Bárðarbunga

Skjálftar í Kötlu og Bárðarbungu

Skjálftar í Kötlu síðustu sólarhringa. Myndin ef fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar mældust í gærkvöldi í Kötluöskjunni, sá stærsti M 3,2 en á þriðja tug smærri skjálfta mældust.  Það er alþekkt að skjálftahrinur verði í Kötlu síðsumars og fram á haust vegna fargbreytinga, þ.e. sumarbráðnunar jökulsins sem hefur í för með sér þrýstingsbreytingar í Kötluöskjunni.  það má alveg reikna með skjálftahrinum vel fram á haustið.  Eldgos í Kötlu er nú heldur aldrei hægt að útiloka enda að verða liðin 103 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé frá landnámi.

Í fyrradag urðu svo tveir nokkuð snarpir skjálftar í Bárðarbungu.  Stærðin var nokkuð á reyki en sá stærri virðist hafa verið um M 4,5 og hinn litlu minni.  Þessir skjálftar stafa af kvikusöfnun í kvikuhólf kerfisins sem þrýstir á botn öskjunnar.  Askjan seig um 60 metra í Holuhraunsgosinu 2014-15 og hefur svo aftur hækkað um 10 metra síðan.  Þessar hreyfingar valda skjálftumsem geta orðið nokkuð öflugir.  Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi í Bárðarbungu.

Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá goslokum

Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Bárðarbungu
Myndin er af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Bárðarbungu

Í kvöld mældust snarpir jarðskjálftar í norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,9 og er stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá goslokum árið 2015.  Tveir aðrir nokkuð snarpir skjálftar mældust, M 3,8 og 3,7.  Skjálftarnir voru fremur grunnir eða á tæplega tveggja kílómetra dýpi.  Þá hafa á annan tug smærri skjálfta mælst.

Þrýstingurinn í  kringum eldstöðina virðist vaxa hægt og örugglega og skjálftarnir stækka i samræmi við það.  Það er athyglisvert að fyrir nákvæmlega ári síðan varð skjálftahrina í eldstöðinni á nákvæmlega sama stað nema hvað þeir skjálftar voru töluvert dýpri.  Sjá hér

Á meðan Bárðarbunga er að færa sig upp á skaftið virðist Öræfajökull vera að róast og þar er lítið um skjálfta.  Líklega hefur kvikuinnskotið sem þar hefur verið í gangi stöðvast , í bili amk.

Aukin rafleiðni og líklega hlaup í Jökulsá á Fjöllum

Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Fjöllum

Rennsli Jökulsár á Fjöllum er tvöfalt á við rennslið á þessum árstíma að jafnaði og rafleiðni hefur hækkað verulega í ánni undanfarnar tvær vikur.   Áin er að auki mórauð og það er lykt af henni.   Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum í Vatnajökli er nokkuð stórt og koma þar tvær eldstöðvar við sögu, Kverkfjöll og Bárðarbunga.  Oftast eru það einhver umbrot á Kverkfjallasvæðinu sem valda hlaupum í ánni en einnig geta umbrot í austanverðum Dyngjujökli valdið þeim en það svæði er á virknissvæði Bárðarbungu.

Engir skjálftar hafa mælst nýlega í Kverkfjöllum og ekkert sem bendir til neinna umbrota þar.  Jarðhitasvæði undir jökli geta þó lekið án þess að það valdi skjálftum.

Hinsvegar hefur verið mikill óróleiki í Bárðarbungu undanfarið, nýlega urðu þar stærstu skjálftarnir frá goslokum og að auki mældust óvenju djúpir skjálftar um 10-15km austur af Bárðarbungu en djúpir skjálftar vekja alltaf grun um kvikuhreyfingar.  Ekki er því útilokað að lítið kvikuinnskot á austanverðu Bárðarbungusvæðinu sé að valda þessu.  Í öllu falli er mun líklegra miðað við skjálftavirkni að Bárðarbunga sé að valda þessu frekar en jarðhitasvæðið við Kverkfjöll.

Ekki hefur reynst hægt að fljúga yfir svæðið vegna veðurs en þegar það tekst þá ættu upptökin að sjálst því ef katlar eru að leka þá sést það væntanlega á yfirborði jökulsins.

Uppfært 9. Nóvember

UPPTÖKIN LÍKLEGA Í KVERKFJÖLLUM

Nú bendir flest til þess að upptök þessa smáhlaups og aukinnar rafleiðni séu í Kverkfjöllum, nánar tiltekið í jarðhitasvæði sem nefnist Gengissig.  Vísindamenn hjá Járðvísindastofnun Háskóla Íslands hafa borið saman ratsjármyndir af svæðinu teknar  mismunandi timum nýlega og þær sýna smávægilegar breytingar á þessu svæði.

 

Snarpir skjálftar í Bárðarbungu

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands en breytt af síðuhöfundi. Sjá texta til skýringar.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands en breytt af síðuhöfundi. Sjá texta til skýringar.

Í gærkvöldi og fyrri hluta nætur mældust snarpir jarðskjálftar í Bárðabungu.  Sá stærsti var M4,7 og er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum árið 2015.  Stóri skjálftinn varð á um 5 km dýpi.  Nokkrir aðrir skjálftar urðu á bilinu M3-4 og fjöldi minni skjálfta.

Það virðist vera að tíðni stærri skjálfta fari vaxandi og það sem einnig vekur athygli er að þeir verða nánast allir á svipuðum slóðum í öskjunni, norðvestan eða norðantil í henni.  Í aðdraganda eldgossins í Holuhrauni dreyfðust þeir víðar og enduðu flestir í suðausturhluta öskjunnar þar sem kvika fann sér svo farveg í sprungusveim sem lá norður og kom að lokum upp í Holuhrauni.

Það er vitað að frá Bárðarbungu liggur einnig sprungusveimur til suðvesturs.  Það var áhyggjuefni fyrir gosið hvort kvika mundi ná að komast inn í þann sprungusveim og gæti á hugsanlega komið upp á Veiðivatnasvæðinu eins og hefur tvívegis gerst eftir landnám.   Það gerðist ekki.

Spurningin er hinsvegar hvað er að gerast þarna norðan til í öskjunni því eins og áður segir virðast allir stærstu skjálftarnir eftir gosið verða þar.  Er kvika að reyna að troða sér þar upp sem gæti leitað til suðvesturs?  Það er ekki útilokað.  Engu að síður er þetta þróun sem gæti tekið mörg ár áður en næsta gos verður.  Þó verður að áætla að miðað við fjölda og stærð jarðskjálfta frá því gosinu lauk þá sé þessari umbrotahrinu í Bárðarbungu alls ekki lokið.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna.  Ég teiknaði inn á hana líklega sprungusveima frá bárðarbungu, annan í átt að Holuhrauni, leið kvikunnar í gosinu 2014-15 og hinn sem ég tel liklegt að liggi til suðvesturs frá öskjunni.

Snörp hrina í Bárðarbungu

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna i Bárðarbungu.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna i Bárðarbungu.

Laust eftir hádegið hófst jarðskjálftahrina í Bárðarbungu sem stendur enn þegar þetta er skrifað.  Stærsti sjálftinn mældist M4,3 en annar M4,1 varð skömmu síðar.  Um kl 15 20 mældist svo skjálfti upp á M3,4.

Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum og aðrir stórir skjálftar sem mælsta hafa í Bárðarbungu síðasta árið, nema hvað að þeir eru töluvert dýpri sem hlýtur að vekja athygli.  Þeir eru á um 9-12 km dýpi en þar má ætla að kvikuhólf eldstöðvarinnar sé.  Flestir skjálftar síðasta árið hafa mælst á 3-6 km dýpir sem bendir til þess að átök i hringsprungum ofan við kvikuhólfið hafi valdið þeim.  Það á tæplega við um þessa skjálfta núna.  Dýpi þeirra gæti bent til þess að uppstreymi kviku í kvikuhólfið sé að þrýsta á berglögin í kring.

Vitað er að eldstöðin er að þenjast út einmitt vegna uppstreymis kviku en eldgos í bráð er þó frekar ólíklegt , enda langt í það að kvikuinnstreymið nái að fylla kvikuhólfið að sama marki og það hefur væntanlega verið í þegar umbrotin hófust 2014.

Scroll to Top