Gosinu að ljúka en hraun skríður yfir varnargarða

Birta á :
Graf sem er að finna á vef Veðurstofunnar og sýnir áætlað magn kviku sem safnast fyrir undir Svartsengi á milli eldgosa eða kvikuhlaupa.

Eldgosið sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni þann 29.mars er við það að syngja sitt síðasta.  Hraun sést ekki renna frá gígnum en þó er enn glóð í honum og mögulega rennur eitthvað frá honum undir hraunbreiðunni.  Líkt og í síðustu gosum þá varð nokkurt tjón af völdum þess, aðallega þó á vegum.  Grindavíkurvegur varð fyrir enn einu áhlaupinu og fór undir þykkt hraun á nokkuð löngum kafla við Svartsengi.  Ekki hefur verið lagður nýr vegur þar yfir enda enn mikil hreyfing á hrauninu.

Nú allra síðustu daga hefur hraunið verið að fikra sig yfir varnargarða við Svartsengi, um 1 km frá orkuverinu.  Þetta gerist hægt en þó er mikill hraunmassi sem hefur bunkast þarna upp á ferðinni.  Þar sem gosinu er svo að segja lokið þá er ólíklegt að þetta hraun valdi frekari skaða.

Framhaldið er hinsvegar ansi óljóst ekki síst í ljósi misvítandi yfirlýsinga fræðimanna.  Tveir af okkar virtustu eldfjallafræðingum, þeir Þorvaldur Þórðarson og Haraldur Sigurðsson telja að innflæði kviku frá stóru kvikuþrónni á 9-12 km dýpi muni stöðvast síðsumars og merkja minnkandi innflæði frá þrónni. Telja þeir að virknin fjari út síðsumars og þetta gæti verið síðasti atburðurinn á Sundhnúkagígaröðinni í bili amk.   Magnús Tumi Guðmundsson virðist þessu ekki sammála og segir engin merki hafa komið fram sem bendi til þess að það dragi úr innrennsli kviku að neðan.  

Veðurstofan telur að hraunflæði undanfarnar tvær vikur eða rétt rúmlega það hafi verið um 10 m3 á sekúndu.  Þrátt fyrir það hefur verið smávægilegt landris.  Það bendir til þess að enn sé innflæði stöðugt, varla mikið minna en 10 rúmmetrar á sekúndu.  Satt að segja er ekki mjög líklegt því miður að þessu sé að ljúka.  

Ástæðurnar eftirfarandi:

  • Ennþá stöðugt kvikuflæði frá stóru þrónni upp í þá minni og til yfirborðs, líklega á bilinu 7-10 rúmmetrar á sekúndu.
  • Aðeins tæplega helmingur kviku hefur komið upp sé miðað við síðasta virknistímabíl á þessu svæði frá árunum 1210-1240.
  • Þegar gaus á þessu svæði fyrir um 2000-2500 árum þá virðist virknin hafa haldið sig að mestu á Sundhnúkaröðinni en þó urðu einnig eldgos vestar í Svartsengi (Klofningshraun).  

Það er nokkuð líkleg sviðsmynd að gos haldi áfram á Sundhnúkagígaröðinni í einhver ár til viðbótar en að lengra verði á milli þeirra.  það er líka nákvæmlega það sem hefur verið að gerast mun sú þróun sennilega halda áfram.  Hvort það takist að verja mannvirki í Svartsengi og Grindavíkurbæ verður að koma í ljós en það gæti orðið erfitt eftir því sem gosunum fjölgar og hraunrennsli eykst í hverju gosi.

Scroll to Top