Katla

Mikil skjálftavirkni enn á ný í Kötlu

Upptök skálfta í Kötlu. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í nótt sem leið gekk snörp skjálftahrina yfir  í Kötlu. Stærsti skjálftinn mældist M 4,4 en alls hafa 8 skjálftar mælst yfir M 3 sem er ansi mikið og frekar óvanalegt á svo stuttum tíma í Kötlu.  Stóri skjálftinn fannst vel í Þórsmörk en líklega ekki annarsstaðar í byggð.  Skjálftarnir eiga upptök sín í norðaustanverðri Kötluöskjunni en þar eru hrinur algengar.  Ástæðan er talin vera aukin jarðhitavirkni fremur en kvikuhreyfingar en þó verður að benda á það að aukin jarðhitavirkni er nú oftast afleiðing einhvernskonar kvikuhreyfinga enda er það kvikan sem veldur jarðhitanum.  

Aukin rafleiðni hefur mælst í Múlakvísl og bræðsluvatn því að berast í ána.  Varla er hægt að tala um hlaup amk. enn sem komið er.

Þetta er mesta virkni í Mýrdalsjökli síðan 2016 og  nú þegar hafa mælst fleiri skjálftar i jöklinum en allt árið 2022 og 2021 sem dæmi.  Yfirleitt er mesta virknin  síðsumars eða á haustin, þ.e. ágúst- október og því gætu verið nokkuð fjörugir mánuðir framundan í Kötlu.  Goshlé er sem kunnugt er orðið það lengsta frá landnámi í eldfjallinu en skjálftavirknin sýnir enn og aftur að Katla er bráðlifandi.

Snarpir skjálftar í Mýrdalsjökli

Milli kl. 9 og 10 í morgun hófst óvenju öflug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,8 og tveir aðrir M 4,5 og 4,4.  Þetta eru öflugasta skjálftahrina í jöklinum frá því árið 2016.   Stærsti skjálftinn er þó líklega öflugasti skjálfti í Mýrdalsjökli síðan 1977 eða í 46 ár.  

 Upptök skjálftanna eru í norðaustanverðri Kötluöskjunni, þar sem eru þekkt jarðhitasvæði.  Flest bendir einmitt til þess að skjálftarnir tengist jarðhitasvæðunum frekar en kvikuhreyfingum þar sem skjálftarnir eru mjög grunnir.  Einkenni kvikuhreyfinga eru margir smáir skjálftar á talsverðu eða miklu dýpi. Því er ekki fyrir að fara hér, amk. ekki eins og staðan er núna.

Myndin er fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í Mýrdalsjökli.

Það er því ólíklegt að þessir skjálftar séu undanfari eldgoss en heldur ekki hægt að útiloka það.  Tímasetningin er frekar óvenjuleg því yfirleitt er mestur órói í Kötlu á haustin eftir sumarleysingar í jöklinum. 

Skjálftarnir eru hinsvegar óvenju stórir miðað við skálfta af völdum vatns og jarðhita.  Það er ekki hægt að útiloka hlaup úr þeim jarðhitakötlum sem óróinn er mögulega tengdur og verður eflaust vel fylgst með því næstu sólarhringana.

Það hefur verið nokkuð um skjálfta undanfarnar vikur í Kötlu, mun meira en venjulega er á þessum árstima.   

 

Nokkuð snarpur skjálfti í Kötlu

Upptök jarðskjálftanna í Kötlu í kvöld. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld varð skjálfti M 4,1 í sunnanverðri Kötluöskjunni.  Nokkrir eftirskjálftar fylgdu, allir mun minni.  Skjálftinn virðist ekki hafa fundist í nágrenninu, amk. hafa engar tilkynningar um það borist.  

Skjálftavirkni er venjulega mest í Mýrdalsjökli síðsumars og á haustin. Reikna má með skjálftahrinum í jöklinum næstu mánuði en það er svosem ekkert sem bendir til stærri atburða þrátt fyrir að goshléið í Kötlu sé orðið það lengsta sem vitað er um á sögulegum tíma, enda ekki gosið svo staðfest sé síðan 1918.

Þessir skjálftar eru á vatnasviði Sólheimajökuls en hlaup úr jöklinum frá því svæði eru vel þekkt þó ekki komi til eldgoss, þar er væntanlega jarðhitavirkni um að kenna.

Skjálftar í Kötlu og Bárðarbungu

Skjálftar í Kötlu síðustu sólarhringa. Myndin ef fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftar mældust í gærkvöldi í Kötluöskjunni, sá stærsti M 3,2 en á þriðja tug smærri skjálfta mældust.  Það er alþekkt að skjálftahrinur verði í Kötlu síðsumars og fram á haust vegna fargbreytinga, þ.e. sumarbráðnunar jökulsins sem hefur í för með sér þrýstingsbreytingar í Kötluöskjunni.  það má alveg reikna með skjálftahrinum vel fram á haustið.  Eldgos í Kötlu er nú heldur aldrei hægt að útiloka enda að verða liðin 103 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé frá landnámi.

Í fyrradag urðu svo tveir nokkuð snarpir skjálftar í Bárðarbungu.  Stærðin var nokkuð á reyki en sá stærri virðist hafa verið um M 4,5 og hinn litlu minni.  Þessir skjálftar stafa af kvikusöfnun í kvikuhólf kerfisins sem þrýstir á botn öskjunnar.  Askjan seig um 60 metra í Holuhraunsgosinu 2014-15 og hefur svo aftur hækkað um 10 metra síðan.  Þessar hreyfingar valda skjálftumsem geta orðið nokkuð öflugir.  Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi í Bárðarbungu.

Sumarskjálftar í Mýrdalsjökli

Skjálfti af stærðinni M 3,4 mældist í Mýrdalsjökli kl 07 41 í morgun. Annar M 2,8 mældist skammri stundu áður. Sá stærri fannst í næsta nágrenni við eldstöðina. Upptök skjálftanna voru í Kötluöskjunni.

Staðsetning skjálftanna í Mýrdalsjökli. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Algengt er að jarðskjálftavirkni aukist í Mýrdalsjökli síðsumars og fram á haust vegna jökulbráðnunar og fargbreytinga. Þetta hefur einnig áhrif á jarðhitasvæði í jöklinum og hefur einmitt mælst há leiðni í Múlakvísl undanfarnar vikur, svo há að fólki er ráðlagt að gæta sín þar sem áin rennur undan jöklinum því gas getur safnast í lægðir.

Allra síðustu árin hefur verið tiltölulega rólegt á Kötlusvæðinu eftir nokkur umbrot í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og einning lét Katla illa árið 2016. Nú eru liðin tæp 102 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé sem vitað er um í fjallinu frá landnámi. Reyndar er talið að smágos hafi orðið nokkrum sinnum á þessu tímabili sem ekki hafi náð uppúr jöklinum.

Scroll to Top