Kvikuinnskotið við Fagradalsfjall hefur stöðvast

Um jólaleitið stefndi allt í nýtt eldgos við Fagradalsfjall þegar áköf skjálftahrina gekk yfir.  Ljóst var að um kvikuinnskot var að ræða, ekki þó eins öflugt og það sem átti sér stað fyrir gosið í mars í fyrra.  Um og uppúr áramótum tók mjög að draga úr skjálftum og gerfihnattagögn ásamt Gps mælingum sýndu að innskotið sem þó skorti aðeins um 1600 metra til að ná til yfirborðs var við það að stöðvast.  

Líklega var mun minni kvika á ferðinni en í undanfara gossins í mars og ekki nægur þrýstingur til að koma henni til yfirborðs í þetta skiptið.  Líkur á eldgosi hafa því minnkað til mikilla muna í þessari lotu.

Hvað framhaldið varðar þá verður að telja allar líkur á því að umbrot haldi áfram á Reykjanesskaganum á komandi árum og áratugum.  Nokkur líkindi virðast vera með þessum umbrotum og því sem gekk á í Kröflukerfinu á árunum 1975-84.  Þá urðu um 20 kvikuinnskot á 9 árum og 9 þeirra urðu að eldgosum en hin storknuðu neðanjarðar eins og þetta virðist vera að gera.  

Umbrotin á Reykjanesskaga hófust með landrisi við Svartsengi í janúar 2020 og síðan hafa nokkrar slíkar rishrinur gengið yfir. Má því fastlega gera ráð fyrir frekari tíðindum innan ca 6 mánaða eða svo. 

 

ÖFLUG SKJÁLFTAHRINA Á REYKJANESSKAGA – ANNAÐ ELDGOS YFIRVOFANDI

Síðastliðinn þriðjudag hófst öflug jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall sem svipar mjög til hrinunnar sem átti sér stað í aðdraganda eldgossins sem hófst 19.mars.  Síðustu tvo sólarhringa hefur virknin aukist og fjölmargir skjálftar mælst yfir M 4 en þeir finnast víða á suðvesturhorni landsins.  Það eru að mælast upp undir 3000 skjálftar á sólarhring sem er gríðarlega öflug virkni.

Það er alveg ljóst að kvika er að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið og veldur þar með þessum skjálftum.  Það er líka alveg ljóst að það mun takast því í raun hefur verið stöðugt uppstreymi kviku úr möttli undir Fagradalsfjalli og nágrenni frá því í febrúar í febrúar á þessu ári og liklega þó lengur því land tók að rísa á skaganum árið 2020.  Þótt gosinu hafi lokið í september og formlega verið blásið af fyrir viku síðan þá er ljóst að þetta var aðeins stund á milli stríða.

Líklegasta staðsetning væntanlegs eldgoss er í grennd við gosstöðvarnar frá því fyrr á árinu.  Þar er þó greinilega nokkur stífla og kvikan leitar uppkomu út fyrir það svæði.  Best væri að fá gosið sem fyrst á þessum stað til að minnka líkur á að það komi upp á verri stað, t.d. nær Grindavík eða austar í Krísuvíkurkerfinu.

Meðfylgjandi mynd sýnir upptök skjálftanna.  Það sem helst hræðir eru skjálftar rétt norðaustur af Grindavík.  Þeir eru taldir vera svokallaðir gikkskjálftar þ.e. kvika er ekki þarna á ferð heldur afleiðingar spennunnar á svæðinu.  Þarna voru líka skjálftasvarmar í aðdraganda eldgossins í mars og dálítið sérstakt að það komi fram gikkskjálftar í þessu magni á fremur þröngu svæði.  Þarna á sama stað eru fornar gossprungur þar sem hraunið sem Grindavík stendur á hefur runnið.  Það er því full ástæða til að hafa allan vara á þessu svæði.

Síðasta sólarhring hafa einnig mælst skjálftar austan Kleifarvatns en það er á mörkum svæðis sem hefur verið “læst” þ.e. mjög lítið af skjálftum mælst alllengi austan vatnsins.  Haldi þeir áfram í austurátt gæti það triggerað margumtalaðan stóran jarðskjálfta á Brennisteins/Bláfjallasvæðinu.  Það má því segja að ansi stór hluti Reykjanesskagans er undir í þessum umbrotum en best að vona að gosvirknin haldi sig í það minnsta á svipuðum slóðum áfram.

Myndin ef fengin af vef map.is og sýnir upptök skjálftanna sl. viku á Reykjanesskaga.

Allsnarpur Suðurlandsskjálfti við Vatnafjöll

Um kl. hálf tvö í dag varð jarðskjálfti M 5,2 við Vatnafjöll sem eru skammt suðaustur af Heklu.  Í fyrstu var talið að skjálftinn gæti boðað upphaf Heklugoss en nánari úrvinnsla sýnir að þetta er nokkuð dæmigerður Suðurlandsskjálfti, alls ótengdur eldsumbrotum.  Stórir jarðskjálftar hafa oft áður orðið á þessu svæði, t.d. árið 1987 þegar varð þar skjálftu uppá tæplega M 6 við Vatnafjöll.  Þversprungur Suðurlandsskjálftabeltisins ná yfir á þetta svæði.

Þar sem stutt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum (2000 og 2008) þá er ólíklegt að þetta boði fleiri skjálfta annarsstaðar á Suðurlandsundirlendinu.

Hvað Heklu varðar hinsvegar þá er hún búin að vera tilbúin í gos frá árinu 2006.  Það má þó vel vera að hún sé komin í sinn eðlilega fasa eins og hún var á öldum áður, með ca 1-2 gos á öld og þau þá í stærri kantinum.  Sé svo þá geta vel liðið 30 ár eða meira þar til hún gýs næst.  En hvort hún er komin í þann fasa aftur er þó ekki nokkur leið að vita.

Jarðskjálftar af þessari stærðargráðu er þó óþekktir hvað varðar undanfara Heklugoss, venjulega eru þeir miklu vægari.

Goshlé í tvær vikur – Skjálftar mælast á ný við Keili

Upptök skjálfta á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Ísland

Nú hefur ekki verið teljandi virkni í gosinu í Geldingadölum í tvær vikur.  Í gær hófst skjálftavirkni skammt suðvestur af Keili, á sömu slóðum og skjálftahrinan hófst í undanfara eldgossins.    

Hvað þessi nýja skjálftavirkni þýðir er ekki endilega augljóst ,nema hvað að umbrotunum er hvergi nærri lokið.  Þessir skjálftar eru flestir á 6-7 km dýpi og eru þess eðlis að þarna virðist vera kvika á ferð.  Stærstu skjálftarnir eru á milli M 3,0 og 3,5. Mögulega er þarna einhver fyrirstaða eða stífla í kvikuganginum, þ.e. kvikan er enn að leita yfirborðs en kemst ekki þá leið sem hún fór áður að Fagradalsfjalli.  Þetta gæti þýtt aukna skjálftavirkni á næstunni þangað til kvikan nær að ryðja sér leið til yfirborðs.  Líklegasti staðurinn fyrir gos er nú samt sem áður núverandi gosstöðvar. 

Það sem aðskilur þessi umbrot frá hefðbundnum eldsumbrotum á Reykjanesskaga er uppruni kvikunnar.  Kvikan er upprunnin á 17-20 km dýpi í möttli og í flestum tilvikum leitaði slík kvika í kvikuhólf undir eldstöðvum og staldraði þar við í einhver ár eða lengur áður en hún leitaði yfirborðs.  Í þessu tilviki leitar kvikan yfirborðs strax í stað þess að fylla á kvikuhólf.  Það þýðir líka að staðsetning eldsuppkomunnar er tilviljakenndari og óreglulegri en ef  kvikan kæmi úr grunnstæðari kvikuhólfi.

Einhverjir vísindamenn hafa í dag talið skýringuna á skjálftunum mögulega vera að jarðskorpan væri að jafna sig eftir gosið eða að þetta væru hefðbundnir skjálftar á flekaskilum.  Það finnst mér ólíklegt, bæði vegna staðsetningar skjálftanna á litlu svæði við kvikuganginn og eðli þeirra.  Mikill fjöldi sjáskjálfta.  Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum og vikum.

Verulegt landris við Öskju

Askja – Mynd fengin frá Wikimedia Commons

Landris upp á um 5 cm hefur mælst á svæði vestan við Öskjuvatn síðan í byrjun ágúst samkvæmt GPS mælingum og gervitunglagögnum.  Þetta er í fyrsta skipti frá því slíkar mælingar hófust að þensla mælist við Öskju.  Jarðskjálftar hafa þó verið tíðir á svæðinu.  Þensla upp á 5 cm verður að teljast verulega mikil á aðeins mánuði og verður eiginlega ekki skýrð á annan hátt en að um kvikuinnskot sé að ræða.  

Síðast gaus við Öskju árið 1961.  Var það fremur lítið gos.  Á árunum 1921-1930 gekk yfir goshrina á svæðinu með allmörgum minniháttar gosum.  Árið 1875 varð sannkallað stórgos í Öskju og eftir það gos myndaðist Öskjuvatn í kjölfar öskjumyndunar sem eldstöðin dregur nafn sitt af.  Gríðarleg aska féll á austurlandi í þessu gosi sem verð vegna sprengigos í gígnum Víti.  Í kjölfar þessa goss fluttu fjölmargir austfirðingar vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna.

Þótt landris sé nú að eiga sér stað við Öskju þá er það engin ávísun á eldgos í náinni framtíð.  Oftar en ekki lognast slíkar hrinur útaf eða að eldstöðvar taki sér langan tíma í undirbúning goss.  Eyjafjallajökull bærði t.d. á sér fimmtán árum áður en hann gaus með þenslu og jarðskjálftum.  

Það verðu þó athyglisvert að sjá hvert framhaldið verður því Askja er vissulega ein af öflugustu eldstöðvum landsins.

Scroll to Top