólf (magma chamber) Rými á um eins til þriggja kílómetra dýpi neðanjarðar sem eru full af bráðinni kviku.  Þessi kvika hefur aðskilið sig frá kvikuþró.
Kvikuþró Stórt rými á um eins til tíu kílómetra dýpi neðanjarðar þar sem kvika upprunin úr möttli jarðar safnast saman.  Með tímanum verður þrýstingur í kvikuhólfi það mikill að annaðhvort leitar hún til yfirborðs í formi eldgoss eða þrýstir sér í sprungur og rifur neðanjarðar.
Landrek Jarðskorpuflekarnir sem meginlöndin og úthöfin hvíla á eru á stöðugri hreyfingu.  Ýmist þrýstast þeir saman eða reka frá hvor öðrum.
Lághitasvæði Svæði þar sem hiti á 1-3 km dýpi í jörðu er lægri en 150 gráður á Celsíus.
Lágtíðniskjálftar sama og / sjá  gosórói
Linhvel (asthenosphere) Einnig nefnt deighvel.  Lag í möttli jarðar sem er úr deigu, plastísku efni og stinnhvelið og jarðskorpan flýtur á.  Yfirborð þessa lags er á um 20-150 km dýpi og er grynnst niður á það undir úthöfunum.
Líparít Líparít er súrt gosberg þ.e. magn kísilsýru er meira en 65%.  Er það einnig nefnt ljósgrýti.  Orðið Ríólít er nú meira notað í jarðfræðinni og er það notað hér eftir á þessari vefsíðu.  Ríólít er venjulega ljósleitt, gulleitt eða ljósgrátt og er því oft mjög áberandi í landslaginu.  Móskarðshnjúkar austan við Esjuna eru úr Ríólíti.
Magnitude Magn orku sem leysist úr læðingi í jarðskjálfta.  Tvennskonar magnitude skalar eru notaðir í dag, Richter og Momentum (M) sem er orðið mun meira notaður en Richter í dag en mælieiningarnar eru þó svipaðar.
Megineldstöð Hlaðast yfirleitt upp við síendurtekin gos yfir kvikuþró og á miðjum sprungusveimi yfir þrónni.  Í flestum tilfellum hlaðast upp tilkomumikil eldfjöll, eldkeilur eða eldhryggir.  Megineldstöðvar eru virkar í 1-1,5 milljón ára en með tímanum rekur þær útaf gosbeltinu fyrir tilstuðlan landreks.
Meginlandsskorpa Sá hluti jarðskorpunnar sem er undir meginlöndum jarðar.  Hún er að jafnaði 20-70 km þykk og er mun eðlisþyngri en úthafsskorpan sem einnig er þynnri.
Mercalli stigi Kvarði sem mælir styrkleika jarðskjálfta.  Miðaður út frá tjóni sem skjálftinn veldur.  Almennt ekki mikið notaður í dag.
Miðlifsöld Jarðsögutímabil sem tekur við af fornlífsöld fyrir um 251 milljón árum.  Miðlífsöld er svo skipt í Trías, Júra og Krítartímabilin.
Misgengi (fault) Þar sem jarðlög haggast og fletirnir standa misthátt við brotalínur er talað um misgengi.
Mislægi Eyða í setlagabunka t.d. vegna rofs.
Míósen Jarðsögutímabil sem hófst fyrir rúmum 23 milljónum ára og lauk fyrir um 5,3 milljónum ára.  Ísland hleðst að stórum hluta upp á þessu tímabili og verður til sem eyja.
Molaberg Set og setberg sem gert er úr bergmylsnu.
Móberg Verður til við ummyndun gjósku sem kemst í snertingu við vatn, t.d. Undir jökli eða sjó.  Vegna gosa sem áttu sér stað á ísöldum er móberg mjög algengt á Íslandi.
Móbergshryggur Myndast við sprungugos undir jökli eða í sjó.  Dæmi um móbergshrygg er t.d. Sveifluháls við Kleifarvatn og Möðrudalsfjallagarðurinn.
Móbergskeila Myndast við gos undir jökli eða sjó þar sem um er að ræða stutta gossprungu eða eitt gosop.  Keilir á Reykjanesi er móbergskeila.
Móbergsstapi Myndast við gos undir jökli eða í sjó en gosið er það langvinnt og öflugt að það nær að mynda gígbarma og hraun tekur að renna.  Eiríksjökull og Herðubreið eru dæmi um móbergsstapa.
Myndbreytt berg Berg sem breytir um gerð og jafnvel efnasamsetningu vegna þrystings djúpt í jarðlögum, yfirleitt á flekamótum og sökkbeltum.
Möndluberg Holufyllingar sem smámsaman fylla blöðróttan vikur.  Þegar allar holur bergsins fylltar kallast það blöðruberg.
Möttull jarðar Stærsta hvel jarðar.  Nær það frá neðri mörkum jarðskorpunnar að ytri mörkum kjarnans sem er á um 2900 km. dýpi.  Möttullinn er úr þéttu og föstu efni við kjarnann en mýkra efni eftir því sem nær dregur jarðskorpunni.  Þó er hann úr föstu efni á um 100 km. dýpi.
Nútími Nútími í jarðfræði telst vera tíminn frá síðasta kuldaskeiði ísaldar þ.e. Síðastliðin 12.000 almanaksár. Öll siðmenning manna verður til á þessu tímabili.
Nýlífsöld Nýlífsöld tók við af miðlífsöld fyrir 65 milljónum ára og stendur enn.  Nýlífsöld skiptist i Tertíer og Kvartertímabilin.
Ordóvisíum Jarðsögutímabil á fornlífsöld sem tók við af Kambríutímabilinu fyrir 488 milljónum ára og lauk þegar Sílúr tímabilið tók við fyrir 443 m árum.
Ólivín Mjög algeng steind í basísku bergi og ein algengasta steind á jörðinni.  Venjulega grænleitt á lit en stundum rauðleitt vegna oxunar.
Perm Síðasta jarðsögutímabil fornlífsaldar.  Það tók við af Kolatímabilinu fyrir 299 milljónum ára og lauk með einum mesta aldauða jarðsögunnar fyrir um 251 m árum.  Á Perm tímanum urðu skriðdýr allsráðandi á landi.
Plötukenningin (plate tectonics) Kenning sem gengur út frá að meginlöndin hvíli á stórum flekum eða plötum sem reki ýmist sundur eða saman.   Þjóðverjinn Alfred Wegener setti hana fram árið 1915 en var ekki  almennt viðurkennd fyrr en uppúr 1970 og útskýrir margt sem áður var óljóst, t.d. hversvegna upptök jarðskjálfta eru ekki tilviljanakennd um jörðina.
Rekbelti Aflangt landsvæði þar sem gliðnun á sér stað í jarðskorpunni.  Rekbelti eru á plötuskilum.
Rhyólít eða Ríólít – Súrt gosberg með kísilsýrumagni yfir 67%.  Einnig nefnt ljósgrýti.  Finnst helst í grennd við megineldstöðvar.  Yfirleitt ljósleitt en þó er hin svarta Hrafntinna afbrigði af Ríólíti.
Richter kvarði Mælikvarði sem mælir styrk jarðskjálfta og var fundinn upp árið 1935.  Kvarðinn er þó minna notaður nú en áður og hefur hinn svokallaði Magnitude kvarði að mestu leyst hann af hólmi.
Rishryggir Landspilda sem lyftist upp á milli tveggja brotalína og myndar hrygg.  Tjörnesið er sem dæmi rishryggur og hefur lyfst upp um allt að 600 metra á síðustu milljón árum.
Segulstefna Segulstefna kviku er hún storknar er í takt við segulsvið jarðar hverju sinni.  Segulsvið jarðar snýst við með ákveðnu millibili og er talað um “rétt eða öfugt” segulmagnað berg sem hjálpar svo til við aldursgreiningu bergsins.
Segulstefna i bergi Með ákveðnu millibili verða kollsteypur á segulstefnu jarðar.  Bráðið berg storknar í samræmi við ríkjandi segulstefnu, þ.e. Annaðhvort sem “rétt segulmagnað berg” eða “öfugt segulmagnað berg”.  Segulstefnan getur því hjálpað til við aldursgreiningu bergs.
Segulstefnutímatal Tímabil segulstefnu.  Núverandi segulstefna (rétt) hefur varað í um 700 þúsund ár en næstu 1,8 milljón ár þar á undan var segulstefnan öfug og áttavitar hefðu því vísað í þveröfuga átt við það sem nú er.
Sigdalir Spilda sem hefur sigið á milli tveggja meginbrotalína.  Þingvellir og Þingvallavatn á milli Almanna- og Hrafnagjár er sigdalur.  Annar þekktur sigdalur er í austur-Afríku.
Sílúr Eitt af sex jarðsögutímabilum fornlífsaldar.  Sílúr hefst þegar Ordóvisiumtímabilinu lýkur fyrir um 443,7 milljónum ára og lauk við upphaf Devontímabilsins fyrir 416 milljónum ára.
Smákornótt berg Ef kristallar í bergi eru meira en 1mm í þvermál telst bergið vera smákornótt.  Hið svonefnda Reykjavíkurgrágrýti er t.d. Smákornótt að mestu.
Sniðgeng flekamót Flekamót þar sem fleka rekur meðfram hvor öðrum í sitthvora áttina.  Dæmi um það er t.d. San Andreas misgengið í Kaliforníu.  Mjög stórir jarðskjálftar verða oft á sniðgengum flekamótum.
Sprengigígar Gígur þar sem sprengigos (gjóska) hefur komið upp.  Grænavatn á Reykjanesi er dæmi um slíkan gíg og Veiðivötn eru röð af sprengigígum.
Sprengigos (explosive eruption) Gos þar sem gosefnin eru fyrst og fremst gjóska.  Slík gos verða þar sem kvika kemst í snertingu við umtalsvert eða mikið magn af vatni, t.d. undir sjó, stöðuvatni eða jökli.
Steindafræði Sú undirgrein jarðfræðinnar sem fjallar um efnasamsetningu, byggingu, eðliseiginleika og kristallauppbyggingu steinda. Um 4000 steindir eru þekktar en aðeins um 150 þeirra teljast vera algengar.
Steindir Náttúrulegt efnasamband sem myndast við jarðfræðilegt ferli.  Steind getur verið hreint frumefni eða flókin efnasamsetning margra frumefna.   Berg er svo samsett úr steindum.
Steingervingafræði Sú undirgrein jarðfræðinnar sem fæst við rannsóknir á steingervingum.
Steingervingar eru steingerðar leyfar dýra eða jurta úr fortíðinni.  Steingervingar verða til og finnast í setlögum.  Veita þeir okkur upplýsingar um útdauðar lifverur sem að öðrum kosti væri útilokað að hafa upplýsingar um.
Steinöld Fyrsta og lengsta tímabilið  í þróun mannsins.  Steinöl er svo skipti í þrjú tímabil, fornsteinöld, miðsteinöld og nýsteinöld.  Miðað er við að fornsteinöld hefjist fyrir um 1,4 milljónum ára og nýsteinöld lýkur fyrir um 3300 árum.
Stinnhvolf (Lithosphere) Efsti hluti möttulsins og neðri hluti jarðskorpunnar og er á um 10-150 km dýpi, grynnst undir úthöfunum.  Stökkt efni sem hvílir á deigara efni.
Storkuberg (Igneous Rocks) Storkuberg verður til þegar kvika storknar, ýmist neðanjarðar sem gangberg og djúpberg eða ofanjarðar sem gosberg.
Stórkornótt berg er storkuberg þar sem kristallarnir eru það stórir að þeir sjást auðveldlega með berum augum.  Kristallar eru oft margir millimetrar eða sentimetrar í þvermál, sérstaklega í djúpbergi sem hefur storknað hægt í jörðu.
Stuðlaberg Verður til þegar storkuberg kólnar og dregst saman í stuðla sem myndast hornrétt á kólnunarflötinn.  Nokkuð algengt í basalthraunum og víða á Íslandi má finna sérlega fallegt stuðlaberg, t.d. Í Reynisfjöru og við Svartafoss í Skaftafelli.
Súrt storkuberg Storkuberg með meira en 65% kísilsýrumagni.  Ef um gosberg er að ræða þá myndast ríólít en súrt storkuberg sem storknað hefur í jörðu (djúpberg) er annaðhvort granít eða granófýr.
Sökkbelti eða sökksvæði – þar sem úthafsfleki skríður undir meginlandsfleka á flekamótum.  Þar myndast með tímanum fellingafjallgarðar.  Stórir jarðskjálftar eiga oft upptök sín í eða við sökkbelti.
Tertíer Jarðsögutímabil á nýlífsöld sem hefst fyrir um 65 milljónum ára þegar risaeðlurnar dóu út og lýkur við upphaf síðustu ísaldar fyrir um 2,6 milljónum ára.  Ísland myndaðist á tertíertímabilinu.
Tjörneslög Merkileg sjávarsetlög á Tjörnesi.  Mikið er af steingervingum sjávardýra í lögunum en heildarþykkt þeirra er um 500 metrar.
Trías Jarðsögulegt tímabil sem markar upphaf miðlífsaldar og  hefst fyrir 245 milljónum ára og lýkur fyrir 202 milljónum ára.  Loftslag á Trías var heitt og þurrt.  Stóru meginlöndin mynduðu eina risaheimsálfu, Pangeu, sem tók að brotna upp á Trías.
Troðgos Ef kvika er mjög seig hrúgast hún upp yfir gosopinu í stað þess að renna frá því sem hraun.  Baula í Borgarfirði er dæmi um fjall sem myndast hefur í troðgosi.  Ríólít kvika er yfirleitt miklu seigari en basaltkvika og því langalgengast að troðgos verði þar sem ríólítkvika kemur við sögu.
Úthafshryggir (mid-ocean ridges) Hryggir á flekaskilum úthafanna þar sem ný jarðskorpa myndast í eldgosum eða innskotum.  Ísland stendur á úthafshrygg en er ofansjávar vegna þess að heitur reitur er undir landinu.
Úthafsskorpa Jarðskorpan undir botni úthafanna er gerð úr basísku storkubergi við yfirborðið.  Hún er að meðaltali um 10 km. þykk og rekur í sitthvora áttina frá úthafshryggjunum. Hún er jafnframt þakin setlögum sem eru þykkust næst meginlöndunum.
Vikur Frauðkenndir bergmolar og brot sem koma upp í eldgosum.  Vikur er mjög eðlisléttur, getur borist langar leiðir og flýtur oft á vatni.  Ríólítvikur er yfirleitt ljósleitur en basaltvikur dökkur.
Zeólítar Tegund geislasteina sem er mjög algeng hér á landi.  Dæmi um slíkt er skólesít.
Þeytigos Gos þar sem langstærstur hluti gosefna kemur upp sem gjóska eða aska.  Slík gos eru algengust undir jökli eða sjó þar sem kvikan kemst strax í snertingu við vatn.
Þursaberg Setberg sem hefur orðið til eftir skriður í fjallshlíðum  Grjótið og hnullungarnir eru ónúnir með hvössum brúnum öfugt við grjót sem berst t.d. langar leiðir með ám.
Þverbrotabelti Brotabelti sem liggja þvert á flekaskil og eru algengir upptakastaðir jarðskjálfta.  Tvö slík eru á og við Ísland, suðurlandsþverbrotabeltið sem er upptakastaður Suðurlandsskjálftanna og  annað er úti fyrir norðurlandi og gjarnan kennt við Tjörnesið þó vesturhluti þess sé úti fyrir Skagafirði.
Öskugígur Gígur þar sem nær eingöngu kemur upp gjóska (aska og vikur) í sprengi eða þeytigosi.  Eftir því sem gosið er kraftmeira því minna ber á gígnum því gosefnin þeytast langt frá eldstöðinni.  Hverfjall í Mývatnssveit hefur t.d. orðið til í fremur kraftlitlu sprengigosi.
Öskulagatímatal Öskulög sem liggja hvert ofan á öðru veita mikilvægar upplýsingar um aldursgreiningu og hægt að bera saman við heimildir frá sögulegum tíma sé öskulag orðið til t.d. eftir landnám hérlendis.  Yngstu öskulögin eru alltaf efst.
Öskulög Lag í jarðvegi sem myndast vegna öskufalls frá eldstöð.
Scroll to Top