Hengill

Birta á :

YfirlitHengill

Hengill er um 100 kílómetra langt og um 15km breitt eldstöðvakerfi og  er gjarnan flokkaður með eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga.  Það er rétt að því leyti að hann er á Vestara gosbeltinu eins og kerfin á skaganum en það er nánast það eina sem hann á sameiginlegt með þeim.  Hengill er megineldstöð en aðrar megineldstöðvar er ekki að finna á Reykjanesskaga.   Kvikuhólf er undir eldstöðinni og annað undir Hrómundartind.  Sumir jarðfræðingar vilja reyndar telja það sem sjálfstætt kerfi en gosefnin virðast þó vera þau sömu.  Eðlilegt er því að flokka Hengil sem tvímiðja eldstöðvakerfi.  Hengillinn hefur hlaðist upp á einhverjum hundruðum þúsunda ára og er því mikið eldri en eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga.  Mikill jarðhiti er í nágrenni eldstöðvarinnar.

Súrt og ísúrt berg finnst í einhverjum mæli í eldstöðinni en það finnst ekki annarsstaðar á Reykjanesskaga.  Basalt er þó aðalbergið í eldstöðinni.  Mjög mikið er um sprungur og misgengi í kerfinu og við Þingvallavatn hefur land sigið um allt að 40 metra síðustu 10.000 ár.  Þetta landsig á sér stað í miklum gos- og gliðnunarhrinum og fylgja þeim öflugir jarðskjálftar.  Síðast átti þetta sér stað árið 1789 en þá gaus reyndar ekki í kerfinu.

Jarðskjálftar eru algengir í Henglinum og næsta nágrenni.  Árin 1994-1999 mældust um 25.000 jarðskjálftar í eldstöðinni og náði þessi hrina hámarki árið 1998 með skjálftum sem náðu um 5 á Richterskvarðanum.  Landris mældist á þessum árum og virðist ástæðan hafa verið innstreymi kviku í kvikuhólf Hrómundartinds.  Þetta hætti svo 1999.

Hengill

Gossaga á nútíma

Hengillinn hefur ekki verið mikilvirkur síðustu 10.000 árin.  Það virðast ganga yfir goshrinur á u.þ.b. 2000 ára fresti að meðaltali.

Um 5 km. löng sprunga opnaðist á Hellisheiði fyrir um 9300 árum.   Þá hefur gosið rétt austan við Nesjavelli fyrir um 7000 árum.  Vel má vera að í þessum hrinum hafi gosið víðar en þau hraun séu falin undir yngri hraunlögum.  Fyrir um 5000 árum gekk svo allmikil gos- og rekhrina yfir í kerfinu.  Opnaðist þá m.a. 7 km. löng gossprunga í Skarðsmýrarfjalli.  Síðasta hrinan gekk svo yfir fyrir um 2000 árum og opnaðist þá mjög löng en sundurslitin gossprunga frá Stóra- Meitli, yfir Hellisheiðina ofan við Hveradali og að Skarðsmýrarfjalli.  Framhald hennar er svo austan Hengils og teygir sig þar 5 km. í átt að Þingvallavatni.  Sandey er einn nyrsti gígurinn í þessu gosi.  Flatarmál þessara hrauna er yfir 30 km2.

Nú eru um 2000 ár frá síðustu goshrinu í Henglinum og líkt og eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga, þá er hann kominn á tíma.   Umbrotin 1994- 1999 sýna líka að  eldstöðin er bráðlifandi.  Þó svo að Hengillinn teljist ekki til afkastamestu eldstöðva landsins þá gerir nálægt hans við þéttbýlasta svæði landsins það að verkum að rétt er að fylgjast mjög vel með eldstöðinni.  Gos í kerfinu mundi mjög líklega skera eða trufla alvarlega samgöngur um þjóðveg eitt, valda spjöllum við virkjanir og hugsanlega í sumarbústaðabyggð vestan megin við Þingvallavatn, svo dæmi séu tekin um hugsanleg áhrif af hraungosi.  Öskufall gæti einnig orðið mikið sérstaklega ef gossprunga næði í vatn eins og gerðist í gosinu fyrir 2000 árum.

Hengill

Færslur á eldgos.is sem tengjast Hengli:

Jarðskjálfti M 3,8 í Hengilskerfinu fannst á suðvesturlandi Apríl 2021

Skjálftar á Hengilssvæðinu jan. 2017

Nokkur skjálftavirkni við Mýrdalsjökul og á Hengilssvæðinu feb. 2012

Snarpir manngerðir skjálftar á Hellisheiði okt. 2011

Scroll to Top