Katla

Nokkuð snarpur skjálfti í Kötlu

Upptök jarðskjálftanna í Kötlu í kvöld. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld varð skjálfti M 4,1 í sunnanverðri Kötluöskjunni.  Nokkrir eftirskjálftar fylgdu, allir mun minni.  Skjálftinn virðist ekki hafa fundist í nágrenninu, amk. hafa engar tilkynningar um það borist.  

Skjálftavirkni er venjulega mest í Mýrdalsjökli síðsumars og á haustin. Reikna má með skjálftahrinum í jöklinum næstu mánuði en það er svosem ekkert sem bendir til stærri atburða þrátt fyrir að goshléið í Kötlu sé orðið það lengsta sem vitað er um á sögulegum tíma, enda ekki gosið svo staðfest sé síðan 1918.

Þessir skjálftar eru á vatnasviði Sólheimajökuls en hlaup úr jöklinum frá því svæði eru vel þekkt þó ekki komi til eldgoss, þar er væntanlega jarðhitavirkni um að kenna.

Skjálftar í Kötlu og Bárðarbungu

Skjálftar í Kötlu síðustu sólarhringa. Myndin ef fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar mældust í gærkvöldi í Kötluöskjunni, sá stærsti M 3,2 en á þriðja tug smærri skjálfta mældust.  Það er alþekkt að skjálftahrinur verði í Kötlu síðsumars og fram á haust vegna fargbreytinga, þ.e. sumarbráðnunar jökulsins sem hefur í för með sér þrýstingsbreytingar í Kötluöskjunni.  það má alveg reikna með skjálftahrinum vel fram á haustið.  Eldgos í Kötlu er nú heldur aldrei hægt að útiloka enda að verða liðin 103 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé frá landnámi.

Í fyrradag urðu svo tveir nokkuð snarpir skjálftar í Bárðarbungu.  Stærðin var nokkuð á reyki en sá stærri virðist hafa verið um M 4,5 og hinn litlu minni.  Þessir skjálftar stafa af kvikusöfnun í kvikuhólf kerfisins sem þrýstir á botn öskjunnar.  Askjan seig um 60 metra í Holuhraunsgosinu 2014-15 og hefur svo aftur hækkað um 10 metra síðan.  Þessar hreyfingar valda skjálftumsem geta orðið nokkuð öflugir.  Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi í Bárðarbungu.

Sumarskjálftar í Mýrdalsjökli

Skjálfti af stærðinni M 3,4 mældist í Mýrdalsjökli kl 07 41 í morgun. Annar M 2,8 mældist skammri stundu áður. Sá stærri fannst í næsta nágrenni við eldstöðina. Upptök skjálftanna voru í Kötluöskjunni.

Staðsetning skjálftanna í Mýrdalsjökli. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Algengt er að jarðskjálftavirkni aukist í Mýrdalsjökli síðsumars og fram á haust vegna jökulbráðnunar og fargbreytinga. Þetta hefur einnig áhrif á jarðhitasvæði í jöklinum og hefur einmitt mælst há leiðni í Múlakvísl undanfarnar vikur, svo há að fólki er ráðlagt að gæta sín þar sem áin rennur undan jöklinum því gas getur safnast í lægðir.

Allra síðustu árin hefur verið tiltölulega rólegt á Kötlusvæðinu eftir nokkur umbrot í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og einning lét Katla illa árið 2016. Nú eru liðin tæp 102 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé sem vitað er um í fjallinu frá landnámi. Reyndar er talið að smágos hafi orðið nokkrum sinnum á þessu tímabili sem ekki hafi náð uppúr jöklinum.

Hlaup hafið í Múlakvísl

Lítið hlaup virðist vera hafið í Múlakvísl sem rennur undan Mýrdalsjökli.  Rafleiðni hefur aukist mikið í ánni síðustu daga sem bendir til þess að jarðhitavatn renni í hana.  Rennsli jókst svo verulega í kvöld og er enn að aukast á miðnætti.  Það er alltaf spurning hvernig þetta jarðhitavatn brýst fram.

Í gær mældist öflugur jarðskjálfti í Kötlu M 4,5.   Hrinur verða gjarnan í Kötlu síðsumars og frameftir hausti en það tengist bráðnun á jöklinum.  Jarðhitavirkni undir jöklinum bræðir hann einnig og getur valdið skjálftum og minniháttar jökulhlaupum eins og nú virðist vera að gerast.

Hægt er að fylgjast með rennsli í Múlakvísl á vef Veðurstofunnar.

Snarpur skjálfti í Kötlu

Skjálftar í Kötlu 26.jan 2017.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Kötlu 26.jan 2017. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálfti sem miðað við fyrstu tölur mældist M 4,3 varð í miðri Kötluöskjunni í dag.  Nokkrir smærri eftirskjálftar hafa fylgt.  Þetta er stærsti skjálftinn i Kötlu siðan i hrinunni 29. ágúst þegar tveir skjálftar 4,5 og 4,6 mældust og það voru þá stærstu skjálftar í Mýrdalsjökli i 39 ár.

Skjálftinn í dag fannst í Vík í Mýrdal en það er hreint ekki algengt að skjálftar í Kötlu finnist í byggð.  Skjálftarnir í dag eiga það sameiginlegt með langflestum skjálftum í Kötlu undanfarið að þeir virðast mjög grunnir, mælast á um 1km dýpi eða við yfirborðið.  Það bendir frekar til þess að einhverjar breytingar á jökulfarginu valdi skjálftunum frekar en kvikuhreyfingar.  Það er þó engan veginn hægt að útiloka að þrýstingsbreytingar af þessu tagi geti haft áhrif á kvikuhólf eldstöðvarinnar og  komið af stað eldgosi.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum í dag:

Ruv.is: Stór skjálfti í Kötlu

Mbl.is: 4,3 stiga skjálfti i Kötlu

Scroll to Top