Eldvirkni á Íslandi

Birta á :

Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?

hellisheiði

Þessi fleygu orð mælti Snorri Þorgrímsson til heiðinna manna sem töldu það merki um reiði guðanna þegar hraun rann ofan af Hellisheiði og stefndi á bæ eins kristna höfðingjans árið 1000 þegar Íslendingar tóku kristna trú.

Eldgos hafa frá upphafi Íslandsbyggðar verið ógn sem landsmönnum stafaði hætta af.  Fyrr á öldum þegar þjóðin lifði að mestu leiti á landbúnaði þá gátu jafnvel lítil gos valdið óbætanlegum skaða fyrst og fremst vegna öskufalls.  Flóð vegna gosa í jöklum hafa einnig valdið tjóni og í sumum tilvikum hraun t.d. í Skaftáreldum.

Hversvegna verða eldgos á Íslandi ?

Ástæðan er tvíþætt.  Í fyrsta lagi er Ísland staðsett á flekaskilum á úthafshrygg þar sem tvo stóra fleka rekur frá hvor öðrum.  Er þar um að ræða Ameríkuflekann og Evrasíuflekann.  Flekaskilin liggja nokkurnveginn frá Reykjanesskaga, um Hengil, upp á hálendið við Langjökul, þaðan að vestanverðum Vatnajökli,  norður eftir Sprengisandi, um Kröflusvæðið, norður í Kelduhverfi og þaðan á  haf út fyrir norðan.  Þetta er þó ekki algjörlega klippt og skorið því þverbrotabelti eru bæði við suður og norðurland þar sem smáflekar og flekabrot koma við sögu.

Í öðru lagi er Ísland staðsett ofan á svokölluðum “heitum reit” (hot spot).  Ef þessi heiti reitur væri ekki undir landinu þá væri það ekki ofan sjávar.  Eldvirkni á heitum reitum er meiri en umhverfis þá vegna þess að möttulstrókur úr iðrum jarðar flytur kviku til yfirborðs.  Heitir reitir eru ekki endilega tengdir flekaskilum og geta jafnvel verið á miðjum meginlands eða úthafsflekum eins og t.d. á Hawaii eða Yellowstone í Bandaríkjunum sem hvoru tveggja eru heitir reitir.

Helstu tegundir eldgosa

Eldgos eru mjög mismunandi að gerð allt eftir því hvaða kvikugerð kemur upp, hvernig það berst upp á yfirborðið og í hve miklu magni.   Á Íslandi er ótrúleg fjölbreytni í tegundum eldgosa.  Hér verða gos undir jökli, í sjó, dyngjugos, flæðigos og sprengigos af öllum stærðum og gerðum.  Einnig kemur fyrir að gos breytist t.d. úr gjóskugosi eða sprengigosi í hraungos.  Það gerðist sem dæmi í Surtseyjargosinu, til að byrja með var það öflugt gjóskugos í sjó en þegar eyja hafði myndast fór að renna hraun – vísindamönnum og fleiri til mikillar ánægju því það styrkti eyjuna mikið fyrir ágangi sjávar.

Dyngjugos

Dyngjugosin áttu sitt “blómaskeið” þegar kuldaskeiði ísalda lauk fyrir 10-12 þúsund árum.  Þá reis landið eftir að þungi jökulsins hafði haldið því niðri.  Eldgos urðu tíðari og stór flæðigos urðu utan við megineldstöðvarnar.   Kvika virðist hafa komið alla leið úr möttlinum enda enginn kvikuhólf undir dyngjunum.   Sprungurnar voru sjálfsagt langar í byrjun en þegar leið á gosin þjappaðist virknin í einn gíg og mynduðust að lokum dyngjur.  Þær eru t.d.  á þriðja tug á Reykjanesskaganum en einnig eru margar norðan Vatnajökuls.  Stærsta dyngja landsins er Skjaldbreið.  Gosið sem myndaði fjallið hefur sennilega varað í áratugi.   Dyngjugosunum fækkaði mikið þegar landrisið hafði náð jafnvægi og hefðbundin gosvirkni tók við.

Hraungos og flæðigos

Hraungos er eins og nafnið bendir til gos þar sem megnið af gosefnunum kemur upp sem hraun.  Í flestum tilfellum er um basalthraun að ræða en það greinist svo í þykkt, seigfljótandi apalhraun eða þunnt helluhraun sem getur runnið allhratt.   Í sjálfu sér eru hraungos og flæðigos sami hluturinn en það er gjarnan talað um flæðigos þegar þunnfljótandi basaltkvika rennur og myndar helluhraun.  Dæmi um flæðigos mundu vera síðustu Kröflueldar.

Sprengigos og þeytigos

Eru strangt til tekið sami hluturinn.  Kvikan kemst í snertingu við vatn annaðhvort ofarlega í jarðskorpunni (grunnvatn) eða við yfirborðið.   Einnig skiptir máli hve hratt kvikan þrýstist upp í gegnum gosrásina.  Ef gosið er öflugt og þetta gerist hratt þá nær vatnið ekki að losna rólega úr kvikunni og þess í stað verður mikil sprengivirkni þegar gosefnin þeytast hátt í loft upp.  Gos undir jökli eða í sjó eru eðli málsins samkvæmt líklegust til að verða sprengigos en það þarf þó ekki alltaf til.  Öskjugosið 1875 er dæmi um mjög öflugt sprengi eða þeytigos.

Gos undir jökli

Margar megineldstöðvar á Íslandi eru huldar jökli.  Má þar nefna Kötlu, Eyjafjallajökul, Snæfellsjökul, Bárðarbungu og Grímsvötn.  Gos undir jökli hafa þau sérkenni að þar koma gosefnin upp sem gjóska eða aska og þá í gjóskugosum eða sprengigosum.  Þessháttar gos verða vegna þess að gosefnin komast í snertingu við vatn.  Hættan sem stafar af gosum undir jökli er bæði vegna öskufalls, sem oft er mjög mikið, og ekki síður vegna jökulhlaupa sem eiga sér stað þegar jökullinn bráðnar undan eldgosinu.  Á suðurlandi eru stór óbyggileg landflæmi vegna þess að jökulhlaup verða þar með reglulegu millibili.   Sandarnir undir Mýrdalsjökli og Vatnajökli eru tilkomnir vegna jökulhlaupa, aðallega frá Kötlu (Mýrdalssandur) og Grímsvötnum.

Gos í sjósurtsey

Eldsumbrot undan Reykjanesi hafa verið tíð í gegnum aldirnar.  Einnig hefur borið á eldvirkni í Vestmannaeyjakerfinu og þá er talið að einhver gos hafi orðið í sjó undan Norðurlandi frá landnámi.  Surtseyjargosið 1963-67 er með þekktari gosum sem orðið hafa í sjó.  Staðsetning þess kom á óvart, Vestmannaeyjakerfið var talið óvirkt fram að því.

Gos í sjó eru svipuð gosum í jökli að því leiti að gosefnin eru fyrst og fremst gjóska.  Nái gosið að mynda eyju þá getur hraun farið að renna eins og gerðist í Surtsey.  Gos í sjó hafa sjaldnast valdið tjóni á Íslandi.  Þau eru reyndar sjaldan stór og ekki er víst að öll þeirra nái yfirborði og því verður þeirra ekki alltaf vart nema á mælitækjum.

eldstöðvar

Hér sjást helstu eldstöðvakerfi,  megineldstöðvar og virknismiðjur.

Scroll to Top