Gosið stöðugt – Ekkert landris

Birta á :
Kort af vefsíðu www.isor.is sem sýnir útbreyðslu hrauna á Reykjanesskaganum. Rauðu flekkirnir eru hraun í eldunum sem hófust ári 2021 en þó vantar hraunið í núverandi gosi. Engu að síður sést vel að mikið vantar uppá að flatarmál nýju hraunanna nái flatarmáli hrauna frá 1210-1240 sem er litað ljósbleikt vestan megin við Sundhnúkahraunið. 

Nokkuð misvísandi fréttir hafa borist af gosinu á Sundhnúkasprungunni undanfarna sólarhringa.  Einhverjir jarðfræðingar töldu að það mundi varla lifa páskana en erfitt er að sjá á hverju slík spá var byggð því ekkert landris er sjáanlegt.  Það þýðir einfaldlega að kvikan safnast ekki lengur fyrir í Svartsengi eins og hún gerði áður.  Hún kemst átakalaust upp á yfirborðið.  Vissulega hefur gígunum fækkað en það gerist nær alltaf þegar líður á gos.  Kvikan finnur sér eina aðalleið upp eins og er nú að gerast.  Aðeins tveir gígar virðast virkir og má reikna með að sá smærri lognist útaf eftir einhverja daga.  Það þýðir þó ekki að framleiðsla gossins sé endilega að minnka, hún skilar sér bara upp um færri gosop.

Þá er ekki að sjá neinar breytingar á óróagröfum sem bendir til þess að gosið sé að skila svipaðri kvikuframleiðslu og undanfarna viku eða svo.  

Hve lengi getur gosið varað?  Ómögulegt að segja.  Þó virðist sem ögn minni kvika skili sér úr aðalkvikuhólfinu á ca 15km dýpi heldur en um var að ræða fyrir 2-4 mánuðum.  Það sást líka á hægara landrisi fyrir gosið.  Nú virðast ca 5-8 rúmmetrar á sekúndu skila sér upp í gosinu, það er heldur í lægri kantinum.  Þó svipað og var lengi vel í fyrsta gosinu við Fagradalsfjall árið 2021.  

Hinsvegar er ekki loku fyrir það skotið að framleiðslan aukist á ný.  Það þarf að hafa það hugfast að enn hefur lítill hluti kviku skilað sér til yfirborðs sem venjulega skila sér upp í “eldum” á Reykjanesskaga.  Ef miðað er t.d. við Reykjaneselda árin 1210-1240 á hafa varla meira en ca 20% af því sem þá kom upp skilað sér.  Þessi virkni gæti komið í hrinum, t.d. að núverandi gos lognast útaf eftir einhverjar vikur en þá komi nokkurra ára hlé þar til næsta syrpa af landrisi og óróa hefst, mögulega á svipuðum slóðum , mögulega í Eldvörpum og jafnvel úti á Reykjanesi.  Í heild má telja líklegt að þessi hrina standi yfir í 20-30 sé miðað við það sem vitað eru um samskonar hrinur í fortíðinni á Reykjanesskaganum.

Hvað er að gerast í Krýsuvík?  Enn einn óvissufaktorinn.  Mikil smáskjálftavirkni hefur verið við Krýsuvík undanfarna mánuði en þeim hefur ekki fylgt landris.  Þar sem þessi virkni er nokkuð dreyfð og mjög óregluleg, virðist ekki fylgja neinu sprungumynstri þá verður að telja líklegt að einhver kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi sem valdi þessu.  Þetta gæti auðvitað lognast útaf og líklegra en ekki að það geri það.  Krýsuvíkurkerfið virðist þó vera að rumska hægt og örugglega enda varð landris á svæðinu árið 2020 sem koðnaði niður.  Spurningin er hve lengi kerfið verður að vakna. Það veit enginn.  Líklegt verður þó að telja að kerfið verði nokkurnveginn til friðs meðan óróinn er í Svartsengiskerfinu.

Scroll to Top