Yellowstone

Birta á :

Yellowstone er í Wyoming fylki norðarlega í miðvesturríkjum Bandaríkjanna.  Þegar komið er á svæðið er ekkert sérstakt  fyrir leikmann sem bendir til þess að þarna sé ein afkastamesta eldstöð á jörðinni.  Ekki er um eiginlegt eldfjall að ræða, heldur eldstöðvakerfi með nokkrum misstórum og misgreinilegum öskjum,  hver  ofan í annarri.

Ástæðan fyrir eldvirkni  í Yellowstone er svokallaður heitur reitur á svæðinu en um 40 slíkir eru á jörðinni og þar á meðal einn undir Íslandi sem veldur meiri eldvirkni hér en umhverfis landið.  Heiti reiturinn (hot spot)  undir Yellowstone hefur verið virkur í amk. 18 milljón ár og á þeim tíma hafa orðið amk. 15 svokölluð ofureldgos, þ.e. gos þar sem upp koma meira en 1000 rúmkílómetrar af gosefnum með tilheyrandi öskjumyndunum.

Heiti reiturinn undir Yellowstone er undir meginlandsskorpu  Norður – Ameríkuflekans sem útskýrir að hluta til hversvegna sum gosin þar eru svo gríðarlega öflug.  Meginlandsskorpa er allt annarar gerðar en úthafsskorpa og hefur lægra bræðslustig.  Hún er einnig léttari.  Vegna þess hve hún hefur lágt bræðslumark þá bræðir hið gríðarstóra kvikuhólf undir Yellowstone bergið umhverfis hólfið að hluta til og eykur magn kvikunnar sem getur brotist upp í eldgosi sem því nemur.  Þess skal þó getið að alls ekki öll eldgos í Yellowstone eru stór, mikill meirihluti þeirra eru líkari gosum sem verða hér á landi en með löngu millibili þ.e. 600.000 til 2 milljón ára fresti verða ofureldgosin.

Allstór hraungos hafa orðið á svæðinu, það síðasta fyrir um 70 þúsund árum.  Í þeim getur komið upp bæði Ríólít og Basalt rétt eins og hér á landi.  Talið er að um 80 gos hafi orðið frá síðasta ofureldgosi á svæðinu sem varð fyrir um 640 þúsund árum.  Þau gætu þó verið mun fleiri enda hlaðast nýrri hraun og gjóskulög yfir þau eldri og hylja slóð þeirra oft á tíðum.

Mjög vel er fylgst með svæðinu og mælingar sýna að landris er í gangi á svæðinu sem stafar nær örugglega af uppstreymi kviku í kvikuhólf Yellowstone.  Jarðfræðingar eru þó almennt á þeirri skoðun að ekki sé stórgos yfirvofandi á svæðinu.

Vegna landreks verða stóru gosin ekki alltaf á sama stað, heldur er nánast hægt að rekja slóð þeirra í vesturátt frá Yellowstone svæðinu.  Röð af öskjum liggur eftir Snake River sléttunni því þó heiti reiturinn færi sig ekkert þá færist landmassinn fyrir ofan hann um nokkra sentimetra á ári vegna landreks.

Þrjú risagos hafa orðið á Yellowstone svæðinu síðustu 2,2 milljón ár.  Það fyrsta fyrir 2,2 m árum var jafnframt það stærsta og komu upp um 2800 rúmkílómetrar (km3) af gosefnum úr því gosi.  Þetta er gríðarlegt magn og til samanburðar kom um 0,3 km3 upp úr gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og um 19 km3 upp úr  Eldgjá árið 934, mesta eldgosi Íslandssögunnar og um 14 km3 úr Skaftáreldum árið 1783.  Öruggt má telja að þetta gos hafi valdið því sem kallað hefur verið kjarnorkuvetri á jörðinni og haft mikil áhrif á lífríkið á þessum tíma.  Askjan sem myndaðist í gosinu er engin smásmíði, hún er um 80km. löng, 65km breið og nokkur hundruð metra djúp.

Þó mannkynið hafi ekki verið komið til sögunnar á þessum tíma þá hefur mannkynið þurft að þola enn stærra gos.  Það var í Toba ofureldstöðinni í Indónesíu fyrir um 74.000 árum um það leyti verður greinilegur flöskuháls í þróun mannsins og talið líklegt að meirihluti mannkyns hafi farist vegna afleiðinga gossins á veðurfar og lífríki.  Um þetta gos fjöllum við síðar.  En hvernig vita menn hvað kom mikið magn af gjósku upp úr gosi fyrir 2,2 milljónum ára ?  Jú, stærð og rúmmál öskjunnar segir mikið til um það.  Askjan myndast þegar kvikuhólfið tæmist og landið fyrir ofan sígur af völdum þess.  Þannig er hægt að áætla hve mikið af kviku kom upp í gosinu.

Fyrir um 1,3 milljónum ára verður gos á svæðinu þar sem um 280 km3 af gosefnum koma upp.  Þó þetta flokkist  tæknilega ekki sem ofureldgos (super eruption) þá er þetta gos tæplega 30 sinnum öflugra en mesta sprengigos Íslandssögunnar í Öræfajökli árið 1362 og um 150-250 sinnum öflugra en gosið í St. Helens í Bandaríkjunum árið 1980 sem margir muna eftir.

Nýjasta risagosið varð svo fyrir um 640.000 árum en þá komu upp um 1000 km3 af gosefnum og skildi eftir sig þá öskju sem nú er greinilegust á svæðinu.  Eftir þetta hafa orðið stór sprengigos en þó ekkert í líkingu við þessi þrjú.  Nokkuð stöðugt landris hefur mælst á svæðinu undanfarna áratugi en ekki nóg til að framkalla risagos.  Jarðskjálftavirkni er einnig mikil á svæðinu sem einnig geymir mikinn fjölda virkra  hvera.

Hér að neðan eru gagnlegar  vefslóðir og heimildir sem stuðst var við

http://en.wikipedia.org/wiki/Yellowstone_Caldera

http://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/yellowstone/yellowstone_sub_page_54.html

http://volcano.oregonstate.edu/vwdocs/volc_images/north_america/yellowstone.html

http://en.wikipedia.org/wiki/Yellowstone_hotspot

http://all-geo.org/highlyallochthonous/2010/07/geology-on-an-epic-scale-the-yellowstone-caldera/

http://en.wikipedia.org/wiki/Island_Park_Caldera

 

 

 

 

 

 

 

Scroll to Top