Langjökull

Óvenju snarpur skjálfti í Langjökli

Upptök skjálftanna í Langjökli. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Kl. 22 12 í kvöld varð jarðskjálfti í Langjökli sem mældist M 4,6.  Skjálftinn fannst mjög víða, um allt vesturland, norður í Húnavatnssýslu, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.  Miðað við þetta kæmi varla á óvart að hann hafi verið mun stærri en þessar fyrstu niðurstöður benda til.  Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst, þeir stærstu um M 3.

Skjálftinn varð í syðri hluta jökulsins, af því er virðist í jaðri öskjunnar sem þarna er undir jöklinum á tæplega 4 km dýpi.  Skjálftavirkni á þessu svæði hefur verið allnokkur í gegnum tíðina en þó sjaldgæft að þetta stórir skjálftar ríði yfir.  Langjökull tilheyrir vestara gosbeltinu eins og Reykjanesskaginn sem nú er að vakna upp af tæplega 800 ára blundi.  Hvort Langjökulskerfið vakni líka skal ósagt látið en síðasta gos í kerfinu varð um árið 900 þegar Hallmundarhraun rann um 50km leið frá jökulsporðinum niður í Hvítársíðu í verulega stóru gosi.

 

Skjálftahrina í Skjaldbreið

Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum Mynd  Óskar Haraldsson
Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum
Mynd Óskar Haraldsson

Allmargir jarðskjálftar mældust í Skjaldbreið í gærkvöldi og í nótt.  Sá stærsti M 3,7 og tveir aðrir yfir M 3.   Heldur dró úr virkninni með morgninum en hún gæti vel tekið sig upp aftur.  Skjaldbreið er innan sprungusveims Langjökulskerfisins og það er algengt að í því kerfi verði hrinur, jafnvel nokkuð öflugar.  Þær hrinur eru þó oftast vestan til í kerfinu, i grennd við Eiríksjökul eða Þórisjökul.

Skjaldbreiður er um 9000 ára gömul hraundyngja og mjög líklega mynduð i einu löngu gosi sem jafnvel hefur mallað í áratug.  Skjaldbreiður er því ekki sjálfstætt eldfjall eða eldstöðvakerfi.  Dyngjugosin voru um margt sérstök, þau virtust geta komið upp hvar sem er innan eldstöðvakerfanna og kvikan kom mjög djúpt að, úr möttlinum.  Slík eldgos eru afar sjaldgæf í dag og hafa í raun ekki orðið á Íslandi í nokkur þúsund ár.  Ástæða dyngjugosanna var bráðnun ísaldarjökulsins, landið lyftist tiltölulega hratt, miklar þrýstingsbreytingar fylgdu því og eldgosavirkni var allt að þrítugföld miðað við það sem nú er.

Það verður því að telja afar ólíklegt að Skjaldbreiður sé að fara að gjósa , líklega eru þetta dæmigerðir brotaskjálftar í grennd við flekaskil.  Langjökulskerfið sem heild er þó síður en svo dautt úr öllum æðum, það er mikil jarðskjálftavirkni í því en gosvirkni hinsvegar mjög lítili.  Aðeins eitt gos frá landnámi , er Hallmundarhraun rann um árið 900.  Það var reyndar mikið gos og hraunið rann um 50 km leið til byggða við Hvítársíðu.  Þetta hraun myndar t.d. landslagið í Kringum Hraunfossa nærri Húsafelli.

Skjálftar við Langjökul

Jarðskjálftahrina hófst við suðvesturenda Langjökuls í morgun.  Um 20 skjálftar höfðu mælst um hádegið, sá stærsti M 3,1 og fannst

Upptök skjálftanna við Langjökul. Myndin er fengin af vef veðurstofu Íslands.
Upptök skjálftanna við Langjökul. Myndin er fengin af vef veðurstofu Íslands.

vel.  Ferðaþjónustufyrirtæki eru með starfsemi á þessum slóðum og fann fólk á þeirra vegum fyrir stærstu skjálftunum.  Líklegt er að þeir hafi einnig fundist í Húsafelli sem er ekki langt frá, eða um 12-13 km.

Skjálftarnir eru flestir fremur grunnir á 2-5 km dýpi.  Algengt er að skjálftahrinur verði við Langjökul, einkum við vesturbrún hans.  Tvö eldstöðvakerfi eru talin vera í jöklinum, annað norðantil í honum og hitt sunnantil.  Þessir skjálftar eru í útjaðri þess kerfis.  Hrina varð á svipuðum slóðum í júní 2011 en þó heldur sunnar.

Ekki hefur gosið í eldstöðvakerfum Langjökuls síðan árið 900 þegar Hallmundarhraun rann alla leið til byggða í Hvítársíðu um 50 km leið frá norðvesturbrún Langjökuls.  Öfugt við litla gosvirkni er jarðskjálftavirknin allmikil við jökulinn.

Skjálftar við rætur Langjökuls

Um hádegið í dag hófst jarðskjálftahrina á litlu svæði um 5km. undan suðausturhorni Langjökuls.  Hafa á annan tug skjálfta mælst, sá stærsti um 3,5 og hefur heldur gefið í hrinuna undir kvöld.  Þetta eru að öllum líkindum hefðbundnir brotaskjálftar sem tengjast brotabeltinu á milli Langjökuls og Þingvalla.   Jarðskjálftar eru mjög algengir við Langjökul án þess að þeir boði nokkuð meira en þeir eru þó meira við vesturhluta jökulsins heldur en á þessu svæði sem er þó einnig vel virkt.

Myndin sýnir upptök skjálftanna og er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Sjá umfjöllun á eldgos.is um Langjökul hér

Umfjallanir fréttamiðla um skjálftana við Langjökul:

Ruv.is:  Jarðskjálftar tengjast gamla brotabeltinu

Visir.is: Ekki talið að skjálftarnir séu undanfari eldgoss

Mbl.is:  Jörð skalf við Jarlhettur

Skjálftahrina á ný í Langjökli

Skjálftahrina hófst í Langjökli laust eftir miðnætti s.l. nótt og stendur enn.  Stærsti skjálftinn mældist 3,2 á Richter samkvæmt sjálfvirkum mælingum veðurstofunnar.  Flestir skálftarnir eru á 6-13 km. dýpi.  Þessi hrina er nánast á sama stað og hrinan sem varð þann 7. júní.  Jarðskjálftar eru algengir í suðvestur- horni Langjökuls og geta orið nokkuð öflugir.  Ekkert bendir til þess að skjálftarnir séu undanfari eldgoss.

Scroll to Top