Bárðarbunga

Öskjusigið í Bárðarbungu rannsakað

Í Holuhraunsgosinu, aðdraganda þess og í kjölfarið gafst vísindamönnum sjaldgæft tækifæri til að rannsaka öskjusig meðan á því stóð.  Askjan í Bárðarbungu seig um allt að 65 metra á þeim 6 mánuðum sem gosið stóð yfir.  Öskjusig fylgir gjarnan stórgosum og í flestum íslenskum eldstöðvum eru öskjur.  Þó eru dæmi um eldfjöll sem hafa ekki enn myndað öskjur eins og t.d. Hekla, en hún mun eflaust gera það í fjarlægri framtíð.

BardarbungaStærstu eldgos Íslandssögunnar eiga það sameiginlegt að verða tugi kílómetra frá megineldstöðvum.  Þannig var um Lakagígagosið 1783, Eldgjárgosið um árið 934,  Vatnaöldugosið 870 og Veiðivatnagosið um árið 1480.  Tvö þau síðastnefndu tilheyra eldstöðvakerfi Bárðarbungu en í þau skipti hljóp kvikan til suðvesturs og komu upp sem mikil sprungugos á Veiðivatnasvæðinu.  Það verður að segjast eins og er að mikil mildi var að kvikan hljóp til norðurs í Holuhraunsgosinu en ekki til suðvesturs inná Veiðivatnasvæði þar sem margar stórar vatnsaflsvirkjanir eru staðsettar.

Í öllum þessum gosum er nær öruggt að öskjusig hefur orðið.  Eldgjárgosið átti uppruna sinn í Kötlu og askjan í Kötlu hefur eflaust sigið um tugi metra.  Eldgjárgosið er það það mesta síðan land byggðist, amk. 10 sinnum meiri kvika kom upp í því heldur en í Holuhraunsgosinu.  Lakagígagosið varð í kjölfar kvikuhlaups úr Grímsvötnum í Vatnajökli.  Þar er stór askja sem eflaust hefur sigið mikið í þeim hamförum.

Það virðist hafa verið regla að stórgos verður í eldstöðvakerfi Bárðarbungu á um 5-700 ára fresti.  Um 600 ár líða frá Vatnaöldugosinu um 870 að Veiðivatnagosinu 1480 og svo 535 ár að Holuhraunsgosinu.  Þrátt fyrir að þau umbrot séu etv. ekki að fullu yfirstaðin þá verður að telja afar ólíklegt að annað gos af þessari stærðargráðu verði í þessari hrinu en minniháttar gos gætu vel orðið á næstu árum og þá líklegast undir jökli.

Hér má sjá grein um rannsóknina á öskjusiginu inná vef Veðurstofunnar.

 

Skjálfti upp á 4,4 í Bárðarbungu

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.

Skjálftavirkni heldur áfram að aukast í Bárðarbungu og skjálftarnir verða öflugri með hverjum mánuðinum.  Í morgun varð skjálfti upp á M 4,4 sem er stærsti skjálftinn frá goslokum.  Um 20 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, þar af tveir yfir M 3.  Stóri skjálftinn var á um 6 km dýpi

Ekki verður annað séð en að þessi þróun haldi áfram þar til það dregur til frekari tíðinda.

Stærsti skjálfti frá goslokum í Bárðarbungu

Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í nótt varð skjálfti norðan til í Bárðarbunguöskjunni M 4,2 en þetta er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum i Holuhrauni fyrir rúmu ári síðan.  Annar skjálfti M 3,5 mældist skömmu síðar á sömu slóðum.  Upptök skjálftanna eru á 3-4 km dýpi og verða líkast til á hringsprungum í öskjunni vegna þrýstings frá kviku sem leitar upp í kvikuhólfið sem talið er að sé á um 10-15 km dýpi.  Enginn gosórói mældist og því er ekkert sem bendir til þess að gos sé yfirvofandi.

Jarðskjálftarnir eru að verða sífellt öflugri frá goslokum sem bendir til vaxandi kvikuinnstreymis að neðan.  Miðað við lotubundna sögu Bárðarbungu þar sem rek- og gliðnunarhrinur virðast geta staðið yfir í áratugi þá má ætla að hún láti aftur á sér kræla á næstu árum og þangað til má búast við enn aukinni og öflugri skjálftavirkni.

Fréttir fjölmiðla um skjálftann:

Mbl.is – Jarðskjálfti i Bárðarbungu

Ruv.is  – Snarpur jarðskjálfti við Bárðarbungu

Dv.is – Jarðskjálfti að stærð 4,2 í Bárðarbungu: Sá stærsti frá goslokum

Visir.is – Stór skjálfti í Bárðarbungu

 

 

Skjálftar í Bárðarbungu taldir tengjast kvikuinnstreymi

Skjálftar í Bárðarbungu.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Bárðarbungu. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Tveir nokkuð snarpir skjálftar urðu í norðausturbarmi Bárðarbunguöskjunnar sunnudaginn 20.desember.  Mældist sá stærri M 3,5 og hinn M 3,1.  Jarðfræðingar telja þessa skjálfta merki um kvikuinnstreymi undir eldstöðina og að gos geti jafnvel orðið innan tveggja ára.

Það er vitað að gos í Bárðarbungueldstöðinni eru sjaldan stök, þar verða gos- og rekhrinur sem geta staðið yfir í áratugi og verður að telja mjög líklegt að slík hrina hafi hafist í ágúst í fyrra þegar gaus í Holuhrauni.  Ómögulegt er að segja til um hvar í sprungukerfi Bárðarbungu næsta gos verður en fjallið sjálft, þ.e. Bárðarbunga er alltaf líklegasti staðurinn og þá yrði gosið væntanlega undir jökli.

Vaxandi óróa og skjálftavirkni fór að gæta í Bárðarbungu í sumar og virðist skjálftavirknin aukast hægt og örugglega.  Þá hafa einnig mælst af og til djúpir (um 20km) lágtíðniskjálftar undir Bárðarbungu en þeir eru klárlega merki um kvikuhreyfingar.

Visir.is: Skjálftar í Bárðarbungu merki um kvikustreymi

 

Eldgosinu í Holuhrauni lokið – Óvíst hvort umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið

Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.
Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.

Ekkert kvikuflæði er lengur til yfirborðs í Holuhrauni og eldgosinu því þannig séð lokið.   Gosið hófst 31. ágúst og stóð því í rétt tæpt hálft ár.  Óvanalegt er að stök gos standi svo lengi þó goshrinur eins og t.d. Kröfluelda hafi staðið yfir mikið lengur.

Gosið skilaði um 1.4 rúmkílómetrum af hrauni sem þekur um 85 ferkílómetra.  Er þetta því langstærsta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum á 18. öld og reyndar ekkert eldgos síðan þá skilað eins miklu magni af gosefnum.

Bárðarbunga hefur sigið um amk 61 metra frá því umbrotin hófust.

EN ER UMBROTUNUM LOKIÐ ?  Það er alls óvíst.  Jarðfræðingar hafa bent á að það er gliðnunarhrina í gangi og þær geta staðið yfir í ár eða áratugi með nokkrum eða mörgum eldgosum.  Þannig stóðu Kröflueldar í 9 ár.

Nú verður fróðlegt að vita hvort askja Bárðarbungu taki að rísa á ný og þá hversu hratt.  Ef hún stendur í stað og jarðskjálftavirkni fjarar út þá má ætla að umbrotunum og gliðnunarhrinunni sé þar með lokið en sennilega mun taka nokkrar vikur að skera úr um það.

Það má segja að það sé mikil heppni að þessi umbrot þróuðust eins og þau gerðu, þ.e. fremur rólegt gos á íslausu landi víðsfjarri mannabyggðum.  Skaðinn enginn fyrir utan nokkur óþægindi vegna gasmengunar.   En eins og að ofan segir þá er ekki hægt enn sem komið er að slá því föstu að umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið þó gosinu sé lokið.

Scroll to Top