Reykjaneshryggur

Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

.

Laust fyrir kl. 3 í nótt hófst jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, um 10-15 Km. suðvestur af Geirfugladrangi.  Stærsti skjálftinn hefur mælst skv. sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar 3,6 M en tveir aðrir yfir 3 og  mikill fjöldi minni skjálfta.  Skjálftahrinur á þessum slóðum eru algengar.  Fyrr á þessu ári urðu hrinur á svipuðum slóðum, í febrúar, mars og apríl.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálftana í nótt.

Skjálftar við Geirfuglasker

Jarðskjálftahrina hófst við Geirfuglasker ca. 25 km. suðvestur af Reykjanestá um kl. 20 30 í kvöld.  Skjálftarnir eru flestir milli 2-3 á Richter samkvæmt mælum veðurstofunnar en athygli vekur að flestir þeirra eru á um 10-15 km dýpi.  Það er frekar djúpt miðað við hefðbundna flekaskjálfta á eða við Ísland.  Hrinan er enn í fullum gangi en þess ber að geta að skjálftar á þessum slóðum á Reykjaneshrygg eru mjög algengir.

Fyrir rúmum mánuði varð heldur öflugri hrina úti fyrir Reykjanesi en það var fjær landi en hrinan í kvöld.  Þá er skemmst að minnast skjálftanna við Hafnarfjörð í byrjun mars.  Það virðist því nokkur óróleiki í gangi á vestara gosbeltinu.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í kvöld.

Nokkuð snarpir skjálftar á Reykjaneshrygg

Jarðskjálftahrina hófst í nótt á Reykjaneshrygg um 60-70 km. sv. af Reykjanestá.  Hrinan stendur enn og eru stærstu skjálftarnir hingað til um og yfir 3 á Richter samkvæmt sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar. Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum eru algengar og oft mun öflugri en þessi.  Ein slík hrina varð í ágúst 2011 en þá mun nær landi og með skjálftum upp á 4 á Richter.

Meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir upptök skjálftanna.  Grænar stjörnur eru skjálftar yfir 3 á Richter.

Uppfært kl. 13:36 Hrinan færðist nokkuð í aukana uppúr kl. 10 í morgun og allmargir skjálftar um 2,5-3 hafa orðið síðan þá.  Ekkert bendir þó til annars en að þetta sé hefðbundin jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum.

Snarpir skjálftar á Reykjaneshrygg

Allsnarpir jarðskjálftar urðu í gærkvöldi um 20-30 km. suðvestur af Reykjanesi.  Stærsti skjálftinn mældist 4.0 á Richter og annar varð upp á 3.6.   Skjálftarnir eru á flekaskilum og algengt að þarna verði skjálftar af þessari stærð og jafnvel mun stærri.  Engin ástæða er til að ætla að þeir boði eldvirkni.

Einnig hafa mælst skjálftar við Krísuvík undanfarna daga, sá stærsti 2,8 á Richter og fannst hann í Hafnarfirði.  Meðfylgjandi kort er fengið af vef Veðurstofu Íslands.

Scroll to Top