Heimsókn á gosstöðvarnar – Hraunið sækir fram í Nátthaga

Birta á :

Undirrituðum gafst loksins tækifæri til þess að heimsækja gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í gærkvöldi.  Eins og búast mátti við blasti við stórfenglegt sjónarspil móður náttúru.

Í sjálfu sér hefur ekki mikið nýtt átt sér stað hvað gosið varðar síðustu tvær vikurnar eða svo.  Tilraunin með varnargarðana var góðra gjalda verð.  Þeir hægja vissulega á hraunstraumi niður í Nátthaga en hraunið hefur nú þegar komist yfir eystri varnargarðinn í allmiklu magni og eitthvað lekið yfir þann vestari.

Jarðfræðingar eru ekki sammála um hve langan tíma tekur fyrir hraunið að komast að Suðurstrandavegi.  Heyrst hefur frá einni viku og upp í fáeina mánuði.  Þess má geta að fyrsta sólarhringinn sem hraunið rann niður í Nátthaga komsta það um þriðjung leiðarinnar að veginum!  Hallinn er þó minni eftir því sem neðar dregur auk þess sem náttúruleg fyrirstaða er í minni dalsins sem ætti að tefja hraunflæðið verulega.  Auk þess  er mögulegt að hlaða upp varnargörðum svipuðum og gert var í nafnlausa dalnum svokallaða en ólíklegt verður að telja að það sé einhver langtíma lausn.

Nú hefur gosið staðið í rúmlega tvo mánuði og meðalhraunrennsli er talsvert meira nú en fyrstu vikurnar.  Mikil hrauntjörn hefur myndast suðaustur af gígnum sem gæti verið fyrsta vísbending um dyngjumyndun.  Tjörnin mun eftir því sem á líður þjóna hlutverki einskonar miðlunarlóns sem deilir hraunstraumum í allar áttir.  

Nú veltum við fyrir okkur sviðsmyndum varðandi lengd gossins:

Hvað gerist ef gosið stendur í 6-12 mánuði?  

Hraunið mun óhjákvæmilega ná niður á Suðurstrandaveg og til sjávar.  Vegurinn verður að sjálfsögðu úr leik allan þann tíma.  Hraunið í Geldingadal mun nær örugglega loka leiðinni uppá “Sjónarhól” og reyndar líklegt að það gerist innan tveggja vikna eða svo.

Hvað gerist ef gosið stendur í 1-5 ár ?

Svosem ekki mikið meira en ef það stendur í 6-12 mánuði nema hvað hraunið mun algjörlega fylla Meradali, Geldingadali og Nátthaga.  Líklegt er að hrauntangi verði til út í sjó neðan nátthaga.  Hraun mun flæða uppúr Geldingadal og niður eftir gönguleiðinni og að endingu rjúfa enn stærra skarð í Suðurstrandaveg sem að sjálfsögðu verður ónothæfur allan tímann sem gosið varir.

Hvað gerist ef gosið varir í 5-20 ár eða lengur?

Við sjáum stóra dyngju myndast.  Hún gæti jafnvel hulið fjallendið í kring að miklu leyti.  Hraun rennur eftir sem áður aðallega til suðurs og austurs en leitar einnig leiða til suðvesturs og vesturs.  Það gæti komið til þess að huga þurfi að því að verja Grindavík, beina hrauninu frá bænum.  Núverandi gönguleiðir að eldstöðvunum færu allar undir hraun. 

Mögulega gæti myndast dyngja á stærð við Þráinsskjöld en miðað við núverandi hraunrennsli tæki slík myndun um 20 ár en heildarrúmmál Þráinsskjaldar er um 5 rúmkílómetrar.  Reikna má með að 10-20 kílómetrar af Suðurstrandavegi færu undir hraun.  Þá er ekki hægt að útiloka hraunflæði til norðurs en landslagi þarna háttar þannig að mjög ólíklegt verður að telja að hraunið færi að ógna Reykjanesbrautinni.  Líklega yrði þegar farið að gjósa annarsstaðar á Reykjanesskaganum þar sem ógnin væri meiri hvað það varðar.

 

Scroll to Top