Verulegt landris við Öskju

Askja – Mynd fengin frá Wikimedia Commons

Landris upp á um 5 cm hefur mælst á svæði vestan við Öskjuvatn síðan í byrjun ágúst samkvæmt GPS mælingum og gervitunglagögnum.  Þetta er í fyrsta skipti frá því slíkar mælingar hófust að þensla mælist við Öskju.  Jarðskjálftar hafa þó verið tíðir á svæðinu.  Þensla upp á 5 cm verður að teljast verulega mikil á aðeins mánuði og verður eiginlega ekki skýrð á annan hátt en að um kvikuinnskot sé að ræða.  

Síðast gaus við Öskju árið 1961.  Var það fremur lítið gos.  Á árunum 1921-1930 gekk yfir goshrina á svæðinu með allmörgum minniháttar gosum.  Árið 1875 varð sannkallað stórgos í Öskju og eftir það gos myndaðist Öskjuvatn í kjölfar öskjumyndunar sem eldstöðin dregur nafn sitt af.  Gríðarleg aska féll á austurlandi í þessu gosi sem verð vegna sprengigos í gígnum Víti.  Í kjölfar þessa goss fluttu fjölmargir austfirðingar vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna.

Þótt landris sé nú að eiga sér stað við Öskju þá er það engin ávísun á eldgos í náinni framtíð.  Oftar en ekki lognast slíkar hrinur útaf eða að eldstöðvar taki sér langan tíma í undirbúning goss.  Eyjafjallajökull bærði t.d. á sér fimmtán árum áður en hann gaus með þenslu og jarðskjálftum.  

Það verðu þó athyglisvert að sjá hvert framhaldið verður því Askja er vissulega ein af öflugustu eldstöðvum landsins.

Skjálftar í Kötlu og Bárðarbungu

Skjálftar í Kötlu síðustu sólarhringa. Myndin ef fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar mældust í gærkvöldi í Kötluöskjunni, sá stærsti M 3,2 en á þriðja tug smærri skjálfta mældust.  Það er alþekkt að skjálftahrinur verði í Kötlu síðsumars og fram á haust vegna fargbreytinga, þ.e. sumarbráðnunar jökulsins sem hefur í för með sér þrýstingsbreytingar í Kötluöskjunni.  það má alveg reikna með skjálftahrinum vel fram á haustið.  Eldgos í Kötlu er nú heldur aldrei hægt að útiloka enda að verða liðin 103 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé frá landnámi.

Í fyrradag urðu svo tveir nokkuð snarpir skjálftar í Bárðarbungu.  Stærðin var nokkuð á reyki en sá stærri virðist hafa verið um M 4,5 og hinn litlu minni.  Þessir skjálftar stafa af kvikusöfnun í kvikuhólf kerfisins sem þrýstir á botn öskjunnar.  Askjan seig um 60 metra í Holuhraunsgosinu 2014-15 og hefur svo aftur hækkað um 10 metra síðan.  Þessar hreyfingar valda skjálftumsem geta orðið nokkuð öflugir.  Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi í Bárðarbungu.

Gosvirknin lotubundin – Veruleg gosmengun á höfuðborgarsvæðinu

Gosmóðan var greinileg á höfuðborgarsvæðinu síðustu nótt. Mynd: Óskar Haraldsson

Gosið í Fagradalsfjalli hefur enn einu sinni tekið hamskiptum.  Í Tvígang hefur það algjörlega legið niðri í upp undir 12 tíma en tekið sig svo upp aftur af enn meiri krafti en áður.  Hefur virknin fallið svo mikið og lengi að margir hafa talið að gosinu væri hreinlega lokið.  Hafa goshléin verið útskýrð með því að hrun hafi orðið í gígnum og hann stíflast.  Þetta verður að teljast heldur hæpin kenning því gosórói hefði átt að mælast ef kvikan væri að hamast við að brjóta sér leið upp aftur.  Líklegra er að framboð kviku að neðan hafi tímabundið minnkað.  Ef svo er þá má ætla að farið sé að styttast í goslok.

Það er þó ekki að sjá á gosinu í dag að því sé að ljúka, það hefur verið mjög öflugt frá því í gærkvöldi.  Hraun rennur bæði í Nátthaga og Meradali, þó heldur meira í Meradali.  Það hefur ekki bæst við það mikið í Nátthaga að stíflunni sem þar var gerð til varnar Suðurstrandavegi sé ógnað í bili amk.  

Í hægum vindi safmanst gosmóðan gjarnan upp og mjakast einhverja tugi kílómetra frá upptökunum.  Í gær lá talsverð móða yfir höfuðborgarsvæðinu og voru viðkvæmir beðnir að halda sig helst innandyra. 

Lítil jarðskjálftavirkni hefur fylgt gosinu alveg frá því það hófst og mælast nú mjög fáir og litlir skjálftar á Reykjanesskaganum.  Það bendir til þess að gosrásin sé vel smurð og kvikan flæðir áreynsulaust upp á yfirborðið.

Gönguleiðir að gosinu lokast vegna hraunflæðis

 

Þetta kort frá 7. júní sem sýnir útbreiðslu hraunsins er að finna á vefnum https://www.visitreykjanes.is/is/allt-um-eldgosid/gonguleidin/kort-af-svaedinu 

Hraun tók að renna þvert á gönguleið A í gær og lokaði þar með leiðinni að helsta útsýnisstaðnum.  Svonefndur “Gónhóll” hafði þegar lokast af en hóll aftan við hann hafði tekið við hlutverkinu sem besti útsýnisstaðurinn.  Svo er ekki lengur og var svæðinu lokað í dag.  Verið er að hugsa næstu skref hvað varðar gönguleiðir.

Gosið sjálft hefur einnig breytt um takt.  Nú er sírennsli úr gígnum.  Mikil hrauntjörn er í gígnum sem kraumar og sýður í.  Hraunár eru sjáanlegar á yfirborði til austurs og suðausturs en líklega er rennslið þó mest í lokuðum rásum undir storknuðu yfirborði.

Meradalir eru nú vel botnfullir af hrauni.  Nú rennur niður á Nátthaga frá þremur stöðum, stíflunum tveim í “Nafnlausadal” og svo liggur nú taumur frá Geldingadal yfir gönguleið A og beint niður í Nátthaga.  Sá dalur getur þó tekið við allmiklu og þó hraunið þokist nær þjóðveginum þá verður að telja líklegt að það taki enn nokkrar vikur í viðbót fyrir hraunið að ógna veginum.

Einnig er möguleiki að hraunið í Geldingadal finni sér leið niður í Nátthagakrika eftir gönguleið A.  Hvað sem þessum vangaveltum líður er ljóst að sífellt erfiðara er að finna aðgengilegan stað til þess að horfa á gíginn sjálfan þar sem hraunið flæðir lengra frá gígnum í allar áttir eftir því sem á líður.

Síðustu mælingar benda til þess að hraunrennslið sé um 13 rúmmetrar á sekúndu en það kæmi ekki á óvart þó næsta mæling sýndi nokkra aukningu.  

Heimsókn á gosstöðvarnar – Hraunið sækir fram í Nátthaga

Undirrituðum gafst loksins tækifæri til þess að heimsækja gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í gærkvöldi.  Eins og búast mátti við blasti við stórfenglegt sjónarspil móður náttúru.

Í sjálfu sér hefur ekki mikið nýtt átt sér stað hvað gosið varðar síðustu tvær vikurnar eða svo.  Tilraunin með varnargarðana var góðra gjalda verð.  Þeir hægja vissulega á hraunstraumi niður í Nátthaga en hraunið hefur nú þegar komist yfir eystri varnargarðinn í allmiklu magni og eitthvað lekið yfir þann vestari.

Jarðfræðingar eru ekki sammála um hve langan tíma tekur fyrir hraunið að komast að Suðurstrandavegi.  Heyrst hefur frá einni viku og upp í fáeina mánuði.  Þess má geta að fyrsta sólarhringinn sem hraunið rann niður í Nátthaga komsta það um þriðjung leiðarinnar að veginum!  Hallinn er þó minni eftir því sem neðar dregur auk þess sem náttúruleg fyrirstaða er í minni dalsins sem ætti að tefja hraunflæðið verulega.  Auk þess  er mögulegt að hlaða upp varnargörðum svipuðum og gert var í nafnlausa dalnum svokallaða en ólíklegt verður að telja að það sé einhver langtíma lausn.

Nú hefur gosið staðið í rúmlega tvo mánuði og meðalhraunrennsli er talsvert meira nú en fyrstu vikurnar.  Mikil hrauntjörn hefur myndast suðaustur af gígnum sem gæti verið fyrsta vísbending um dyngjumyndun.  Tjörnin mun eftir því sem á líður þjóna hlutverki einskonar miðlunarlóns sem deilir hraunstraumum í allar áttir.  

Nú veltum við fyrir okkur sviðsmyndum varðandi lengd gossins:

Hvað gerist ef gosið stendur í 6-12 mánuði?  

Hraunið mun óhjákvæmilega ná niður á Suðurstrandaveg og til sjávar.  Vegurinn verður að sjálfsögðu úr leik allan þann tíma.  Hraunið í Geldingadal mun nær örugglega loka leiðinni uppá “Sjónarhól” og reyndar líklegt að það gerist innan tveggja vikna eða svo.

Hvað gerist ef gosið stendur í 1-5 ár ?

Svosem ekki mikið meira en ef það stendur í 6-12 mánuði nema hvað hraunið mun algjörlega fylla Meradali, Geldingadali og Nátthaga.  Líklegt er að hrauntangi verði til út í sjó neðan nátthaga.  Hraun mun flæða uppúr Geldingadal og niður eftir gönguleiðinni og að endingu rjúfa enn stærra skarð í Suðurstrandaveg sem að sjálfsögðu verður ónothæfur allan tímann sem gosið varir.

Hvað gerist ef gosið varir í 5-20 ár eða lengur?

Við sjáum stóra dyngju myndast.  Hún gæti jafnvel hulið fjallendið í kring að miklu leyti.  Hraun rennur eftir sem áður aðallega til suðurs og austurs en leitar einnig leiða til suðvesturs og vesturs.  Það gæti komið til þess að huga þurfi að því að verja Grindavík, beina hrauninu frá bænum.  Núverandi gönguleiðir að eldstöðvunum færu allar undir hraun. 

Mögulega gæti myndast dyngja á stærð við Þráinsskjöld en miðað við núverandi hraunrennsli tæki slík myndun um 20 ár en heildarrúmmál Þráinsskjaldar er um 5 rúmkílómetrar.  Reikna má með að 10-20 kílómetrar af Suðurstrandavegi færu undir hraun.  Þá er ekki hægt að útiloka hraunflæði til norðurs en landslagi þarna háttar þannig að mjög ólíklegt verður að telja að hraunið færi að ógna Reykjanesbrautinni.  Líklega yrði þegar farið að gjósa annarsstaðar á Reykjanesskaganum þar sem ógnin væri meiri hvað það varðar.

 

Scroll to Top