ELDGOS HÓFST UPPÚR KL. 8 Í KVÖLD Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI. GOSSPRUNGAN VIRÐIST VERA Á MILLI HAGAFELLS OG STÓRA – SKÓGFELLS, Þ.E. Á SVIPUÐUM EÐA SAMA STAÐ OG GOSIÐ SEM VARÐ 8.FEFBRÚAR. GOSIÐ HÓFST EFTIR SKAMMVINNA JARÐSKJÁLFTAHRINU OG VIRÐIST VIÐ FYRSTU SÝN ANSI ÖFLUGT.
Búist hafði verið við eldgosi í um tvær vikur og kom í raun á óvart að það var ekki hafið fyrr. Heldur meiri kvika hafði safnast fyrir undir Svartsengi en fyrir síðasta gos svo reikna má með öflugra gosi. Líklega stendur það þó stutt eins og fyrri gosin á Sundhnúkasprungunni.
Nú eru allra augu á því hvert hraunið rennur, hvort meginstraumurinn renni til austurs í átt að Fagradalsfjalli eða til vesturs í átt að Svartsengi og innviðum þar. Grindavík ætti ekki að vera í hættu ef gosið heldur sig á þessum slóðum.
UPPFÆRT 17. MARS KL 8 : 40
Gosið er það aflmesta í Sundhnúkagígaröðinni hingað til. Við því mátti búast því lengra hlé hafði staðið yfir en áður og því meiri kvika safnast upp í kvikuhólfinu undir Svartsengi.
Hraun hefur flætt yfir Grindavíkurveg á svipuðum slóðum og í gosinu 8. febrúar. Enn eru um 200 metrar í Njarðvíkuræðina en mikið hefur hægt á hraunrennslinu og óvíst að það nái henni. Að auki er hún betur varin en áður, búið að fergja hana á þessum slóðum.
Hraun er um 750 metra frá Suðurstrandarvegi en þar er helsta áhyggjuefnið hrauntjarnir sem geta brostið með engum fyrirvara og því er hættan hvað hann varðar ekki úr sögunni.