Ástæða til að hafa áhyggjur af Reykjanesskaganum

Birta á :
Upptök skjálfta á Reykjanesskaganum síðustu 7 daga. Mynd fengin af skjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.

Stöðug skjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaganum og eru að mælast um 1400-1800 skjálftar á viku sem er mjög mikið.  Virknin hleypur á milli kerfa.  Í síðustu viku urðu nokkrir snarpir kippir í hrinu undir Kleifarvatni og eftir það herti á hrinum við Reykjanestá og nú síðast á Svartsengis- og Sundhnúkagígasvæðinu, rétt norðan Grindavíkur.  Skjálftarnir hafa almennt ekki verið stórir, fáir yfir M 3 en fjöldi smáskjálfta er meira áhyggjuefni.

Jarðfræðingar telja að kvika sé að safnast fyrir á um 16km dýpi nálægt gosstöðvunum austan Fagradalsfjalls en engu að síður hefur þessi kvikusöfnun áhrif á spennusvið á stórum hluta Reykjanesskagans.  Þá er enn og aftur athyglisvert hversu lítil virkni er austar á skaganum, þ.e. fyrir austan Kleifarvatn, það mælist mjög lítið af skjálftum á Brennisteins- og Bláfjallasvæðinu.

Talið er að nú hafi álíka mikil kvika safnast saman og var fyrir síðasta gos.  Miðað við þá stöðu má vænta tíðinda frekar fyrr en síðar.

Þó kvika sé að mestu að safnast fyrir austan Fagradalsfjalls þá verður að telja mjög líklegt að kvika sé einnig á hreyfingu í Reykjaneskerfinu, Svartsengiskerfinu og jafnvel við Krísuvík miðað við þá skjálftavirkni sem þar hefur átt sér stað og færist að því er virðist smámsaman í aukana í öllum þessum kerfum.  Vert er að benda á að í öllum þessum kerfum hafa átt sér stað kvikuinnskot á undanförnum árum.  Nýlegar kenningar eru um að gasútlosun frá kviku hafi valdið landrisi á þessum svæðum, það má vera.

Að framansögðu er ljóst að það getur dregið til tíðinda á Reykjanesskaganum hvenær sem er og það sem kanski verra er, nánast hvar sem er.  Öll eldstöðvakerfin á  mið- og vesturhluta skagans sýna talsverða virkni og eiginlega ómögulegt að segja til um hvar líklegast er að gjósi næst.  Það má þó telja nokkuð víst að eldgos verði á Reykjanesskaganum innan fárra ára nema svo ólíklega vilji til að virknin koðni niður.  Það er hinsvegar ekkert sem bendir til þess.

Scroll to Top