Skaftáreldar 1783-5

Birta á :

Lakagígar

Frægasta, umtalaðasta og án efa afdrifaríkasta eldgos Íslandssögunnar eru Skaftáreldar.  Þessi umbrot hófust í Grímsvötnum í Vatnajökli snemma árs 1783 þegar vart varð við gos í jöklinum.  Í maí sama ár fer að bera á jarðskjálftum í Skaftártungu og í lok maí og fram til 8. júní finnast snarpir jarðskjálftar sem ágerast frá Mýrdal til Öræfa.  Þann 8. júní hefst mikið gos í suðvesturhluta Lakagíga og tveim dögum síðar tekur að rigna sýru úr gosmekkinum.  Fáum dögum síðar kemur hraunflóð til byggða úr Skaftárgljúfri.  Allan mánuðinn skríður hraunið fram og flúormenguð gjóskan gerir mikinn skaða að auki.

Gosið virtist svo í rénun seint í júlí en það var aðeins lognið á undan næsta stormi.  þann 29.júlí hófst mikið gos í nyrðri helmingi sprungunnar sem samtals var 27 km. löng.  Til samanburðar er gossprungan á fimmvörðuhálsi um 300 metrar, eða tæplega 100 sinnum styttri.   6. ágúst brýst hraun niður í byggð fram úr gljúfri Hverfisfljóts.  September er svo rólegri en undir lok mánaðarins sést gos í Vatnajökli.  Seint í október kemur svo enn eitt hraunflóðið niður Hverfisfljótsgljúfur.  Mikill eldur sást að fjallabaki langt fram í nóvember en eftir það tekur þessum ósköpum að linna.  Síðast sást eldur í gossprungunum 7. febrúar 1784 en það sást hinsvegar til eldgosa í Vatnajökli, líklega í Grímsvötnum, fram til 1785 sem tengjast þessari hrinu.

Eitruð flúorsambönd og brennisteinssýra gerðu mikinn skaða og helmingur bústofns landsins féll í “móðuharðindunum” sem komu í kjölfar gossins.  þá er talið að um 10.000 manns hafi látist á næstu árum eftir gosið.  Tún og grunnvatn mengaðist vegna eiturefna frá gosinu og veðurfar kólnaði.  Þau áhrif náðu reyndar yfir allt norðurhvel jarðar.

Hraunið rann lengst 55 km leið ofan af hálendinu og átti ekki langt til sjávar þegar það stöðvaðist.  það er um 14 rúmkílómetrar og Skaftáreldar því eitt allra mesta hraungos á jörðinni síðustu árþúsund ásamt Eldgjárgosinu 932-4.

Líklega hefur kvikuhlaup til suðvesturs úr kvikuhólfi Grímsvatna valdið sprungugosinu í Lakagígum.  Aðrar kenningar eru þó til, þ.e. að gosefnin hafi komið því sem næst beint úr möttli í mikilli rekgliðnunarhrinu á svæðinu.  Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins og sprungugos utan jökuls tvímælalaust þau hættulegustu frá eldstöðinni en til allrar hamingju eru þau sjaldgæf.

Scroll to Top