Mikill reykur sést nú á vefmyndavél RÚV frá suðurenda Geldingadals. Einhverjir töldu að etv. væri um sinubruna að ræða en það er eiginlega útilokað enda reykurinn staðbundinn og talsvert frá hraunjaðrinum þar sem líklegast er að gróðureldar blossi upp. Þarna gæti því verið um nýja opnun að ræða.
Ef af verður þá er líklegast að hraunið renni beint niður í Geldingadal en auki á hraunlagastaflann í suðurhlutanum og meiri líkur á að það nái að skríða yfir haftið yfir í Nátthaga.
Í nótt virtist gosið í aðalgígnum breyta um hegðun. Í staðinn fyrir stöðuga gosvirkni varð hún slitróttari en með mjög háum kvikustrókum þess á milli, hærri en áður hafa sést í gosinu. Þá er einnig mikil breyting á óróagröfum, virknin er mun breytilegri en áður, sérstaklega á hæsta tíðnisviðinu. Það mynstur fellur reynda alveg að sýnilegu breytingunum. Þessi breyting gæti stafað af því að meiri fyrirstaða sé í gosrásinni eða gígnum sem eykur líkur á nýrri gígamyndun. Það virðist akkúrat vera að gerast.