Askja

Birta á :

Yfirlit

Askja í Dyngjufjöllum er  náttúrusmíð sem á fáa sína líka í veröldinni.  Lengi vel var Askja eina þekkta askjan hérlendis en orðið “askja” er í jarðfræði þýðing á enska orðinu “caldera” sem er notað yfir sigdældir í eldfjöllum.  Síðari tíma rannsóknir hafa staðfest að öskjurnar í Dyngjufjöllum eru í rauninni þrjár, hver ofan í annarri.  Sú yngsta myndaðist í kjölfar stórgoss í kerfinu árin 1874-5 og varð þá Öskjuvatn til sem nú er annað dýpsta vatn á Íslandi, eða um 220 metra djúpt.  Aðeins Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er dýpra, um 280 m en svo má hinsvegar deila um hvort það teljist vera stöðuvatn eða ekki.

Meginaskjan er um 45 ferkílómetrar en askjan sem geymir Öskjuvatn er um 11 ferkílómetrar.

Rannsóknir á Öskju, þessu magnaða, tröllslega landslagi órafjarri mannabyggðum hafa tekið sinn toll.  Árið 1907 drukknaði Þjóðverjinn Walter Von Knebel ásamt samlanda sínum í Öskjuvatni en hann hafði skrifað fræðigreinar í erlend tímarit um myndunarsögu Öskju.  Það var þó fræðimaðurinn Þorvaldur Thoroddsen sem fyrstur manna  sýndi fram á að Öskjuvatn væri sigketill.

Eldvirkni hefur verið á Dyngjufjallasvæðinu lengi, amk. síðan á næstsíðasta jökulskeiði en því lauk fyrir um 100.000 árum.

Öskjuvatn og Herðubreið í baksýn

Gossaga á nútíma

Mikil eldvirkni hefur verið í Öskjukerfinu síðan jökulskeiði ísaldar lauk fyrir 10-12.000 árum en þó var hún langmest í upphafi skeiðsins og má rekja til þrýstingsbreytinga í jarðskorpunni vegna jökulbráðnunar á þeim tíma.   Mjög stórt sprengigos varð á svæðinu fyrir um 10-11.000 árum.  Í kjölfar þeirrar hrinu seig hluti Dyngjufjalla um ca 200 metra og á þátt í myndun meginöskjunnar á svæðinu.  Virkni er áfram nokkuð mikil á svæðinu þar til fyrir um 2900 árum en þá dregur mikið úr eldvirkni en hættir þó aldrei alveg.

Frá Landnámi og fram til 1874 eru ekki heimildir um gos á svæðinu enda eins og áður segir, víðs fjarri mannabyggðum og þó eldsbjarmi sæist til fjalla var ekki auðvelt að staðsetja gosin.  Þó er vitað um nokkur smærri gos sem tekist hefur að staðsetja í tíma milli öskulaga úr stórgosum úr Heklu 1104,  Öræfajökulsgosinu 1362 og Veiðivatnagosinu 1477.  Ekki hafa þessi gos verið mikil og hvað þá vakið athygli.

Árið 1874 hefst svo geysiöflug rek- og goshrina á svæðinu og er megingosinu gerð skil undir flipanum “Stórgos eftir landnám”  Askja 1875. þessi hrina varði stutt en önnur hrina gengur svo yfir á árunum 1921-1930.  Þá urðu allmörg gos á svæðinu, líklega 9 talsins, en öll minniháttar.   Síðast gaus svo við Öskju árið 1961.  Undanfarin ár hefur skjálftavirkni á svæðinu heldur verið að aukast og þá má nefna endurteknar hrinur við Upptyppinga sem eru í næsta nágrenni Öskju.  Eldsumbrot á svæðinu á næstu árum er því engan veginn hægt að útiloka.

Ljósmynd:  Lilja Aðalsteinsdóttir – sept. 2010

Færslur á eldgos.is sem tengjast Öskju:

Veruleg jarðskjálftavirkni norðan Herðubreiðar október 2022

Verulegt landris við Öskju september 2021

Gríðarstórt berghlaup féll í Öskjuvatn júlí 2014

Jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl maí 2014

Allsnarpur jarðskjálfti norður af Öskju maí 2012

Hitastigið í Öskjuvatni eðlilegt – Ísleysið ekki eðlilegt apr.2012

Íslaust Öskjuvatn vekur athygli apr.2012

Jarðskjálfti skammt frá Öskju okt.2011

Scroll to Top