Jarðskjáltar um víða veröld

 • Sat 23:59:02 (UTC) 3.9,Central Hawke's Bay Dist.. - Details
 • Sat 23:13:48 (UTC) 3.3,North Pacific Ocean, 140.. - Details
 • Sat 23:01:29 (UTC) 3.9,North Pacific Ocean, 197.. - Details
 • Sat 22:36:33 (UTC) 4.4,Departamento de Los Ande.. - Details
 • Sat 22:34:18 (UTC) 3.2,Māzandarān, 58 km N of.. - Details
 • Sat 22:16:41 (UTC) 3.3,7.5 Km WNW of Keilir, Ic.. - Details
 • Sat 22:16:20 (UTC) 3.9,Maluku Sea, 118 km SE of.. - Details
 • Sat 22:15:14 (UTC) 3.5,3.0 Km WSW of Keilir, Ic.. - Details
 • Sat 22:13:07 (UTC) 4.3,County, 50 miles ESE of .. - Details
 • Sat 21:58:53 (UTC) 3.0,Tasman Sea, 116 km NNW o.. - Details

Bárðarbunga

Stærsti skjálfti frá goslokum í Bárðarbungu

Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2016/04/bardarbunga8apr2016 NULL.jpg)

Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í nótt varð skjálfti norðan til í Bárðarbunguöskjunni M 4,2 en þetta er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum i Holuhrauni fyrir rúmu ári síðan.  Annar skjálfti M 3,5 mældist skömmu síðar á sömu slóðum.  Upptök skjálftanna eru á 3-4 km dýpi og verða líkast til á hringsprungum í öskjunni vegna þrýstings frá kviku sem leitar upp í kvikuhólfið sem talið er að sé á um 10-15 km dýpi.  Enginn gosórói mældist og því er ekkert sem bendir til þess að gos sé yfirvofandi.

Jarðskjálftarnir eru að verða sífellt öflugri frá goslokum sem bendir til vaxandi kvikuinnstreymis að neðan.  Miðað við lotubundna sögu Bárðarbungu þar sem rek- og gliðnunarhrinur virðast geta staðið yfir í áratugi þá má ætla að hún láti aftur á sér kræla á næstu árum og þangað til má búast við enn aukinni og öflugri skjálftavirkni.

Fréttir fjölmiðla um skjálftann:

Mbl.is – Jarðskjálfti i Bárðarbungu (http://www NULL.mbl NULL.is/frettir/innlent/2016/04/08/jardskjalfti_i_bardarbungu/)

Ruv.is  – Snarpur jarðskjálfti við Bárðarbungu (http://ruv NULL.is/frett/snarpur-jardskjalfti-vid-bardarbungu-0)

Dv.is – Jarðskjálfti að stærð 4,2 í Bárðarbungu: Sá stærsti frá goslokum (http://www NULL.dv NULL.is/frettir/2016/4/8/jardskjalfti-ad-staerd-42-i-bardarbungu-sa-staersti-fra-goslokum/)

Visir.is – Stór skjálfti í Bárðarbungu (http://www NULL.visir NULL.is/stor-skjalfti-i-bardarbungu/article/2016160408841)

 

 

Skjálftar í Bárðarbungu taldir tengjast kvikuinnstreymi

Skjálftar í Bárðarbungu. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2015/12/bardarbunga21des2015 NULL.jpg)

Skjálftar í Bárðarbungu. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Tveir nokkuð snarpir skjálftar urðu í norðausturbarmi Bárðarbunguöskjunnar sunnudaginn 20.desember.  Mældist sá stærri M 3,5 og hinn M 3,1.  Jarðfræðingar telja þessa skjálfta merki um kvikuinnstreymi undir eldstöðina og að gos geti jafnvel orðið innan tveggja ára.

Það er vitað að gos í Bárðarbungueldstöðinni eru sjaldan stök, þar verða gos- og rekhrinur sem geta staðið yfir í áratugi og verður að telja mjög líklegt að slík hrina hafi hafist í ágúst í fyrra þegar gaus í Holuhrauni.  Ómögulegt er að segja til um hvar í sprungukerfi Bárðarbungu næsta gos verður en fjallið sjálft, þ.e. Bárðarbunga er alltaf líklegasti staðurinn og þá yrði gosið væntanlega undir jökli.

Vaxandi óróa og skjálftavirkni fór að gæta í Bárðarbungu í sumar og virðist skjálftavirknin aukast hægt og örugglega.  Þá hafa einnig mælst af og til djúpir (um 20km) lágtíðniskjálftar undir Bárðarbungu en þeir eru klárlega merki um kvikuhreyfingar.

Visir.is: Skjálftar í Bárðarbungu merki um kvikustreymi (http://www NULL.visir NULL.is/skjalftar-i-bardarbungu-merki-um-kvikustreymi/article/2015151229770)

 

Eldgosinu í Holuhrauni lokið – Óvíst hvort umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið

Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2015/02/holuhraun2 NULL.jpg)

Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.

Ekkert kvikuflæði er lengur til yfirborðs í Holuhrauni og eldgosinu því þannig séð lokið.   Gosið hófst 31. ágúst og stóð því í rétt tæpt hálft ár.  Óvanalegt er að stök gos standi svo lengi þó goshrinur eins og t.d. Kröfluelda hafi staðið yfir mikið lengur.

Gosið skilaði um 1.4 rúmkílómetrum af hrauni sem þekur um 85 ferkílómetra.  Er þetta því langstærsta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum á 18. öld og reyndar ekkert eldgos síðan þá skilað eins miklu magni af gosefnum.

Bárðarbunga hefur sigið um amk 61 metra frá því umbrotin hófust.

EN ER UMBROTUNUM LOKIÐ ?  Það er alls óvíst.  Jarðfræðingar hafa bent á að það er gliðnunarhrina í gangi og þær geta staðið yfir í ár eða áratugi með nokkrum eða mörgum eldgosum.  Þannig stóðu Kröflueldar í 9 ár.

Nú verður fróðlegt að vita hvort askja Bárðarbungu taki að rísa á ný og þá hversu hratt.  Ef hún stendur í stað og jarðskjálftavirkni fjarar út þá má ætla að umbrotunum og gliðnunarhrinunni sé þar með lokið en sennilega mun taka nokkrar vikur að skera úr um það.

Það má segja að það sé mikil heppni að þessi umbrot þróuðust eins og þau gerðu, þ.e. fremur rólegt gos á íslausu landi víðsfjarri mannabyggðum.  Skaðinn enginn fyrir utan nokkur óþægindi vegna gasmengunar.   En eins og að ofan segir þá er ekki hægt enn sem komið er að slá því föstu að umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið þó gosinu sé lokið.

Gosið í Holuhrauni tveggja mánaða gamalt

Myndin er fengin af facebook síðu Jarðvísindastofnunar. Ármann Höskuldsson tók myndina. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/10/Holuhraun NULL.jpg)

Myndin er fengin af facebook síðu Jarðvísindastofnunar. Ármann Höskuldsson tók myndina.

Gosið sem hófst að morgni 31. ágúst er nú tveggja mánaða gamalt og ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.   Nýja hraunið er að nálgast 70 ferkílómetra að flatarmáli.  Rúmmál öskjusigsins í Bárðarbungu er orðið um 1 rúmkílómetri og má ætla að rúmmál hraunsins sé nálægt því enda bendir allt til þess að öskjusigið sé bein afleiðing kvikufærslu frá Bárðarbungu að Holuhrauni.

Gosið og umbrotin í Bárðarbungu hafa verið ótrúlega stöðug vikum saman.  Askjan sígur um 30-40 cm á dag, mikil skjálftavirkni fylgir siginu og gosið kraumar áfram.  Mjög hægt hefur dregið úr gosinu.

Í upphafi gossins nefndu vísindamenn þrjá möguleika helst varðandi framhald umbrotanna:

1.  Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.

2.  Stórt öskjusig í Bárðarbungu.  Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex.  Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli.  Einnig er mögulegt að sprungur opnist annarstaðar undir jöklinum.

3. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.  Öskufall gæti orðið nokkuð.

Eins og umbrotin hafa þróast lítur út fyrir að sviðsmynd 2 verði ofan á, þ.e. langvinnt gos í Holuhrauni, þó líklega án frekari gosa annarsstaðar í kerfinu.  Ekki er þó hægt að útiloka möguleikann á gosi í öskjunni.  Við sigið brotnar bergið og sprungur myndast í öskjugólfinu.  Þetta getur auðveldlega orðið nógu mikið jarðrask til þess að kvika fari að leita upp með þessum sprungum og brotum.   Ef það gerist þá má búast við öflugu en líklega stuttu sprengigosi í öskjunni.  Mundi það tappa hratt af kerfinu og líklega verða til þess að gosið í Holuhrauni  fjarar út.

Helsta vandamálið sem þessi umbrot hafa skapað enn sem komið er, er brennisteinsmengun.  Þetta gæti orðið enn meira vandamál í vetur í köldu og stillu veðri.

Gosið í Holuhrauni orðið mesta hraungos á Íslandi síðan Hekla gaus 1947

Útbreiðslukort af nýja hrauninu sem Jarðvísindastofnun Háskólans hefur gert. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/09/yfirlitskort_20140920-1 NULL.jpg)

Útbreiðslukort af nýja hrauninu sem Jarðvísindastofnun Háskólans gerði 20.9 2014

Ekki hefur komið upp meira hraun í einu eldgosi á Íslandi síðan í Heklugosinu 1947 sem taldist reyndar vera blandgos fremur en hraungos.  Nú er talið að um 0,5 rúmkílómetrar séu komnir upp af hrauni í gosinu en Hekluhraunið síðan 1947 er um 0,8 km3.  Ef Holuhraunsgosið nær því magni þá þarf að fara allt aftur til Skaftárelda árið 1783 til að finna gos sem hefur framleitt meira magn af hrauni.

Þá er Holuhraunsgosið orðið framleiðnasta gos á Íslandi í hálfa öld, síðan Surtseyjargosið hófst árið 1963.  Það gos stóð í fjögur ár og er talið hafa framleitt um 1,1 km3 af gosefnum en Holuhraunsgosið hefur staðið í rétt rúmar þrjár vikur og þegar framleitt um það bil helminginn af því sem Surtsey framleiddi á fjórum árum.

Það er því nokkuð sama hvar borið er niður í tölfræðinni, eldgosið sem nú stendur yfir í Holuhrauni er þegar orðið nokkuð stórt eldgos í sögulegu samhengi og ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.  Stöðugt sig mælist í öskjunni, skjálftavirkni er mikil og GPS mælingar sýna enn talsverða gliðnun.

Jafnvel í samanburði við fyrri hraungos í Bárðarbungukerfinu þá er gosið orðið allstórt.  Gamla Holuhraunið sem kom upp í gosi árið 1797 er aðeins um 5 ferkílómetrar að flatarmáli en nýja hraunið er að nálgast 40 ferklílómetra.  Þá er hraunið þegar orðið stærra en Tröllahraun sem kom upp suðvestan við Bárðarbungu í gosi sem stóð þó yfir í 2 ár árin 1862-4.  Hér er slóð á PDF skjal um það gos., (http://www NULL.jokulljournal NULL.is/21-39/1972/J22p12-26Trollagigar NULL.pdf)

Sennilega hefur ekki komið upp meira hraun í Bárðarbungukerfinu síðan í gosinu sem framleiddi hraun sem kallað er Frambruni á Dyngjuhálsi einhverntímann á 13. öld.   Það hefur verið verulega mikið gos því Frambruni (líka kallað Fjallsendahraun) er um 180 ferkílómetrar og 4 rúmkílómetrar að stærð.   Hinsvegar hafa orðið stærri gos í kerfinu t.d. Veiðivatnagosið um 1480 og nokkur gosanna í jöklinum á 18.öld voru allmikil.  Það voru  gjóskugos.

 

Óbreytt ástand við Bárðarbungu – Askjan sígur áfram og gosið kraumar

Ástandið við Bárðarbungu er stöðugt ef svo má segja, askjan er að síga um hálfan til einn meter á sólarhring og er sigið mest þegar stóru skjálftarnir mælast.  Ekki er að sjá að neitt sé að hægja á siginu en heldur hefur þó dregið úr gosinu í Holuhrauni síðustu vikuna.  Þessi fasi umbrotanna gæti varað í einhverjar vikur til viðbótar en á endanum verða breytingar.  Helsta ógnin núna virðist vera mengunin vegna brennisteinstvíildis (SO2) sem hefur víða mælst mikil á austur og norðausturlandi síðustu daga.  Þessi mengun er fyrst og fremst óþægileg en varla hættuleg, til þess þarf hún að aukast mjög mikið.  Fólk sem er viðkvæmt  fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma ætti því að halda sig innandyra þegar mengunin er sem mest.  Hér er hægt að fylgjast með menguninni á vef Umhverfisstofnunar. (http://www NULL.ust NULL.is/einstaklingar/loftgaedi/maelingar)

Hvað þýðir öskjusig og hversu algengt er það ?

Þegar það varð ljóst að askja Bárðarbungu er að síga allverulega þá brá mönnum í brún því öskjusig eru fremur fátíð og gjarnan tengd stórgosum.  Eina öskjusigið sem vitað er með vissu að hafi átt sér stað hér á landi frá því land byggðist er  í Öskju í Dyngjufjöllum í kjölfar stórgossins árið 1875.   Jafnvel í stærstu gosum Íslandssögunnar, Skaftáreldum og Eldgjárgosinu hefur hingað til ekki verið talið að öskjusig hafi átt sér stað.  Sama er að segja um eldgos tengd Bárðarbungu á sögulegum tíma t.d. Vatnaöldu – og Veiðivatnagosin sem þó voru mjög stór.  Það er því margt í þessum umbrotum sem er óvenjulegt og erfitt að skýra með góðu móti.  Þar sem Bárðarbunga er algjörlega hulin ís þá er erfiðara að rannsaka söguna, vel má vera að öskjusig hafi orðið í þessum umbrotum án þess að þess hafi orðið vart enda vita menn af núverandi öskjusigi einungis vegna nútímatækni.  Sigið er enn sem komið er vart sjáanlegt nema á mælitækjum.  Til þess að öskjusig verði þarf mikið magn kviku að fara á hreyfingu.  Þannig er staðan nú, mikið magn streymir enn eftir kvikuganginum til gosstöðvanna í Holuhrauni en hinsvegar má telja víst að aðeins lítill hluti kvikunnar komi upp í gosinu.  Haraldur Sigurðsson eldjallafræðingur telur að aðeins 5-10% kvikunnar (http://vulkan NULL.blog NULL.is/blog/vulkan/entry/1443346/)komi upp í gosinu og færir fyrir því sterk rök.

Allar öskjur hafa  á einhverjum tímapunkti orðið til.  Askjan í Bárðarbungu er mjög stór og hefur væntanlega myndast í feiknaöflugu gosi eða gosum einhverntímann í fyrndinni.  Þá er algengt að megineldstöðvar geymi tvær eða jafnvel fleiri öskjur, þannig eru amk. þrjár öskjur í Dyngjufjöllum, hver ofan í annarri.

Hve lengi standa rek- og gliðnunarhrinur ?

Oft árum saman.  Tvær slíkar hrinur eru þekktar úr Kröflukerfinu á sögulegum tíma , önnur stóð yfir í 5 ár frá 1724-9 með allmörgum gosum.  Flest  smá en hraun rann þó til byggða við Mývatn.  Kröflueldar síðari stóðu yfir í 9 ár frá 1975-84 með allmörgum minniháttar gosum.  Gosið nú í Holuhrauni er nú líklega  þegar  orðið meira en öll þau gos til samans í rúmmáli hrauns talið og þessi umbrot öll eru af miklu stærra kaliberi, miklu meira magn kviku á hreyfingu.  Þessi umbrotahrina gæti því staðið í nokkur ár með gosum víðsvegar í sprungukerfi Bárðarbungu, allt frá smágosum upp í hugsanlega eitt eða fleiri meiriháttar eldgos.  Fyrri gliðnunarhrinur í Bárðarbungu eru lítt þekktar nema stærstu gosin í þeim.  Því er ekki vitað hve lengi þær stóðu yfir.

Sviðsmynd eitt. Gosið í Holuhrauni fjarar smámsaman út og öskjusigið stöðvast. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/09/skyr_grunn NULL.gif)

Sviðsmynd 1. Gosið í Holuhrauni fjarar smámsaman út og öskjusigið stöðvast.

Aftur að mögulegum sviðsmyndum

Allnokkuð hefur verið fjallað um þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar.  Nú eru aðallega þrjár slíkar í umræðunni.  Skýringarmyndir hafa verið uppfærðar.  Nú er helst talið að kvikuþró undir Bárðarbungu sé á nokkru dýpi, hve miklu er ekki vitað.  Ekki er vitað hvort grunnstætt kvikuhólf sé þar fyrir ofan, etv. er líklegra að stóra kvikuþróin sjálf sé lagskipt.  Miðað við dýpt skjálfta í kvikuganginum þá er gangurinn á um 10-15km. dýpi en efsti hluti kvikuþrónnar gæti verið töluvert nær yfirborði.  Þar sem mjög fáir skjálftar mælast í miðju öskjunnar þá bendir það til þess að ofan við kvikuþróna sé seigt efni og styður þannig lagskiptinguna.  Út frá því er gengið í þessum skýringarmyndum.  Smellið á myndirnar til að stækka þær.

1.  Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.   Þetta er enn til í stöðunni en kannski ekki líklegt.  Þegar öskjusig er á annaðborð hafið þá er líklegra að það haldi áfram þar til umtalsvert magn kviku hefur með einhverju móti komist undan eldstöðinni.  Besta sviðsmyndin er að umbrotin fjari út, gosið kraumi í einhverjar vikur og því ljúki hægt og rólega.

.

2.  Stórt öskjusig í Bárðarbungu.  Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex.  Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli.  Einnig er mögulegt að sprungur opnist annarstaðar undir jöklinum. 

Sviðsmynd 2. Gos innan og utan jökuls. Stór gos möguleg. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/09/skyr_gosutanjokulsstort NULL.gif)

Sviðsmynd 2. Gos innan og utan jökuls. Stór gos möguleg.

Þessi sviðsmynd er kannski hvað líklegust miðað við stöðuna eins og hún er.  Við höfum þrennt sem bendir til þessarar atburðarrásar, 1. Öskjusig, 2. Gliðnunarhrinu og 3. Mikil kvika er á hreyfingu.  Nú þegar hafa orðið nokkur smágos í jöklinum sem ekki náðu að bræða sig í gegn  um ísinn og tvö smágos til viðbótar við Holuhraunið fyrir utan gosið sem nú er í gangi.  Þetta er atburðarrás sem gæti náð yfir nokkurra ára tímabil með nokkrum gosum.  Þau gætu orðið á svipuðum slóðum og nú gýs, ennfremur í Dyngjujökli og alls ekki má útiloka að kvikugangur opnist til suðvesturs og inn á Veiðivatnareinina eins og gerðist árin 870 og 1480.  Við slíkar aðstæður er hætt við að það mundi opnast mjög löng gossprunga, jafnvel yfir 30 kílómetrar til suðvesturs.  Þetta er eins og við höfum áður sagt hættulegasta svæðið hvað varðar gos í Bárðarbungu.  Jafnvel stórt gos í öskjunni sjálfri er skárra.

.

3. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.  Öskufall gæti orðið nokkuð.

Jarðvísindamönnum hefur orðið tíðrætt um mögulegt gos í öskjunni undanfarið.  Hinsvegar eru alls ekki mörg staðfest dæmi um gos í öskju Bárðarbungu og óvíst að þar hafi gosið mjög lengi.   Það er reyndar einnig óvíst hvenæar síðast varð öskjusig í Bárðarbungu, það gætu verið þúsundir ára síðan.  þetta er  kannski ekki líklegasta sviðsmyndin en verði gos á annað borð í öskjunni þá er líklegra en ekki að það verði stórt því þá hefur kvikan fundið tiltölulega beina leið upp á yfirborðið úr kvikuþrónni.  það verður þó tæplega langvarandi, gos undir jökli eru það yfirleitt ekki.  Mikil hætta er á jökulhlaupi, jafnvel hamfaraflóði og má sjá ummerki slíkra flóða t.d. í Jökulsárgljúfrum og Ásbyrgi.

Sviðsmynd 3. Gos í öskju Bárðarbungu. (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/09/skyr_gosioskjunni NULL.gif)

Sviðsmynd 3. Gos í öskju Bárðarbungu.

Mjög stórt gos í öskjunni er möguleiki og mundi eins og áður hefur verið bent á svipa til stóru gosanna í Öræfajökli og Kötlu.  “Kosturinn” við slíkt gos í Bárðarbungu er sá að eldfjallið er fjarri byggð og flóðið yrði alllengi á leið í átt að láglendi.  Það gæfist því góður tími til að koma fólki af hættusvæðum en vissulega verða einhver mannvirki í hættu á láglendi ef til meiriháttar jökulhlaups kæmi.

Staðan sem nú er uppi á óróasvæðinu, nokkuð stöðugt sig í öskjunni upp á hálfan til einn meter á sólarhring, jarðskjálfta um M5 af stærð nokkuð reglulega 1x á sólarhring og stöðuga en ekki  mjög mikla gosvirkni í Holuhrauni, gæti þessvegna varað í einhverjar vikur í viðbót.  Meiriháttar breytingar mundu væntanlega gera einhver boð á undan sér.

 

Færslusafn eftir mánuðum