Eyjafjallajökull

Birta á :

YfirlitEyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er ein af fáum eldkeilum Íslands.  Tignarlegt og hátt  fjall sem veitir nágrönnum ágætis skjól fyrir napri norðanáttinni.  Eldstöðin er hulin jökli en hann er þó hvergi sérlega þykkur, líklega um 200 metrar þar sem hann er þykkastur.  Lítil og fremur grunn askja er eftst í fjallinu.  Hún er opin til norðurs og þar fellur niður brattur skriðjökull, Gígjökull.

Gossaga á nútíma

Þegar gos hófst í Eyjafjallajökli þann 20. mars 2010 þá kom það ekkert sérstaklega á óvart.  Mikill fjöldi smáskjálfta hafði gengið yfir vikurnar á undan en slíkar hrinur höfðu orðið af og til allt frá árinu 1990.  Þessi var þó sú snarpasta.  Líklega hafa orðið kvikuinnskot undir fjallið árin 1994 og 1999 en þau náðu ekki til yfirborðs.  Það gerðist hinsvegar núna.

Uppbygging fjallsins hefur verið afskaplega hæg á nútíma, gosin virðast vera bæði lítil og fá.  Á sögulegum tíma var lengi aðeins vitað um eitt gos með vissu, frá 1821-3.  Ágætar heimildir eru til um það gos sem var rétt vestan við öskjuna í háfjallinu.  Gjóskufall stóð í viku.  Hlaup kom í Markarfljót sem eyddi sumstaðar grónu landi.  Þetta gos var fremur lítið en stóð hinsvegar alllengi yfir eða í tæp tvö ár.  Hálfu ári eftir að það hófst, eða í júní 1822 herti það mjög um tíma.  Í þann mund sem þessu gosi lauk þá gaus Katla.  Kötlugos virðist hafa fylgt gosum í Eyjafjallajökli í öll þau skipti sem hann hefur gosið frá landnámi.

Fjallið gaus einnig árin 1612-13 og árið 920.  Litlar sem engar heimildir eru til um þessi gos en gjóskulagarannsóknir hafa leitt þau í ljós.  Bæði þessi gos hafa verið fremur lítil og bæði í jöklinum sjálfum.

Vitað er um 6-8 goseiningar á Fimmvörðuhálsi myndaðar á fyrri hluta nútíma.  Öll þessi gos virðast hafa verið fremur lítil.  Ekki er vitað hvort gaus í jöklinum sjálfum samfara þessum gosum.

Fimmvörðuháls

Tenging við Kötlu

Það sem menn óttast helst varðandi Eyjafjallajökul er greinileg tenging við hina mikilvirku og hættulegu eldstöð Kötlu.  Fjarlægðin milli eldfjallanna er lítil og nýjustu rannsóknir benda til þess að kvikuinnskot úr Eyjafjallajökli gætu náð annaðhvort inn í kvikuhólf Kötlu eða í súran gúl undir Goðabungu.  Slíkt gæti hleypt af stað plínísku sprengigosi í Kötlu.  Jarðfræðingar hafa líkt þessu ástandi við púðurtunnu.

Þau gos sem hafa orðið í Kötlu samfara eða eftir gos í Eyjafjallajökli hafa hinsvegar ekki verið af þesssari gerð, þau hafa verið fremur lítil miðað við Kötlugos.  Þó ekki sé nákvæmlega vitað hvernig þessu sambandi eldstöðvanna er háttað þá er ljóst að það er til staðar og telja verður allmiklar líkur á því Katla gjósi á allra næstu árum.  Líkurnar aukast einnig vegna þess að goshlé Kötlu er orðið óvenjulangt.

Færslur á eldgos.is sem tengjast Eyjafjallajökli:  (ath. eldgos.is var uppsett í maí 2010)

Frostbrestir mælast sem jarðskjálftar í Eyjafjallajökli jan. 2011

Goslokum enn ekki lýst yfir ágúst 2010

Myndir frá Eyjafjallajökli maí 2010

Aukin virkni í Eyjafjallajökli maí 2010

Scroll to Top