Reykjaneshryggur

Snörp jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í kvöld.  Þegar um svo mikinn fjölda er að ræða þá geta slæðst inn villur, t.d. er ólíklegt að þessir skjálftar sem sýndir eru á Reykjanesskaganum sjálfum hafi átt upptök þar.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í kvöld. Þegar um svo mikinn fjölda er að ræða þá geta slæðst inn villur, t.d. er ólíklegt að þessir skjálftar sem sýndir eru á Reykjanesskaganum sjálfum hafi átt upptök þar.

Um kl 21 í kvöld hófst allsnörp jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, skammt norðvestur af Geirfugladrangi, á svipuðum slóðum og hrinan sem varð 12. júní sl.  Skjálftarnir nú virðast  þó heldur öflugri og eru amk. tveir þeirra í kringum M4 af stærð og fundust á Reykjanesskaganum.  Þá bárust tilkynningar frá Akranesi um að skjálftarnir hafi fundist þar.  Mikill fjöldi skjálfta mældist fyrstu klukkutímana, vel á annað hundrað.  Skjálftarnir eru margir hverjir á allmiklu dýpi, 10-12 km og allt niður á 16 km sem er fremur óvenjulegt á þessu svæði.

Hrinur af þessu tagi eru algengar á þessum slóðum og þurfa ekki að boða neitt meira.   Það  þarf þó alltaf að hafa varann á þegar kröftugar skjálftahrinur ganga yfir á Reykjaneshryggnum því þarna eru mörg dæmi um neðansjávargos.

Fréttir fjölmiðla af skjálftunum:

Visir.is : Skjálftahrina vestur af Reykjanesi

Pressan.is : Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg í kvöld: Hundrað skjálftar á rúmum klukkutíma

UPPFÆRT 1. júlí kl. 23:45

Jarðkjálfti upp á M 5 og litakóði yfir Eldeyjareldstöðinni úr grænum í gulan

Skjálftahrinan hefur haldið áfram og urðu nokkrir verulega snarpir skjálftar í fyrrinótt.  Sá stærsti mældist M5 og annar M4.9.  Veðurstofan hefur ákveðið í samráði við Almannavarnir RLS að breyta litakóða eldstöðvarinnar við Eldey úr grænum í gulan sem þýðir að virkni er yfir meðaltali.  Heldur hefur dregið úr hrinunni eftir því sem liðið hefur á daginn en þó mælast nokkuð þéttir skjálftar og hrinunni hvergi nærri lokið.  Síðast gaus á þessum slóðum svo vitað sé með vissu árið 1926.  Það gos var lítið og varð skammt Norðaustan við Eldey.  Amk. 3 gos urðu á þessum slóðum á 19. öld, árin 1830, 1879 og 1884.  Það er því ljóst að harðir jarðskjálftar á þessu svæði er eitthvað sem fylgjast þarf með.

 

 

Jarðskjálftar undan Eldey

Reykjaneshryggur120515

.

Í gærmorgun gekk yfir jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, skammt sunnan við Eldey.  Mældust um 150 skjálftar og 8 þeirra yfir M 3 , sá sterkasti 3,9.  Líklegt er að sterkustu skjálftarnir hafi fundist lítillega á Suðurnesjum.

Hér var um að ræða hefðbundna hrinu á þessum slóðum sem tengist flekahreyfingum en slíkar hrinur ganga yfir árlega á þessum slóðum, jafnvel nokkrum sinnum á ári.  Sérlega snörp hrina varð þarna vorið  2013 sem sjá má hér.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í gær.  Hrinan virðist hafa gengið yfir á um  8 tímum en gæti þó vel tekið sig upp aftur miðað við söguna.

Skjálftahrina undan Reykjanesi

Skjálftaupptök á Reykjaneshrigg síðan í morgun.  Grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3 af stærð.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftaupptök á Reykjaneshrigg síðan í morgun. Grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3 af stærð. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

 

Skjálftahrina hófst undan Reykjanesi, skammt suðvestur af Geirfugladrangi í morgun.  Tveir skjálftar hafa verið sterkastir, 3,6 og 3,4 stig en mikill fjöldi smærri eftirskjálfta hefur fylgt og hrinan er enn í fullum gangi.  Hrinur á þessum slóðum eru mjög algengar og standa gjarnan í nokkra daga.  Svo vill til að fyrir réttu ári, 9.maí 2013 varð hrina svo að segja á nákvæmlega sama stað.

Þess má vænta að hrinan standi yfir næstu sólarhringa en skjálftar um og yfir M 3 gætu fundist á Reykjanesskaganum og um og yfir M 4 víðar á Suðvesturlandi ef þeir eiga sér stað.

 

Skjálftar undan Reykjanesi

Upptök skjálftanna á Reykjaneshrygg síðasta sólarhring.
Upptök skjálftanna á Reykjaneshrygg síðasta sólarhring.

.

Í gærkvöldi hófst skjálftahrina við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg, um 30 km. suðvestur af Reykjanestá.  Nokkrir skjálftar mældust um 3M af stærð, svo dró úr hrinunni í morgun en laust fyrir kl. 11 tók hún sig upp aftur með skjálfta af stærðinni 4,1 og fannst hann á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.

Hrinur verða á þessum slóðum alloft.  Í mars 2012 varð hrina svo að segja á sama stað en hrinan nú er þó mun öflugri.  Þá urðu hrinur í apríl og september í fyrra en þær voru heldur fjær landi.

Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum tengjast flekaskilunum sem liggja þarna um.  Mörg dæmi eru um eldgos á Reykjaneshrygg en ekkert sérstakt bendir til þess nú.

Myndin hér til hægri er tekin af vef Veðurstofu Íslands.

Fréttir um skjálftana í fjölmiðlum:

Ruv.is:  Skjálfti á Reykjanestanga

Mbl.is:  Skjálfti á Reykjanestanga

Visir.is:  Tugir eftirskjálfta

UPPFÆRT 10/5 kl. 01 20

Skjálftahrinan færist í aukana – Skjálfti upp á 4,5

Skjálftahrinan á Reykjaneshrygg hefur haldið látlaust áfram frá því í morgun og hefur heldur færst í aukana.  Um kl. 19 20 í kvöld varð skjálfti upp á 4,5 M og fannst hann víða á Suðvesturlandi.  Hrinan er enn í fullum gangi þegar þetta er skrifað og má því búast við skjálftum um og yfir 4 M eitthvað áfram.  Ekki er að sjá á upptakakorti Veðurstofunnar að staðsetning á upptökum skjálftanna hafi breyst síðan hrinan hófst.

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

.

Laust fyrir kl. 3 í nótt hófst jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, um 10-15 Km. suðvestur af Geirfugladrangi.  Stærsti skjálftinn hefur mælst skv. sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar 3,6 M en tveir aðrir yfir 3 og  mikill fjöldi minni skjálfta.  Skjálftahrinur á þessum slóðum eru algengar.  Fyrr á þessu ári urðu hrinur á svipuðum slóðum, í febrúar, mars og apríl.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálftana í nótt.

Scroll to Top