Laust eftir hádegið hófst jarðskjálftahrina í Bárðarbungu sem stendur enn þegar þetta er skrifað. Stærsti sjálftinn mældist M4,3 en annar M4,1 varð skömmu síðar. Um kl 15 20 mældist svo skjálfti upp á M3,4.
Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum og aðrir stórir skjálftar sem mælsta hafa í Bárðarbungu síðasta árið, nema hvað að þeir eru töluvert dýpri sem hlýtur að vekja athygli. Þeir eru á um 9-12 km dýpi en þar má ætla að kvikuhólf eldstöðvarinnar sé. Flestir skjálftar síðasta árið hafa mælst á 3-6 km dýpir sem bendir til þess að átök i hringsprungum ofan við kvikuhólfið hafi valdið þeim. Það á tæplega við um þessa skjálfta núna. Dýpi þeirra gæti bent til þess að uppstreymi kviku í kvikuhólfið sé að þrýsta á berglögin í kring.
Vitað er að eldstöðin er að þenjast út einmitt vegna uppstreymis kviku en eldgos í bráð er þó frekar ólíklegt , enda langt í það að kvikuinnstreymið nái að fylla kvikuhólfið að sama marki og það hefur væntanlega verið í þegar umbrotin hófust 2014.