Skjálftar mældust í gærkvöldi í Kötluöskjunni, sá stærsti M 3,2 en á þriðja tug smærri skjálfta mældust. Það er alþekkt að skjálftahrinur verði í Kötlu síðsumars og fram á haust vegna fargbreytinga, þ.e. sumarbráðnunar jökulsins sem hefur í för með sér þrýstingsbreytingar í Kötluöskjunni. það má alveg reikna með skjálftahrinum vel fram á haustið. Eldgos í Kötlu er nú heldur aldrei hægt að útiloka enda að verða liðin 103 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé frá landnámi.
Í fyrradag urðu svo tveir nokkuð snarpir skjálftar í Bárðarbungu. Stærðin var nokkuð á reyki en sá stærri virðist hafa verið um M 4,5 og hinn litlu minni. Þessir skjálftar stafa af kvikusöfnun í kvikuhólf kerfisins sem þrýstir á botn öskjunnar. Askjan seig um 60 metra í Holuhraunsgosinu 2014-15 og hefur svo aftur hækkað um 10 metra síðan. Þessar hreyfingar valda skjálftumsem geta orðið nokkuð öflugir. Það er ekkert sem bendir til þess að gos sé í aðsigi í Bárðarbungu.