Reykjanesskagi

Styttist í næsta atburð í Svartsengi – Eldgos líklegt innan tveggja vikna

Spár sumra eldfjallafræðinga um að gosum við Sundhnúka sé senn lokið virðast ekki ætla að rætast.  Landris er mjög stöðugt með rismiðju í og við Svartsengi.  Þar hefur land risið um rúma 20 cm frá því snemma í júní,  vestar þ.e. í Eldvörpum er risið í kringum 12 cm og í og við Grindavík um 8-12 cm.  Líklega streyma um 4-6 rúmmetrar á sekúndu úr stóru kvikuþrónni á 9-12 km dýpi upp í minna kvikuhólfið undir Svartsengi á um 4 km dýpi. 

Nú telur Veðurstofan að vænta megi goss eða kvikuhlaups innan tveggja vikna.  Skjálftavirkni á svæðinu er smámsaman að aukast og hættustigi hefur verið lýst yfir.  Þá hafa menn sérstaklega áhyggjur af Grindavík núna því jörð þar er svo sundursprungin að kvika gæti átt auðvelt með að ferðast eftir sprungukerfi frá Hagafelli og koma upp um gossprungu inni í bænum.  Sú sviðsmynd er reyndar frekar ólíkleg en allsekki hægt að útiloka þennan möguleika.

Kort frá ISOR þar sem  litum hefur verið breytt til að auka sýnileika.  Hraunin frá 2021-2024 eru rauð, hraunin frá 1211-1240 eru græn og ath. að þá gaus einnig í sjó við Reykjanes og amk eitt af þeim gosum töluvert stórt.
Bláu svæðin eru svo frá goshrinu fyrir 1900-2400 árum. Þau hraun eru enn víðáttumeiri en hraunin frá 13.öld en hinsvegar er ekki vitað á hve löngum tíma þau runnu. Þar sem þetta gengur í hrinum í hverju kerfi fyrir sig þá verður að telja líklegast að þau séu runnin á fáum áratugum frekar en öldum. Ath. að hraunin 1211-1240 runnu yfir eldri hraunin á löngum köflum og auðvelt að sjá það á kortinu. Bláa svæðið því að hluta til undir því græna.
Þá eru nýjustu Sundhnúkahraunin einnig að stórum hluta runnin yfir 1900-2400 ára gömlu (bláu) hraunin.

Það er nú þannig að fortíðin getur sagt ansi mikið um framtíðina.  Þegar borin eru saman hraun sem runnin eru á þessu svæði í núverandi eldsumbrotum og í eldsumbrotum annarsvegar fyrir 1900-2400 árum og hinsvegar í goshrinu árin 1211-1240 þá sést greinilega að aðeins brot af þeirri kviku sem þá kom upp er komin upp núna.  Þetta sést vel á meðfylgjandi korti.  Hafa verður einnig í huga að í báðum fyrri hrinunum urðu einnig eldgos í sjó skammt undan ströndinni við Reykjanestá.  Þá rann hraun í Eldvarpagosunum um 1230-1240 heila 3 km út í sjó þótt ótrúlegt sé.

Talið er að kvikuþróin sem er á 9-12 km dýpi sé um 50 rúmkílómetrar að stærð.  Þetta er gífurlegt magn, til samanburðar er talið að um 14  rúmkílómetrar af gosefnum hafi komið upp í Skaftáreldum.  Þetta magn er að vísu aldrei á leiðinni allt upp á yfirborðið og líklega aðeins lítið brot af því.  Þetta er hinsvegar kvikan sem væntanlega mun fæða það gosskeið sem nú er nýhafið á Reykjanesskaganum næstu þrjár aldir eða svo.   

Þegar horft er til fyrri gosskeiða þá er auðvitað aðeins það síðasta nokkuð vel þekkt hvað varðar tímasetningar.  Þá er vitað að goshrinur virðast hafa staðið í um 30 – 40 ár og sjálfsagt mislöng hlé á milli gosa.  Goshrina gekk yfir í Krísuvíkurkerfinu árin 1151-1188 og svo í Reykjaneskerfinu árin 1211-1240.  Núverandi goshrina hófst með gosinu í Geldingadölum árið 2021 og við gætum því verið að horfa á virkni fram yfir árið 2050 á svæðinu frá Sundhnúkum og að eða jafnvel út fyrir Reykjanestá.  Það verða vitaskuld ekki stöðug gos, sjálfsagt góð hlé á milli þeirra en landris, jarðskjálftar og jarðhnik ýmisskonar verður sjálfsagt viðvarandi.  Þá er ekkert víst að Brennisteinsfjallakerfið og Krýsuvík bíði endilega þar til þessum umbrotum er lokið.   

Spurningin núna er kanski ekki hversu lengi þessi goshrina varir , heldur frekar hve lengi hún heldur sig við Sundhnúkaröðina.  Líklega færist virknin vestar og þá fyrst yfir í Eldvörp.  Þá verður einnig að horfa á þá staðreynd að í Svartsengi, örskammt suður af orkuverinu eru fornir gígar og ekki hægt að útiloka eldsuppkomur á þessu svæði.

Veðurstofan er komin með nýtt vefsvæði sem er afskaplega fræðandi og má finna hér Aflogun (vedur.is)  þarna er hægt að sjá gps stöðvar um allt land sem og landris eftir gervihnattarmyndum.  Á skjáskotinu hér að neðan má vel greina stærð grynnra kvikuhólfsins með miðju undir Svartsengi.

 

Gosinu að ljúka en hraun skríður yfir varnargarða

Graf sem er að finna á vef Veðurstofunnar og sýnir áætlað magn kviku sem safnast fyrir undir Svartsengi á milli eldgosa eða kvikuhlaupa.

Eldgosið sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni þann 29.mars er við það að syngja sitt síðasta.  Hraun sést ekki renna frá gígnum en þó er enn glóð í honum og mögulega rennur eitthvað frá honum undir hraunbreiðunni.  Líkt og í síðustu gosum þá varð nokkurt tjón af völdum þess, aðallega þó á vegum.  Grindavíkurvegur varð fyrir enn einu áhlaupinu og fór undir þykkt hraun á nokkuð löngum kafla við Svartsengi.  Ekki hefur verið lagður nýr vegur þar yfir enda enn mikil hreyfing á hrauninu.

Nú allra síðustu daga hefur hraunið verið að fikra sig yfir varnargarða við Svartsengi, um 1 km frá orkuverinu.  Þetta gerist hægt en þó er mikill hraunmassi sem hefur bunkast þarna upp á ferðinni.  Þar sem gosinu er svo að segja lokið þá er ólíklegt að þetta hraun valdi frekari skaða.

Framhaldið er hinsvegar ansi óljóst ekki síst í ljósi misvítandi yfirlýsinga fræðimanna.  Tveir af okkar virtustu eldfjallafræðingum, þeir Þorvaldur Þórðarson og Haraldur Sigurðsson telja að innflæði kviku frá stóru kvikuþrónni á 9-12 km dýpi muni stöðvast síðsumars og merkja minnkandi innflæði frá þrónni. Telja þeir að virknin fjari út síðsumars og þetta gæti verið síðasti atburðurinn á Sundhnúkagígaröðinni í bili amk.   Magnús Tumi Guðmundsson virðist þessu ekki sammála og segir engin merki hafa komið fram sem bendi til þess að það dragi úr innrennsli kviku að neðan.  

Veðurstofan telur að hraunflæði undanfarnar tvær vikur eða rétt rúmlega það hafi verið um 10 m3 á sekúndu.  Þrátt fyrir það hefur verið smávægilegt landris.  Það bendir til þess að enn sé innflæði stöðugt, varla mikið minna en 10 rúmmetrar á sekúndu.  Satt að segja er ekki mjög líklegt því miður að þessu sé að ljúka.  

Ástæðurnar eftirfarandi:

  • Ennþá stöðugt kvikuflæði frá stóru þrónni upp í þá minni og til yfirborðs, líklega á bilinu 7-10 rúmmetrar á sekúndu.
  • Aðeins tæplega helmingur kviku hefur komið upp sé miðað við síðasta virknistímabíl á þessu svæði frá árunum 1210-1240.
  • Þegar gaus á þessu svæði fyrir um 2000-2500 árum þá virðist virknin hafa haldið sig að mestu á Sundhnúkaröðinni en þó urðu einnig eldgos vestar í Svartsengi (Klofningshraun).  

Það er nokkuð líkleg sviðsmynd að gos haldi áfram á Sundhnúkagígaröðinni í einhver ár til viðbótar en að lengra verði á milli þeirra.  það er líka nákvæmlega það sem hefur verið að gerast mun sú þróun sennilega halda áfram.  Hvort það takist að verja mannvirki í Svartsengi og Grindavíkurbæ verður að koma í ljós en það gæti orðið erfitt eftir því sem gosunum fjölgar og hraunrennsli eykst í hverju gosi.

ELDGOS HAFIÐ Á NÝ – ÖFLUGT GOS Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI

Skjáskot af einni af vefmyndavélum RÚV. slóðin er: https://www.youtube.com/watch?v=Bqudj0x0POA

ELDGOS HÓFST UM RÉTT FYRIR KL. 13 Í DAG Á MILLI STÓRA SKÓGFELLS OG SÝLINGAFELLS Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI EFTIR ÁKVEÐNA JARÐSKJÁLFTAHRINU SEM HÓFST CA TVEIMUR TÍMUM FYRR.  GOSSPRUNGAN LENGIST HRATT Í SUÐURÁTT OG GÆTI NÁÐ SUÐUR FYRIR HAGAFELL.  HRAUN RENNUR HRATT Í VESTURÁTT Í ÁTT AÐ GRINDAVÍKURVEGI OG MANNVIRKJUM Í SVARTSENGI.  GOSIÐ VIRÐIST MJÖG ÖFLUGT OG VIRÐIST MUN ÖFLUGRA EN FYRRI GOS Á SVÆÐINU.  GOSSPRUNGAN ER ORÐIN AMK. 2,5 KM AÐ LENGD OG LENGIST ENN.  

Síðasta eldgos stóð í tæpa tvo mánuði öllum að óvörum.  Landris hafði hafist löngu áður en því gosi lauk og stefndi því í annað gos sem nú er orðið raunin.  Um 20 milljónir rúmmetra af kviku höfðu safnast undir Svartsengi , um það bil tvöfalt meira en fyrir síðasta gos á svæðinu.  Það er því efniviður í talsvert stærra gos en það síðasta var en það hófst 16. mars.  

Hættan sem stafar af þessu gosi tvennskonar,  annarsvegar mannvirki í Svartsengi sem eru þó vel varin með varnargörðum og spurning hvort reyni á þá.  Hinsvegar er það Grindavík, þar er að austanverðu tvöfaldur varnargarður.  Hraun úr síðasta gosi rann að hluta til yfir ytri garðinn án þess að valda nokkrum skaða.  Var þá byggður annar garður fyrir innan þann garð.  Ef sprungan lengist mikið í suðurátt og nær suður fyrir Hagafell þá gæti reynt aftur á varnir við Grindavík.

Gosið stöðugt – Ekkert landris

Kort af vefsíðu www.isor.is sem sýnir útbreyðslu hrauna á Reykjanesskaganum. Rauðu flekkirnir eru hraun í eldunum sem hófust ári 2021 en þó vantar hraunið í núverandi gosi. Engu að síður sést vel að mikið vantar uppá að flatarmál nýju hraunanna nái flatarmáli hrauna frá 1210-1240 sem er litað ljósbleikt vestan megin við Sundhnúkahraunið. 

Nokkuð misvísandi fréttir hafa borist af gosinu á Sundhnúkasprungunni undanfarna sólarhringa.  Einhverjir jarðfræðingar töldu að það mundi varla lifa páskana en erfitt er að sjá á hverju slík spá var byggð því ekkert landris er sjáanlegt.  Það þýðir einfaldlega að kvikan safnast ekki lengur fyrir í Svartsengi eins og hún gerði áður.  Hún kemst átakalaust upp á yfirborðið.  Vissulega hefur gígunum fækkað en það gerist nær alltaf þegar líður á gos.  Kvikan finnur sér eina aðalleið upp eins og er nú að gerast.  Aðeins tveir gígar virðast virkir og má reikna með að sá smærri lognist útaf eftir einhverja daga.  Það þýðir þó ekki að framleiðsla gossins sé endilega að minnka, hún skilar sér bara upp um færri gosop.

Þá er ekki að sjá neinar breytingar á óróagröfum sem bendir til þess að gosið sé að skila svipaðri kvikuframleiðslu og undanfarna viku eða svo.  

Hve lengi getur gosið varað?  Ómögulegt að segja.  Þó virðist sem ögn minni kvika skili sér úr aðalkvikuhólfinu á ca 15km dýpi heldur en um var að ræða fyrir 2-4 mánuðum.  Það sást líka á hægara landrisi fyrir gosið.  Nú virðast ca 5-8 rúmmetrar á sekúndu skila sér upp í gosinu, það er heldur í lægri kantinum.  Þó svipað og var lengi vel í fyrsta gosinu við Fagradalsfjall árið 2021.  

Hinsvegar er ekki loku fyrir það skotið að framleiðslan aukist á ný.  Það þarf að hafa það hugfast að enn hefur lítill hluti kviku skilað sér til yfirborðs sem venjulega skila sér upp í “eldum” á Reykjanesskaga.  Ef miðað er t.d. við Reykjaneselda árin 1210-1240 á hafa varla meira en ca 20% af því sem þá kom upp skilað sér.  Þessi virkni gæti komið í hrinum, t.d. að núverandi gos lognast útaf eftir einhverjar vikur en þá komi nokkurra ára hlé þar til næsta syrpa af landrisi og óróa hefst, mögulega á svipuðum slóðum , mögulega í Eldvörpum og jafnvel úti á Reykjanesi.  Í heild má telja líklegt að þessi hrina standi yfir í 20-30 sé miðað við það sem vitað eru um samskonar hrinur í fortíðinni á Reykjanesskaganum.

Hvað er að gerast í Krýsuvík?  Enn einn óvissufaktorinn.  Mikil smáskjálftavirkni hefur verið við Krýsuvík undanfarna mánuði en þeim hefur ekki fylgt landris.  Þar sem þessi virkni er nokkuð dreyfð og mjög óregluleg, virðist ekki fylgja neinu sprungumynstri þá verður að telja líklegt að einhver kvika sé á hreyfingu á miklu dýpi sem valdi þessu.  Þetta gæti auðvitað lognast útaf og líklegra en ekki að það geri það.  Krýsuvíkurkerfið virðist þó vera að rumska hægt og örugglega enda varð landris á svæðinu árið 2020 sem koðnaði niður.  Spurningin er hve lengi kerfið verður að vakna. Það veit enginn.  Líklegt verður þó að telja að kerfið verði nokkurnveginn til friðs meðan óróinn er í Svartsengiskerfinu.

ELDGOS HAFIÐ Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI

ELDGOS HÓFST UPPÚR KL. 8 Í KVÖLD Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI.  GOSSPRUNGAN VIRÐIST VERA Á MILLI HAGAFELLS OG STÓRA – SKÓGFELLS, Þ.E. Á SVIPUÐUM EÐA SAMA STAÐ OG GOSIÐ SEM VARÐ 8.FEFBRÚAR.  GOSIÐ HÓFST EFTIR SKAMMVINNA JARÐSKJÁLFTAHRINU OG VIRÐIST VIÐ FYRSTU SÝN ANSI ÖFLUGT.  

Skjáskot af vefmyndavél RÚV nú í kvöld.

Búist hafði verið við eldgosi í um tvær vikur og kom í raun á óvart að það var ekki hafið fyrr.  Heldur meiri kvika hafði safnast fyrir undir Svartsengi en fyrir síðasta gos svo reikna má með öflugra gosi.  Líklega stendur það þó stutt eins og fyrri gosin á Sundhnúkasprungunni.

Nú eru allra augu á því hvert hraunið rennur, hvort meginstraumurinn renni til austurs í átt að Fagradalsfjalli eða til vesturs í átt að Svartsengi og innviðum þar.  Grindavík ætti ekki að vera í hættu ef gosið heldur sig á þessum slóðum.

UPPFÆRT 17. MARS KL 8 : 40

Gosið er það aflmesta í Sundhnúkagígaröðinni hingað til. Við því mátti búast því lengra hlé hafði staðið yfir en áður og því meiri kvika safnast upp í kvikuhólfinu undir Svartsengi.
Hraun hefur flætt yfir Grindavíkurveg á svipuðum slóðum og í gosinu 8. febrúar.  Enn eru um 200 metrar í Njarðvíkuræðina en mikið hefur hægt á hraunrennslinu og óvíst að það nái henni.  Að auki er hún betur varin en áður, búið að fergja hana á þessum slóðum.
Hraun er um 750 metra frá Suðurstrandarvegi en þar er helsta áhyggjuefnið hrauntjarnir sem geta brostið með engum fyrirvara og því er hættan hvað hann varðar ekki úr sögunni.   

 

Scroll to Top