admin

Nokkuð snarpur skjálfti í Kötlu

Upptök jarðskjálftanna í Kötlu í kvöld. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld varð skjálfti M 4,1 í sunnanverðri Kötluöskjunni.  Nokkrir eftirskjálftar fylgdu, allir mun minni.  Skjálftinn virðist ekki hafa fundist í nágrenninu, amk. hafa engar tilkynningar um það borist.  

Skjálftavirkni er venjulega mest í Mýrdalsjökli síðsumars og á haustin. Reikna má með skjálftahrinum í jöklinum næstu mánuði en það er svosem ekkert sem bendir til stærri atburða þrátt fyrir að goshléið í Kötlu sé orðið það lengsta sem vitað er um á sögulegum tíma, enda ekki gosið svo staðfest sé síðan 1918.

Þessir skjálftar eru á vatnasviði Sólheimajökuls en hlaup úr jöklinum frá því svæði eru vel þekkt þó ekki komi til eldgoss, þar er væntanlega jarðhitavirkni um að kenna.

Óvenju snarpur skjálfti í Langjökli

Upptök skjálftanna í Langjökli. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Kl. 22 12 í kvöld varð jarðskjálfti í Langjökli sem mældist M 4,6.  Skjálftinn fannst mjög víða, um allt vesturland, norður í Húnavatnssýslu, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.  Miðað við þetta kæmi varla á óvart að hann hafi verið mun stærri en þessar fyrstu niðurstöður benda til.  Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst, þeir stærstu um M 3.

Skjálftinn varð í syðri hluta jökulsins, af því er virðist í jaðri öskjunnar sem þarna er undir jöklinum á tæplega 4 km dýpi.  Skjálftavirkni á þessu svæði hefur verið allnokkur í gegnum tíðina en þó sjaldgæft að þetta stórir skjálftar ríði yfir.  Langjökull tilheyrir vestara gosbeltinu eins og Reykjanesskaginn sem nú er að vakna upp af tæplega 800 ára blundi.  Hvort Langjökulskerfið vakni líka skal ósagt látið en síðasta gos í kerfinu varð um árið 900 þegar Hallmundarhraun rann um 50km leið frá jökulsporðinum niður í Hvítársíðu í verulega stóru gosi.

 

Snarpir skjálftar í Eldvörpum – Óvissustigi lýst yfir vegna skjálftanna á Reykjanesskaga

Upptök yfirfarinna skjálfta á Reykjanesskaga síðustu 7 daga. Þarna má sjá nokkrar skjálftaþyrpingar þar sem öflugar hrinur hafa orðið síðastliðna viku. Myndin er fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.

Enn ein öflug jarðskjálftahrinan gekk yfir á Reykjanesskaganum í dag, í þetta skiptið eru upptökin í eldvörpum sem eru 10 km löng gígaröð sem varð til í goshrinu á 13.öld.  Stærsti skjálftinn mældist M 4,6 og allnokkrir á bilinu M 3 – 4,2.  Aðeins virtist draga úr hrinunni seint í kvöld.  Þensla og landris vegna kvikusöfnunar á Svartsengissvæðinu veldur þessum skjálftum en svipaður atburður átti sér stað á þessum slóðum árið 2020.  

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna skjálftanna á Reykjanesskaga.

Eldvörp tilheyra Svartsengiskerfinu og eru í vesturhluta þess.  Gos á þessum stað væri mun skárri kostur en austar í kerfinu þar sem færri mannvirki væru í hættu.  

Jarðskjálftinn sem varð í Þrengslunum í gær virðist hafa verið brotaskálfti á flekaskilum og sú virkni hefur fjarað  út í dag.  Óvíst er að sá skjálfti tengist hrinunni vestar á skaganum.

Nú líða fáir dagar orðið á milli öflugra jarðskjálftahrina á Reykjanesskaganum og virknin flakkar á milli kerfa.  Miðlæg kvikusöfnun virðist vera á miklu dýpi undir Fagradalsfjalli.  Kvika er á hreyfingu grynnra í öllum hinum kerfunum á mið- og vestanverðum skaganum sem veldur þessum skjálftahrinum þ.e. í Reykjaneskerfinu vestast, þá í grenndi við Svartsengi og fjallið Þorbjörn og einnig hefur verið órói á Krísuvíkursvæðinu.  Reikna verður með áframhaldandi virkni á næstunni, mögulega grunnstæðari kvikuinnskotum og eldgos er alls ekki hægt að útiloka.

 

Órói á Reykjanesskaga færist í aukana: SNARPUR JARÐSKJÁLFTI Í ÞRENGSLUNUM

Upptök jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðustu sólarhringa. Stóri skjálftinn í dag er stjarnan hægra megin á myndinni, í Þrengslunum.  Einnig má sjá mikið af skjálftum norðan Grindavíkur og úti fyrir Reykjanestá.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Rétt fyrir kl 17 í dag reið yfir jarðskjálfti að stærð M 4,8 sem átti upptök sín í Þrengslunum.  Skjálftinn fannst víða á Suður- og Suðvesturlandi og virkaði snarpari á höfuðborgarsvæðinu en margir þeir skjálftar sem riðu yfir fyrir gosið í fyrra og voru þó ívið sterkari.  Er það vegna nálægðar við borgina en innan við 20 km eru frá upptökum að borgarmörkunum.

Þrátt fyrir að upptökin séu á svipuðum slóðum og niðurdælingarskjálftarnir svokölluðu hafa orðið þá má heita útilokað að svo snarpur skjálfti verði að þeim völdum auk þess sem skjálftinn er á tæplega 8 km dýpi.  Upptökin eru á mörkum áhrifasvæða Hengilskerfisins og Brennisteinsfjalla.  Fremur ólíklegt er þó að þessi skjálfti tengist umbrotum í Henglinum enda ekkert annað sem bendir til óróa í því kerfi.

Það hefur ítrekað verið bent á að það hafi vantað skjálfta austan Kleifarvatns síðan umbrotin á Reykjanesskaganum hófust fyrir um þrem árum.  Nú virðist það vera að breytast og hin mikla virkni sem verið hefur vestars á skaganum er að teygja sig austar.  Á svæðinu frá Kleifarvatni að Þrengslunum hafa orðið mjög snarpir skjálftar, síðast árið 1986 en þá varð skjálfti upp á M 6,0 á þeim slóðum.  Telja verður frekar líklegt að slíkur skjálfti ríði yfir innan fárra ára.  Áhrifasvæði umbrotanna á Reykjanesskaganum hefur því stækkað.

En það reið ekki bara þessi skjálfti yfir í dag.  Mikil virkni hefur verið á Svartsengissvæðinu og staðfest er að landris er að eiga sér stað í grennd við fjallið Þorbjörn rétt norðan Grindavíkur. Það er því mikið að gerast á Reykjanesskaganum og jarðfræðingar eru á tánum.

Á undangengnum eldgosaskeiðum á Reykjanesskaganum hafa gosin hafist í Brennisteins-Bláfjalla eldstöðvakerfinu.  Það ferli hefur þegar verið brotið upp með gosinu í Geldingadölum en hvað goshlé varðar á Reykjanesskaganum þá er Brennisteinsfjallakerfið það kerfi þar sem goshlé hefur staðið hvað lengst.  Þar hefur hinsvegar ekkert verið að gerast í þessum umbrotum fyrr en nú.

Allmörg gos urðu í þessu kerfi á árunum í kringum landnám og fram yfir árið 1000 en þá rann Kristnitökuhraunið sem líklega var síðasta gosið í þeirri hrinu.  Síðar teygði þessi virkni sig vestur eftir Reykjanesskaganum og lauk með gosum vestast á Skaganum um árið 1240.

Ef til jarðelda kæmi í Brennisteinsfjallakerfinu þá geta eldgos þar gert okkur verulega skráveifu.  Þarna liggja að sjálfsögðu um mikilvægar vegasamgöngur, Hellisheiði og Þrengslin en það yrðu nú varla meira en tímabundin óþægindi.  Hraun frá gosum á þessu svæði geta leitað bæði til norðurs og suðurs eftir upptökum.  Fyrir rúmum 5000 árum rann hraun frá Leitinni sem er dyngja í kerfinu alla leið niður Elliðaárdalinn til sjávar í Elliðaárvogi í Reykjavík.  Það er nú reyndar afskaplega ólíkleg sviðsmynd og þyrfti til verulega langt og  mikið gos.  Þá eru hraun í Heiðmörk ættuð úr kerfinu að hluta til en einnig reyndar úr Krísuvíkurkerfinu.  

Ástæða til að hafa áhyggjur af Reykjanesskaganum

Upptök skjálfta á Reykjanesskaganum síðustu 7 daga. Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.

Stöðug skjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaganum og eru að mælast um 1400-1800 skjálftar á viku sem er mjög mikið.  Virknin hleypur á milli kerfa.  Í síðustu viku urðu nokkrir snarpir kippir í hrinu undir Kleifarvatni og eftir það herti á hrinum við Reykjanestá og nú síðast á Svartsengis- og Sundhnúkagígasvæðinu, rétt norðan Grindavíkur.  Skjálftarnir hafa almennt ekki verið stórir, fáir yfir M 3 en fjöldi smáskjálfta er meira áhyggjuefni.

Jarðfræðingar telja að kvika sé að safnast fyrir á um 16km dýpi nálægt gosstöðvunum austan Fagradalsfjalls en engu að síður hefur þessi kvikusöfnun áhrif á spennusvið á stórum hluta Reykjanesskagans.  Þá er enn og aftur athyglisvert hversu lítil virkni er austar á skaganum, þ.e. fyrir austan Kleifarvatn, það mælist mjög lítið af skjálftum á Brennisteins- og Bláfjallasvæðinu.

Talið er að nú hafi álíka mikil kvika safnast saman og var fyrir síðasta gos.  Miðað við þá stöðu má vænta tíðinda frekar fyrr en síðar.

Þó kvika sé að mestu að safnast fyrir austan Fagradalsfjalls þá verður að telja mjög líklegt að kvika sé einnig á hreyfingu í Reykjaneskerfinu, Svartsengiskerfinu og jafnvel við Krísuvík miðað við þá skjálftavirkni sem þar hefur átt sér stað og færist að því er virðist smámsaman í aukana í öllum þessum kerfum.  Vert er að benda á að í öllum þessum kerfum hafa átt sér stað kvikuinnskot á undanförnum árum.  Nýlegar kenningar eru um að gasútlosun frá kviku hafi valdið landrisi á þessum svæðum, það má vera.

Að framansögðu er ljóst að það getur dregið til tíðinda á Reykjanesskaganum hvenær sem er og það sem kanski verra er, nánast hvar sem er.  Öll eldstöðvakerfin á  mið- og vesturhluta skagans sýna talsverða virkni og eiginlega ómögulegt að segja til um hvar líklegast er að gjósi næst.  Það má þó telja nokkuð víst að eldgos verði á Reykjanesskaganum innan fárra ára nema svo ólíklega vilji til að virknin koðni niður.  Það er hinsvegar ekkert sem bendir til þess.

Scroll to Top