Reykjanesskagi

ELDGOS HAFIÐ OG STÓRTJÓN Á INNVIÐUM Í SVARTSENGI

 • ELDGOS HÓFST AÐEINS HÁLFTÍMA EFTIR AÐ JARÐSKJÁLFTAR BENTU TIL ÞESS AÐ KVIKUHLAUP VÆRI HAFIÐ.  
 • HRAUN HEFUR RUNNIÐ YFIR GRINDAVÍKURVEG OG MEÐFRAM BLÁALÓNSVEGI.
 • HITAVEITULÖGN SEM SÉR ÖLLUM SUÐURNESJUM FYRIR HEITU VATNI FARIN Í SUNDUR.
 • GRINDAVÍK EKKI Í HÆTTU EF GOSSPRUNGA OPNAST EKKI NÆR BÆNUM.
 • VARNARGARÐAR MUNU LIKLEGAST VERJA VIRKJUNINA Í SVARTSENGI OG BLÁA LÓNIÐ.
Skjáskot af vefmyndavíl Rúv. Hvíti gufumökkurinn er staðurinn þar sem hraun fór yfir hitaveitulögnina. Slóð á vefmyndavélina er hér https://www.youtube.com/watch?v=kRIAT5Rvssw

ELDGOS HÓFST UM KL.  6 Í MORGUN NORÐARLEGA Á SUNDHNÚKASPRUNGUNNI Á SVIPUÐUM SLÓÐUM OG GOSIÐ SEM HÓFST 18.DESEMBER.  VAR GOSSTAÐURINN Í UPPHAFI TALINN HEPPILEGUR OG AÐ INNVIÐIR VÆRU EKKI Í HÆTTU.  HRAUNFLÆÐIÐ VAR ÞÓ MEIRA EN LEIT ÚT FYRIR Í FYRSTU, HRAUNIÐ MJÖG ÞUNNFLJÓTANDI OG RANN HRATT.  FYRIR HÁDEGI HAFÐI ÞAÐ FLÆTT YFIR GRINDAVÍKURVEG, MEÐFRAM BLAÁLÓNSVEGI OG RAFMAGNSLÍNUR ERU Í HÆTTU.  

Reiknað hafði verið með gosi hvenær sem er núna í nokkra daga og kom það því ekkert á óvart.  Staðsetningin kanski aðeins norðar en reikna mátti með sem hefði átt að vera kostur, allavega fyrir Grindavík og bjuggust menn við því að fjarlægðin væri næg frá innviðum í Svartsengi svo þeir myndu sleppa.  Sú varð ekki raunin.

Gossprungan er um 3 kílómetrar að lengd og það virðist draga mun hægar úr þessu gosi en fyrri gosunum tveimur á Sundhnúkasprungunni.  Það skýrist þó betur þegar líður á daginn.  Gosið er miklu stærra en janúargosið en mun minna en gosið í desember síðastliðnum.  

Ekkert lát hefur verið á landrisinu undir Svartsengi og ekki er búist við öðru en að það haldi áfram eftir að þessu gosi lýkur.  Má því búast við gosi á 3-4 vikna fresti meðan á þessu stendur.  Reikna verður áfram með því að gosin verði meira og minna á Sundhnúkasprungunni sem er í heild um 15 kílómetra löng.  

Enn á ný biðstaða í Grindavík – Hratt landris í Svartsengi

Landris við Svartsengi sést glöggt á neðstu myndinni. Land seig nokkuð við gosið í desember en ekkert við janúargosið. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Eldgosið sem hófst 14.janúar lifði aðeins í 44 klukkustundir og var í raun mjög lítið þrátt fyrir að valda stórtjóni.  Aðeins um 2,8 milljónir rúmmetrar af kviku kom upp á yfirborðið samanborið við 11 milljón rúmmetra í gosinu í desember.  – Alveg eins og eftir desember gosið hófst landris áður en gosinu lauk.   Það sem breyttist hinsvegar er að land seig ekki við gosið í Svartsengi, heldur aðeins á gps stöðvum í Eldvörpum og Skipastígshrauni.  Það bendir til þess að það séu að einhverju leiti aðskilin kvikuhólf á þessum slóðum.  Eldvörp og Skipastigshraun eru bæði sunnar og vestar en Svartsengi og það getur skýrt hversvegna gosið kom upp svona sunnarlega á Sundhnúkasprungunni.

Kvikan undir Svartsengi hreyfðist hinsvegar ekki og land þar hefur haldið áfram að rísa sem aldrei fyrr.  Miðað við að innstreymi kviku sé um 15 rúmmetrar á sekúndu í þessi hólf eins og talið hefur verið þá safnast fyrir um 1,3 milljón rúmmetrar á sólarhring.  Það er því ljóst að síðasta gos sló nánast ekkert á kvikusöfnunina.  

Ef kvikan undir Svartsengi fer á hreyfingu er líklegast að hún komi upp um miðbik eða norðan til í Sundhnúkasprungunni, á svipuðum slóðum og gosið í desember.  það er þó aldrei hægt að útiloka gos sunnar þ.e. nær Grindavík eða jafnvel gosopnun annarsstaðar en á Sundhnúkasprungunni , jafnvel í Svartsengi sjálfu.  Það hefði þó væntanlega talsverðan aðdraganda í skjálftavirkni.

Nú er eins og áður segir biðstaða á öllum vígstöðvum en þó eru athyglisverðir hlutir að gerast annarsstaðar á Reykjanesskaganum.  Talsverð skjálftavirkni hefur mælst í raun í allan vetur í grennd við Krýsuvík.  Þessi virkni er dreifð, mikil í grennd við Kleifarvatn en einnig vestar, á Trölladyngjureininni.  Þá hefur skjálftavirkni á Bláfjalla- Brennisteinsfjallasvæðinu einnig verið smámsaman að aukast.  Það virðist því ljóst að allur Reykjanesskaginn er smámsaman að vakna af dvalanum og væntanlega og vonandi er lengra í stærri atburði á þessum slóðum samt.

ELDGOS VIÐ GRINDAVÍK – STÓRTJÓN ÞEGAR ORÐIÐ

 • ELDGOS HÓFST SKÖMMU FYRIR KL. 8  Í MORGUN Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI NORÐAUSTUR AF GRINDAVÍK
 • NÝ GOSSPRUNGA OPNAÐIST INNAN VARNARGARÐA VIÐ GRINDAVÍK UM HÁDEGISBIL
 • HRAUN RENNUR INN Í GRINDAVÍKURBÆ
 • TVÖ HÚS BRUNNIN Í HÓPSHVERFI OG MÖRG Í HÆTTU
 • HRAUN RENNUR YFIR GRINDAVÍKURVEG.  RAFMAGNS- OG HITAVEITULAGNIR LASKAÐAR
Skjáskot af einni af vefmyndavélum Rúv. undir kvöld. Þarna sést gossprungan skammt norðan við bæinn og logar í tveimur húsum. Tvö eru líklega þegar brunnin fyrir utan þessi tvö. 

VERSTA MÖGULEGA SVIÐSMYND ELDSUMBROTA Í SVARTSENGI ER AÐ RAUNGERAST.  ELDGOSIÐ SEM HÓFST Í MORGUN ER EKKI AFLMIKIÐ EN KEMUR UPP Á VERSTA STAÐ.  FYRST OPNAÐIST UM KÍLÓMETERSLÖNG SPRUNGA Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI OG VIRTUST VARNARGARÐAR ÆTLA AÐ HALDA, BEINA HRAUNSTRAUMNUM FRÁ BÆNUM OG GRINDAVÍK MÖGULEGA AÐ SLEPPA.  SÍÐAN GERÐIST ÞAÐ UM HÁDEGIÐ AÐ NÝ SPRUNGA OPNAÐIST INNAN VARNARGARÐA AÐEINS UM 100 M FRÁ NYRSTU HÚSUM Í HÓPSHVERFI.  HRAUNRENNSLI FRÁ ÞEIRRI SPRUNGU ER EKKI MIKIÐ EN HEFUR ÞÓ ÞEGAR HAFT UNDIR TVÖ ÍBÚÐARHÚS OG FLEIRI ERU Í STÓRHÆTTU.

Gosið hefst eftir landris í aðeins tæpan mánuð frá síðasta eldgosi.  það er mikið áhyggjuefni að svo stutt sé á milli gosa og segir okkur að mikið kvikuinnflæði er inn í kerfið og það getur mögulega staðið árum saman með síendurteknum gosum.  Miðað við  það sem nú er að gerast verður að telja það því miður harla ólíklegt að Grindavíkurbær sleppi við meiriháttar skaða til langframa.  

Nýr varnargarður norðan Grindavíkur hefur þegar komið í veg fyrir stórkostlegt tjón því hann hefur beint hraunstraumnum úr meginsprungunni vestur fyrir bæinn.  Að vísu fór hluti Grindavíkurvegar undir hraun fyrir vikið og innviðir rafmagns- og hitaveitulagna.  Það er vissulega tjón en markmiðið er alltaf að bjarga því sem bjargað verður af bænum.  

Nú er spurningin hversu lengi þetta gos varir og hvort fleiri gosopnanir verði við eða innan bæjarmarkana.  Lítið hefur dregið úr gosinu á þeim 10 tímum sem það hefur staðið yfir þegar þetta er skrifað og er það satt best að segja ekki góðs viti.  

En það er ekki aðeins eldgosið sem ógnar byggðinni.  Sprungur hafa opnast víða í bænum og hefur það þegar valdið hörmulegum mannskaða.  Vitað er að atburðarrásin sem hófst í nótt hefur enn aukið á sprungumyndanir, nýjar myndast og þeir eldri gliðnað.  Langan tíma mun því taka að gera bæinn íbúðarhæfan aftur jafnvel þó hægist á eldsumbrotunum.

Dregur úr gosinu – Innviðum hlíft í bili

Talsvert hefur dregið úr krafti eldgossins á Sundhnúkasprungunni í dag.  Nú er áætlað hraunrennsli um 50 rúmmetrar á sekúndu en var um 200 þegar það var mest fyrripartinn síðastliðna nótt.  Þrátt fyrir það er hraunrennslið miklu meira en það náði nokkurntímann að verða í gosunum þrem við Fagradalsfjall.   Til samanburðar kom upp á fyrstu 7 klukkustundum þessa goss jafnmikið af kviku og kom upp í öllu gosinu við Litla-Hrút.  

Hraun hefur ekki náð að renna sem neinu nemur í átt að Grindavík og ekki gýs lengur á suðurhluta sprungunnar.  það er þó ekki þannig að Grindavík sé úr allri hættu því kvikugangurinn liggur undir bænum og ekki útilokað að ný gosop opnist miklu nær bænum eða jafnvel í honum.  

Hvað innviði í Svartsengi varðar þá þarf hraun að renna í alllangan tíma áður en þeim verður ógnað, það er þá helst Grindavíkurvegur sem er á viðkvæmum stað.  Þangað gæti hraun náð á Jóladag samkvæmt nýju hraunrennslismati.  Hraunið er þunnfljótandi og það eykur líkur á að nýir varnargarðar nái að verja orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið.  Hinsvegar gæti heitavatnslögn frá orkuverinu út í Reykjanesbæ verið í hættu ef gosið varar lengi.  Menn virðast þó ekki hafa miklar áhyggjur af því enn sem komið er.

Það kemur frekar á óvart að land hafi aðeins sigið um ca 7 cm á fyrsta sólarhring gossins í Svartsengi eftir að hafa risið um 35 cm frá kvikuhlaupinu 10. Nóvember.  Þar sem aflið í gosinu var langmest fyrstu klukkustundirnar þá hefði mátt búast við töluvert meira landsigi.  

Þessi mynd er klippt úr grafi á vef Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og sýnir landris og sig við Svartsengi í millimetrum. Glökkt sérst kvikuhlaupið 10. nóvember og svo þegar eldgosið hófst 18.Desember en land hefur sigið miklu minna en í kvikuhlaupinu 10.Nóv. Slóð: https://strokkur.raunvis.hi.is/gps/8h.html?fbclid=IwAR3nyvVEdAkT_moj1VKLHjYtXe694RGM5t0tIdgQudDrk5VQd9pzQwHeCdE
Þessi mynd er klippt úr grafi á vef Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands og sýnir landris og sig við Svartsengi í millimetrum. Glökkt sérst kvikuhlaupið 10. nóvember og svo þegar eldgosið hófst 18.Desember en land hefur sigið miklu minna en í kvikuhlaupinu 10.Nóv. Slóð: https://strokkur.raunvis.hi.is/gps/8h.html?fbclid=IwAR3nyvVEdAkT_moj1VKLHjYtXe694RGM5t0tIdgQudDrk5VQd9pzQwHeCdE

Mögulegar sviðsmyndir hvað framhaldið varðar eru nokkrar.

 1. Gosið verður langt, nokkrar vikur eða mánuðir en afllítið, 10-15 rúmmetrar á sekúndu og einskonar sírennsli úr kvikukoddanum við Svartsengi.  Það er jú stöðugt að bætast í þennan “kodda” að neðan, líklega um 15 rúmmetrar á sekúndu.  Gosið gæti lifað meðan enn bætist kvika undir Svartsengi.
 2. Gosið færist í aukana og meiri kvika streymir frá Svartsengi yfir í Sundhnúka í formi kvikuhlaupa.  Það stæði þó ekki mjög lengi, 2-4 vikur mest.  Ný gosop gætu opnast, mögulega nær Grindavík.
 3. Gosinu lýkur fljótlega en vegna innstreymis í kvikukoddann undir Svartsengi þá má búast við öðru gosi eftir ca 5-8 vikur og líkast til á sömu gossprungu en gæti orðið annaðhvort norðar eða sunnar á henni.

Vegna áframhaldandi kvikusöfnunar undir Svartsengi er alveg ljóst að þessum atburðum er hvergi nærri lokið jafnvel þó þetta gos verði ekki langlíft.  Þessari hrinu hefur verið líkt við Kröfluelda sem stóðu frá 1975-1984 og urðu 9 eldgos á því tímabili.  Það er ákveðin samsvörun með þessum atburðum t.d. mjög stórt kvikuhlaup áður en til eldgoss kom (10.nóvember) en annað er ólíkt og þá helst að gosin við Kröflu komu úr grunnstæðu og þróuðu kvikuhólfi.  Þessi “kvikukoddi” við Svartsengi er allt annars eðlis og rúmar ekki nærri eins mikið af kviku og kvikuhólf undir megineldstöð.  Því er frekar ólíklegt að við fáum 9 gos þarna.  Kanski líklegra að þau verið 2-3.

 

ELDGOS VIÐ SUNDHNÚKAGÍGA

ELDGOS HÓFST Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI KL 22:17 Í KVÖLD. 

 • GOSSPRUNGAN UM 4 KM LÖNG OG LENGIST
 • GOSIÐ LÍKLEGA Í UM 2,5 KM FJARLÆGÐ FRÁ GRINDAVÍK
 • ENN ÓLJÓST HVORT MANNVIRKI Í GRINDAVÍK OG SVARTSENGI SÉU Í HÆTTU
 • HRAUN RENNUR ENN SEM KOMIÐ ER MEST TIL NORÐURS OG AUSTUR SEM ER HEPPILEGT
 • MARGFALT STÆRRA GOS EN FYRRI GOS Í ÞESSARI GOSHRINU

Milli kl. 20 og 21 í kvöld hófst áköf jarðskjálftahrina í Sundhnúkagígaröðinni og um tveim tímum síðar sást eldgos brjótast upp.  Gossprungan teygðist strax til norðausturs og suðvesturs og er þegar þetta er ritað um kl. 01:05 þann 19. Desember talin vera um 4 km löng og suðvesturendi hennar í um 2,5 km frá byggð í Grindavík. 

Eldgosið séð frá Ægisíðu í kvöld.
Mynd: Óskar Haraldsson

Ekki er vita til að tjón hafi orðið á mannvirkjum og mögulega var þetta besti staðurinn á Svartsengissvæðinu til að fá upp eldgos.  Það fer þó algjörlega eftir því hve lengi gosið heldur þeim krafti sem er í upphafsfasanum.  Hraunrennslið er nokkur hundruð rúmmetrar á sekúndu en ólíklegt verður að telja að sá kraftur haldist nema einhverjar klukkustundir.

Aðdragandi þessa goss var nokkuð langur.  Kvikuhlaupið 10. nóvember var forsmekkurinn, landris hafði verið við Svartsengi í nokkrar vikur áður.  Síðan verður þetta stóra kvikuhlaup þar sem búist var við eldgosi en ekki varð.  Sá atburður virðist hinsvegar hafa fyllt upp í flestar sprungur og glufur í Sundhnúkagígaröðinni.  Síðan verður annað kvikuhlaup í gærkvöld og þá tekur sprungan ekki lengur við og kvikan hefur ekki aðra leið en til yfirborðs.

Nú er spurningin hve lengi þetta gos varir og etv. hvort þetta sé aðeins fyrsta gosið í hrinu gosa á Svartsengissvæðinu.  Nokkuð stöðugt landris og kvikuinnstreymi var undir Svartsengi fram að gosinu og eflaust heldur þetta innstreymi eitthvað áfram.  Þetta gos er líklegt til að standa í 1-2 vikur.    Því meira afl sem er í gosi í upphafi, því fyrr ætti það að lognast útaf sem vonandi verður raunin í þessu gosi.

Scroll to Top