Allsnarpur Suðurlandsskjálfti við Vatnafjöll

Um kl. hálf tvö í dag varð jarðskjálfti M 5,2 við Vatnafjöll sem eru skammt suðaustur af Heklu.  Í fyrstu var talið að skjálftinn gæti boðað upphaf Heklugoss en nánari úrvinnsla sýnir að þetta er nokkuð dæmigerður Suðurlandsskjálfti, alls ótengdur eldsumbrotum.  Stórir jarðskjálftar hafa oft áður orðið á þessu svæði, t.d. árið 1987 þegar varð þar skjálftu uppá tæplega M 6 við Vatnafjöll.  Þversprungur Suðurlandsskjálftabeltisins ná yfir á þetta svæði.

Þar sem stutt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum (2000 og 2008) þá er ólíklegt að þetta boði fleiri skjálfta annarsstaðar á Suðurlandsundirlendinu.

Hvað Heklu varðar hinsvegar þá er hún búin að vera tilbúin í gos frá árinu 2006.  Það má þó vel vera að hún sé komin í sinn eðlilega fasa eins og hún var á öldum áður, með ca 1-2 gos á öld og þau þá í stærri kantinum.  Sé svo þá geta vel liðið 30 ár eða meira þar til hún gýs næst.  En hvort hún er komin í þann fasa aftur er þó ekki nokkur leið að vita.

Jarðskjálftar af þessari stærðargráðu er þó óþekktir hvað varðar undanfara Heklugoss, venjulega eru þeir miklu vægari.

Goshlé í tvær vikur – Skjálftar mælast á ný við Keili

Upptök skjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Ísland

Nú hefur ekki verið teljandi virkni í gosinu í Geldingadölum í tvær vikur.  Í gær hófst skjálftavirkni skammt suðvestur af Keili, á sömu slóðum og skjálftahrinan hófst í undanfara eldgossins.    

Hvað þessi nýja skjálftavirkni þýðir er ekki endilega augljóst ,nema hvað að umbrotunum er hvergi nærri lokið.  Þessir skjálftar eru flestir á 6-7 km dýpi og eru þess eðlis að þarna virðist vera kvika á ferð.  Stærstu skjálftarnir eru á milli M 3,0 og 3,5. Mögulega er þarna einhver fyrirstaða eða stífla í kvikuganginum, þ.e. kvikan er enn að leita yfirborðs en kemst ekki þá leið sem hún fór áður að Fagradalsfjalli.  Þetta gæti þýtt aukna skjálftavirkni á næstunni þangað til kvikan nær að ryðja sér leið til yfirborðs.  Líklegasti staðurinn fyrir gos er nú samt sem áður núverandi gosstöðvar. 

Það sem aðskilur þessi umbrot frá hefðbundnum eldsumbrotum á Reykjanesskaga er uppruni kvikunnar.  Kvikan er upprunnin á 17-20 km dýpi í möttli og í flestum tilvikum leitaði slík kvika í kvikuhólf undir eldstöðvum og staldraði þar við í einhver ár eða lengur áður en hún leitaði yfirborðs.  Í þessu tilviki leitar kvikan yfirborðs strax í stað þess að fylla á kvikuhólf.  Það þýðir líka að staðsetning eldsuppkomunnar er tilviljakenndari og óreglulegri en ef  kvikan kæmi úr grunnstæðari kvikuhólfi.

Einhverjir vísindamenn hafa í dag talið skýringuna á skjálftunum mögulega vera að jarðskorpan væri að jafna sig eftir gosið eða að þetta væru hefðbundnir skjálftar á flekaskilum.  Það finnst mér ólíklegt, bæði vegna staðsetningar skjálftanna á litlu svæði við kvikuganginn og eðli þeirra.  Mikill fjöldi sjáskjálfta.  Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum og vikum.

Verulegt landris við Öskju

Askja – Mynd fengin frá Wikimedia Commons

Landris upp á um 5 cm hefur mælst á svæði vestan við Öskjuvatn síðan í byrjun ágúst samkvæmt GPS mælingum og gervitunglagögnum.  Þetta er í fyrsta skipti frá því slíkar mælingar hófust að þensla mælist við Öskju.  Jarðskjálftar hafa þó verið tíðir á svæðinu.  Þensla upp á 5 cm verður að teljast verulega mikil á aðeins mánuði og verður eiginlega ekki skýrð á annan hátt en að um kvikuinnskot sé að ræða.  

Síðast gaus við Öskju árið 1961.  Var það fremur lítið gos.  Á árunum 1921-1930 gekk yfir goshrina á svæðinu með allmörgum minniháttar gosum.  Árið 1875 varð sannkallað stórgos í Öskju og eftir það gos myndaðist Öskjuvatn í kjölfar öskjumyndunar sem eldstöðin dregur nafn sitt af.  Gríðarleg aska féll á austurlandi í þessu gosi sem verð vegna sprengigos í gígnum Víti.  Í kjölfar þessa goss fluttu fjölmargir austfirðingar vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna.

Þótt landris sé nú að eiga sér stað við Öskju þá er það engin ávísun á eldgos í náinni framtíð.  Oftar en ekki lognast slíkar hrinur útaf eða að eldstöðvar taki sér langan tíma í undirbúning goss.  Eyjafjallajökull bærði t.d. á sér fimmtán árum áður en hann gaus með þenslu og jarðskjálftum.  

Það verðu þó athyglisvert að sjá hvert framhaldið verður því Askja er vissulega ein af öflugustu eldstöðvum landsins.

Skjálftar í Kötlu og Bárðarbungu

Skjálftar í Kötlu síðustu sólarhringa. Myndin ef fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar mældust í gærkvöldi í Kötluöskjunni, sá stærsti M 3,2 en á þriðja tug smærri skjálfta mældust.  Það er alþekkt að skjálftahrinur verði í Kötlu síðsumars og fram á haust vegna fargbreytinga, þ.e. sumarbráðnunar jökulsins sem hefur í för með sér þrýstingsbreytingar í Kötluöskjunni.  það má alveg reikna með skjálftahrinum vel fram á haustið.  Eldgos í Kötlu er nú heldur aldrei hægt að útiloka enda að verða liðin 103 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé frá landnámi.

Í fyrradag urðu svo tveir nokkuð snarpir skjálftar í Bárðarbungu.  Stærðin var nokkuð á reyki en sá stærri virðist hafa verið um M 4,5 og hinn litlu minni.  Þessir skjálftar stafa af kvikusöfnun í kvikuhólf kerfisins sem þrýstir á botn öskjunnar.  Askjan seig um 60 metra í Holuhraunsgosinu 2014-15 og hefur svo aftur hækkað um 10 metra síðan.  Þessar hreyfingar valda skjálftumsem geta orðið nokkuð öflugir.  Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi í Bárðarbungu.

Gosvirknin lotubundin – Veruleg gosmengun á höfuðborgarsvæðinu

Gosmóðan var greinileg á höfuðborgarsvæðinu síðustu nótt. Mynd: Óskar Haraldsson

Gosið í Fagradalsfjalli hefur enn einu sinni tekið hamskiptum.  Í Tvígang hefur það algjörlega legið niðri í upp undir 12 tíma en tekið sig svo upp aftur af enn meiri krafti en áður.  Hefur virknin fallið svo mikið og lengi að margir hafa talið að gosinu væri hreinlega lokið.  Hafa goshléin verið útskýrð með því að hrun hafi orðið í gígnum og hann stíflast.  Þetta verður að teljast heldur hæpin kenning því gosórói hefði átt að mælast ef kvikan væri að hamast við að brjóta sér leið upp aftur.  Líklegra er að framboð kviku að neðan hafi tímabundið minnkað.  Ef svo er þá má ætla að farið sé að styttast í goslok.

Það er þó ekki að sjá á gosinu í dag að því sé að ljúka, það hefur verið mjög öflugt frá því í gærkvöldi.  Hraun rennur bæði í Nátthaga og Meradali, þó heldur meira í Meradali.  Það hefur ekki bæst við það mikið í Nátthaga að stíflunni sem þar var gerð til varnar Suðurstrandavegi sé ógnað í bili amk.  

Í hægum vindi safmanst gosmóðan gjarnan upp og mjakast einhverja tugi kílómetra frá upptökunum.  Í gær lá talsverð móða yfir höfuðborgarsvæðinu og voru viðkvæmir beðnir að halda sig helst innandyra. 

Lítil jarðskjálftavirkni hefur fylgt gosinu alveg frá því það hófst og mælast nú mjög fáir og litlir skjálftar á Reykjanesskaganum.  Það bendir til þess að gosrásin sé vel smurð og kvikan flæðir áreynsulaust upp á yfirborðið.

Scroll to Top