Mikil skjálftavirkni við Fagradalsfjall í dag 26.febrúar
Um hádegisbilið í dag hljóp mikill kraftur í hina öflugu jarðskjálftahrinu sem hófst á Reykjanesskaga í fyrradag. Um kl. 12:06 varð skjálfti uppá M 4,4 og síðan til kl 17 30 hafa 27 skjálftar náð M 3 af styrkleika og nokkrir stærri en M 4. Upptökin eru á svipuðum slóðum og í fyrradag en virðast þó helst bundin við tvær sprungur við Fagradalsfjall.

Ekki hefur orðið vart við kvikuhreyfingar eða innskot en sérfræðingar á Veðurstofunni taka fram að vegna hins mikla fjölda skjálfta þá er ekki útilokað að minniháttar hreyfingar kæmu ekki fram á mælum. Það vekur hinsvegar athygli að nokkuð hefur verið um djúpa skjálfta þ.e. 7-10 km og dýpri. Það er alltaf grunsamlegt því á þessu dýpi eru mörk möttuls og jarðskjorpunnar og skjálftar þar stafa líklegast af kvikuhreyfingum.
Ekki hefur heldur verið nein virkni austan Kleifarvatns og tala jarðfræðingar um að það svæði sé “læst”. Það þýðir að verði skjálftar þar á annað borð þá geti þeir orðið mjög stórir því engin spennulosun hefur átt sér stað þar. Þar er jarðskorpan mun þykkri en vestar á Reykjanesskaga og getur því framkallað mun stærri skjálfta, allt að M 6,5 af því að talið er. Í tvígang hafa slíkir skjálftar fylgt hrinum vestar á skaganum á síðustu öld, árin 1929 og 1968. Það er því ekki að ástæðulausu að hættustig er í gildi á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og í Árnessýslu.
Athugasemdir
MJÖG ÖFLUG JARÐSKJÁLFTAHRINA Á REYKJANESSKAGA- SÁ STÆRSTI M 5,7
EIN ÖFLUGASTA HRINA Á REYKJANESI FRÁ UPPHAFI MÆLINGA. HÆTTUSTIGI LÝSTI YFIR Á REYKJANESI OG HÖFUÐBORGARSVÆÐINU. Á ANNAN TUG SKJÁLFTA YFIR M 4,0

Laust eftir kl 10 í morgun varð jarðskjálfti af stærð 5,7 um 3,3 km SSV af Keili. Þetta er einn allra stærsti skjálfti sem mæst hefur á Reykjanesskaganum. Svipaður skjálfti varð þó í október síðastliðnum en sá mældist 5,6. Þessi er semsagt ögn stærri og virðist hafa fundist á enn stærra svæði, allt norður í land.
Mjög mikil eftirskjálftavirkni hófst strax og fyrsta klukkutímann eftir skjálftann mældust hvorki meira né minna en 35 skjálftar yfir M 3 sem er gríðarlega mikið á svo stuttum tíma. Síðan hefur heldur dregið úr skjálftum en þó varð einn um M 4,9 kl 12:37.
Þá er skjálftasvæðið allmikið umfangs. Skjálftarnir eru mest að mælast á rúmlega 20 km. löngu belti frá Svartsengi að Krýsuvík sem er óvanalegt. Skjálftarnir eru sniðgengisskjálftar og ólíklegt að þeir tengist eldsumbrotum en þar sem þeir eiga sér stað á eldvirku svæði þar sem landris hefur mælst nýlega vegna kvikuhreyfinga þá er ekki rétt að útiloka eldgos. Sniðgengisskjálftar verða þegar þversprungur á flekaskilum nuddast saman og er það reyndar algengasta tegund skjálfta sem verða á Íslandi.
Helst er óttast að þessi hrina komi af stað skjálftum á Bláfjalla-Brennisteinsfjallasvæðinu en það hefur verið undarlega rólegt á því belti meðan vesturhluti Reykjanesskagans hefur nú skolfið meira og minna í á annað ár. Skjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið allt að M 6,5. Þar sem algengt er að stórir skjálftar komi í hrinum þá er best að fólk á Suðvesturhorninu hafi varann á sér meðan þetta gengur yfir.
Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá raðast skjálftarnir á rúmlega 20km langt belti. Austan Kleifarvatns eru sárafáir skjálftar.
Athugasemdir
Snarpir eftirskjálftar- Virknin færist í átt að Fagradalsfjalli
Mikið hefur verið um eftirskjálfta í dag eftir stóra skjálftann laust eftir hádegi. Nú er staðfest stærð hans M 5,6 sem gerir skjálftann að stærsta jarðskjálfta á Reykjanesskaganum síðan árið 2003.
Skjálftinn var dæmigerður sniðgengisskjálfti á flekaskilum og eldsumbrot í kjölfarið eru harla ólíkleg. Hinsvegar getur hrinan haldið eitthvað áfram og skjálftar upp á M 3,5 – 4 nokkuð líklegir næstu 12-24 tímana. Mjög ólíklegt er að annar svona stór skjálfti verði.
Skjálftarnir hafa síðustu klukkustundir fært sig í vestur eftir misgenginu í átt að Fagradalsfjalli en þar hafa einmitt orðið öflugir skjálftar á árinu.

Athugasemdir
HARÐIR JARÐSJÁLFTAR NÆRRI KRÝSUVÍK
Snarpur jarðskjálfti fannst á suðvesturlandi kl. 13 45 í dag og allsnarpir eftirskjálftar hafa einnig fundist. Stærð stærsta skjálftans virðist nokkuð á reiki, í fyrstu var hann talinn M 5,7 en nú metur Veðurstofan hann M 4,4 sem er þó undarlega lágt miðað við hversu snarpur hann var og fannst víða.

Upptökin eru 4.4 km VNV af Krýsuvík , nokkurnveginn á milli eldstjöðvanna sem kenndar eru við Krýsuvík og Fagradalsfjall. hann varð á 3,7 km dýpi. Það hversu grunnur hann er getur skýrt hve snarpur hann virtist vera.
UPPFÆRT: Nú hefur Veðurstofan fært hann upp í M 5,6 af því er virðist vera á vef Veðurstofunnar. Það er líka mun líklegri tala miðað við hversu öflugur skjálfinn var.
Engin merki eru um gosóróa enda að öllum líkindum um brotaskjálfta að ræða. Hinsvegar er þetta framhald þess mikla óróa sem hefur verið á Reykjanesskaganum allt þetta ár en umbrotin virðast færast austur eftir skaganum.
Snarpur eftirskjálfti mældist kl. 14:31 og var M 4,0 af stærð og fannst vel á suðvesturlandi.
Athugasemdir
Tjörnesbrotabeltið: Snarpir skjálftar á Skjálfanda – færast nær Húsavík
Skjálfti upp á M 4,6 varð í dag um 7 km SA af Flatey á Skjálfanda. Annar skjálfti upp á M 4.0 varð skömmu síðar. Þetta er framhald hrinu sem hefur verið i gangi vestar á þessu sama misgengi, Húsavíkur-Flateyjar misgenginu svokallaða.

Það sem er að gerast nú er að skjálftarnir eru að færa sig austur eftir misgenginu í átt að Húsavík. Það eru ekkert sérlega góð tíðindi því þetta misgengi liggur alveg að Húsavík og skjálftar geta orðið mjög stórir á þessu misgengi. Talið er að skjálfti sem varð á þessum slóðum árið 1755 hafi verið um M 7,0 af stærð. Síðast urðu mjög harðir skjálftar árið 1872, þá urðu amk. tveir skjálftar um og yfir M 6 af stærð. það er því nokkuð ljóst að spenna til að framkalla stóran skjálfta er til staðar á misgenginu.
Það er erfitt að segja til um framhaldið en íbúar á Húsavík og nágrenni ættu að vera viðbúnir skjálftum á næstu dögum og vikum , hvort heldur þeir verða svipaðir af stærð og þessir í dag eða stærri.

Athugasemdir
Snarpir skjálftar við Fagradalsfjall
Skjálfti af stærðinni M 4,2 varð um 3,2 km austur af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 16 15 í dag. Rúmum tveim tímum áður hafði orðið skjálfti upp á M 3,7 á sömu slóðum. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst og þar af þrír yfir M 3,0. Skjálftarnir eru nær allir á 5-7 km dýpi.

Þetta er framhald þeirrar atburðarásar sem hefur verið í gangi nær allt árið á Reykjanesskaganum þar sem kvikuinnskot vestar á skaganum valda spennubreytingum á stóru svæði. Nú virðast skjálftarnir vera að færast austar, þessi hrina við Fagradalsfjall er nokkrum km. austar heldur en skjálftarnir sem urðu 20. júlí sl.
Það má því algjörlega reikna með skjálftum áfram á skaganum og það nokkuð sterkum. Virknin er nú að færast nær Krísuvíkureldstöðinni og því svæði þar sem jarðskjálftar verða reglulega og ekki ólíklegt að þar fari í gang virkni á næstu vikum og mánuðum.