KVIKAN Á INNAN VIÐ 1 KM DÝPI – ELDGOS LÍKLEGA AÐ HEFJAST

Birta á :
Upptök skjálfta á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Kvikugangurinn sem hefur verið að brjótast um á milli Keilis og Fagradalsfjalls er nú talinn vera á innan við 1 km. dýpi samkvæmt fréttum Rúv í kvöld.  Skjálftavirkni hefur verið mikil en heldur dregið úr henni í dag en það passar vel við þá kenningu að það dragir úr skjálftum þegar kvika nálgast yfirborðið.  Þá hafa verið harðir skjálftar nálægt Eldey úti fyrir Reykjanesi í kvöld og enn óvíst hvað  það boðar.

Það hefur verið áberandi í þessari hrinu er hve fáir svokallaðir gikkskjálftar hafa mælst.  Í fyrri hrinum urðu stórir gikkskjálftar nærri Grindavík og einnig á Krísuvíkursvæðinu.  Þá hefur líklega losnað um það mikla spennu að þessi svæði eru ekki að brotna núna.  Þeir skjálftar sem mælast nú eru því nær eingöngu tengdir kvikuganginum sem er að brjótast til yfirborðs.

Það sem gerist þegar kvikugangur nálgast yfirborðið er að hann þarf minna að hafa fyrir því að brjóta bergið og það léttir á þrýstingnum.  Skjálftar verða því minni og færri.  Þegar gosið svo hefst þá hefur kvikan fundið greiða leið til yfirborðs og skjálftar nánast hætta.

Nú er talið líklegast að eldgos hefjist á milli fjallanna Litla-Keilis og Litla-Hrúts sem eru skammt suður af Keili í áttina að Fagradalsfjalli.  Þetta er nánast algjörlega á miðjum Reykjanesskaganum og þarf því verulega stórt gos til að ógna einhverjum innviðum eins og Reykjanesbrautinni sem dæmi.  Þrátt fyrir að gosið verði líklega mun stærra en tvö undangengin gos þá er ólíklegt að hraun nái að renna ca þá 10 kílómetra sem þarf til þess.  

Harðir jarðskjálfta hafa verið að mælast við Eldey í kvöld, tveir um M 4,5 en óvíst er hvort það tengist því sem er að gerast á Reykjanesskaganum.  Neðansjávargos á þessum slóðum hefði líklega mjög slæmar afleiðinga fyrir flug til og frá landinu.

Scroll to Top