Eldgosið sem hófst 14.janúar lifði aðeins í 44 klukkustundir og var í raun mjög lítið þrátt fyrir að valda stórtjóni. Aðeins um 2,8 milljónir rúmmetrar af kviku kom upp á yfirborðið samanborið við 11 milljón rúmmetra í gosinu í desember. – Alveg eins og eftir desember gosið hófst landris áður en gosinu lauk. Það sem breyttist hinsvegar er að land seig ekki við gosið í Svartsengi, heldur aðeins á gps stöðvum í Eldvörpum og Skipastígshrauni. Það bendir til þess að það séu að einhverju leiti aðskilin kvikuhólf á þessum slóðum. Eldvörp og Skipastigshraun eru bæði sunnar og vestar en Svartsengi og það getur skýrt hversvegna gosið kom upp svona sunnarlega á Sundhnúkasprungunni.
Kvikan undir Svartsengi hreyfðist hinsvegar ekki og land þar hefur haldið áfram að rísa sem aldrei fyrr. Miðað við að innstreymi kviku sé um 15 rúmmetrar á sekúndu í þessi hólf eins og talið hefur verið þá safnast fyrir um 1,3 milljón rúmmetrar á sólarhring. Það er því ljóst að síðasta gos sló nánast ekkert á kvikusöfnunina.
Ef kvikan undir Svartsengi fer á hreyfingu er líklegast að hún komi upp um miðbik eða norðan til í Sundhnúkasprungunni, á svipuðum slóðum og gosið í desember. það er þó aldrei hægt að útiloka gos sunnar þ.e. nær Grindavík eða jafnvel gosopnun annarsstaðar en á Sundhnúkasprungunni , jafnvel í Svartsengi sjálfu. Það hefði þó væntanlega talsverðan aðdraganda í skjálftavirkni.
Nú er eins og áður segir biðstaða á öllum vígstöðvum en þó eru athyglisverðir hlutir að gerast annarsstaðar á Reykjanesskaganum. Talsverð skjálftavirkni hefur mælst í raun í allan vetur í grennd við Krýsuvík. Þessi virkni er dreifð, mikil í grennd við Kleifarvatn en einnig vestar, á Trölladyngjureininni. Þá hefur skjálftavirkni á Bláfjalla- Brennisteinsfjallasvæðinu einnig verið smámsaman að aukast. Það virðist því ljóst að allur Reykjanesskaginn er smámsaman að vakna af dvalanum og væntanlega og vonandi er lengra í stærri atburði á þessum slóðum samt.