ELDGOS VIÐ GRINDAVÍK – STÓRTJÓN ÞEGAR ORÐIÐ

Birta á :
  • ELDGOS HÓFST SKÖMMU FYRIR KL. 8  Í MORGUN Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI NORÐAUSTUR AF GRINDAVÍK
  • NÝ GOSSPRUNGA OPNAÐIST INNAN VARNARGARÐA VIÐ GRINDAVÍK UM HÁDEGISBIL
  • HRAUN RENNUR INN Í GRINDAVÍKURBÆ
  • TVÖ HÚS BRUNNIN Í HÓPSHVERFI OG MÖRG Í HÆTTU
  • HRAUN RENNUR YFIR GRINDAVÍKURVEG.  RAFMAGNS- OG HITAVEITULAGNIR LASKAÐAR
Skjáskot af einni af vefmyndavélum Rúv. undir kvöld. Þarna sést gossprungan skammt norðan við bæinn og logar í tveimur húsum. Tvö eru líklega þegar brunnin fyrir utan þessi tvö. 

VERSTA MÖGULEGA SVIÐSMYND ELDSUMBROTA Í SVARTSENGI ER AÐ RAUNGERAST.  ELDGOSIÐ SEM HÓFST Í MORGUN ER EKKI AFLMIKIÐ EN KEMUR UPP Á VERSTA STAÐ.  FYRST OPNAÐIST UM KÍLÓMETERSLÖNG SPRUNGA Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI OG VIRTUST VARNARGARÐAR ÆTLA AÐ HALDA, BEINA HRAUNSTRAUMNUM FRÁ BÆNUM OG GRINDAVÍK MÖGULEGA AÐ SLEPPA.  SÍÐAN GERÐIST ÞAÐ UM HÁDEGIÐ AÐ NÝ SPRUNGA OPNAÐIST INNAN VARNARGARÐA AÐEINS UM 100 M FRÁ NYRSTU HÚSUM Í HÓPSHVERFI.  HRAUNRENNSLI FRÁ ÞEIRRI SPRUNGU ER EKKI MIKIÐ EN HEFUR ÞÓ ÞEGAR HAFT UNDIR TVÖ ÍBÚÐARHÚS OG FLEIRI ERU Í STÓRHÆTTU.

Gosið hefst eftir landris í aðeins tæpan mánuð frá síðasta eldgosi.  það er mikið áhyggjuefni að svo stutt sé á milli gosa og segir okkur að mikið kvikuinnflæði er inn í kerfið og það getur mögulega staðið árum saman með síendurteknum gosum.  Miðað við  það sem nú er að gerast verður að telja það því miður harla ólíklegt að Grindavíkurbær sleppi við meiriháttar skaða til langframa.  

Nýr varnargarður norðan Grindavíkur hefur þegar komið í veg fyrir stórkostlegt tjón því hann hefur beint hraunstraumnum úr meginsprungunni vestur fyrir bæinn.  Að vísu fór hluti Grindavíkurvegar undir hraun fyrir vikið og innviðir rafmagns- og hitaveitulagna.  Það er vissulega tjón en markmiðið er alltaf að bjarga því sem bjargað verður af bænum.  

Nú er spurningin hversu lengi þetta gos varir og hvort fleiri gosopnanir verði við eða innan bæjarmarkana.  Lítið hefur dregið úr gosinu á þeim 10 tímum sem það hefur staðið yfir þegar þetta er skrifað og er það satt best að segja ekki góðs viti.  

En það er ekki aðeins eldgosið sem ógnar byggðinni.  Sprungur hafa opnast víða í bænum og hefur það þegar valdið hörmulegum mannskaða.  Vitað er að atburðarrásin sem hófst í nótt hefur enn aukið á sprungumyndanir, nýjar myndast og þeir eldri gliðnað.  Langan tíma mun því taka að gera bæinn íbúðarhæfan aftur jafnvel þó hægist á eldsumbrotunum.

Scroll to Top