Grímsnes

Birta á :

 Yfirlit

Þegar farið er um þéttbyggð sumarbústaða og útivistarsvæðin þá standa rauðlitaðir, fremur lágreistir gígar upp úr landslaginu.  Þetta er eitt minnsta eldstöðvakerfi landsins, Grímsneskerfið og er það aðeins um 12 kílómetra langt og 4 km. breitt.  Jarðfræðileg staðsetning kerfisins er forvitnileg  enda nokkuð til hliðar við Vesturgosbeltið sem liggur frá Langjökli, um Þingvelli og að Henglinum.  Þá er fjarlægðin að eldstöðvakerfum á austurgosbeltinu  allnokkur.

Kerið er þekktasti gígurinn í kerfinu.  Lengi vel var talið að Kerið væri sprengigígur en nú er ljóst að um er að ræða gjallgíg sem hefur fallið saman.  Seyðishólar og Kerhóll eru aðrir þekktir gígar í kerfinu.  Áður var talið að engin megineldstöð væri í kerfinu en nýjustu rannsóknir benda til þess að útkulnaða megineldstöð sé að finna undir Grímsneskerfinu.   Þar finnst djúpberg t.d. Gabbró sem líklega tengist fornu kvikuhólfi.  Gosbergið er svokallað ólivínþóleiítgerð sem algengara  er í Vesturgosbeltinu.  Því er  einnig mögulegt að kvikan eigi sér sömu rætur og hraun sem runnið hafa austan og norðan Þingvalla en þar runnu nokkuð mörg hraun fyrir um 8-10 þúsund árum.  Hrinurnar í Grímsneseldstöðinni virðast vera þrjár á nútíma, sú fyrsta fyrir um 9500 árum, næsta fyrir 8200 árum (líklega eitt stakt, lítið gos) og sú yngsta fyrir um 7000 árum.  Eldgosin í þessu kerfi hafa alla jafna verið lítil

Kerið í Grímsnesi

Kerfið er ekki mikilvirkt og í raun aðeins vitað um tvær megingoshrinur í því frá ísaldarlokum.  Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um orsakir eldvirkninnar í kerfinu og ein skýringin gæti verið Suðurlandsskjálftabeltið sem liggur frá Ölfusinu og að Heklu.  Eldvirkni tengd Suðurlandsskjálftum hefur ekki átt sér stað í seinni tíð en þó eru stakar gosmyndanir á svæðinu auk Grímsneskerfisins sem ekki er hægt að heimfæra upp á stóru gosbeltin með góðu móti.  Þar má nefna t.d. Hestfjall í Grímsnesi og jafnvel Ingólfsfjall.  Gosin í Grímsnesinu gætu því hafa fylgt mjög öflugum Suðurlandsskjálftum í fyrndinni.

Þó um 7000 ár séu síðan gos varð í Grímsnesi þá telst svæðið virkt.  Hinsvegar er erfiðara að spá um framhaldið.  Ef raunin er sú að Vesturgosbeltið  sé að hliðrast til austurs eða stækka þá má í framhaldinu gera ráð fyrir aukinni virkni í Grímsnesinu.  Umbrotin gætu einnig hafa verið bundin við óvenju snarpa virkni á Suðurlandsskjálftabeltinu eða einhvernskonar kvikuhlaup frá eldstöðvum í Vesturgosbeltinu án þess að það sé að færast til.  Í þeim tilfellum er ekki rétt að gera ráð fyrir aukinni virkni en hún gæti samt sem áður haldið áfram endrum og eins.

Um er að ræða þéttbýlt láglendissvæði og því augljóst að eldsumbrot í Grímsnesi hefðu alvarlegar afleiðingar jafnvel þó um væri að ræða lítið eða lítil gos.  Undanfari slíkra atburða færi þó varla framhjá vísindamönnum enda er þétt jarðskjálftamælanet á þessum slóðum.

 

Scroll to Top