Enn ein öflug jarðskjálftahrinan gekk yfir á Reykjanesskaganum í dag, í þetta skiptið eru upptökin í eldvörpum sem eru 10 km löng gígaröð sem varð til í goshrinu á 13.öld. Stærsti skjálftinn mældist M 4,6 og allnokkrir á bilinu M 3 – 4,2. Aðeins virtist draga úr hrinunni seint í kvöld. Þensla og landris vegna kvikusöfnunar á Svartsengissvæðinu veldur þessum skjálftum en svipaður atburður átti sér stað á þessum slóðum árið 2020.
Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna skjálftanna á Reykjanesskaga.
Eldvörp tilheyra Svartsengiskerfinu og eru í vesturhluta þess. Gos á þessum stað væri mun skárri kostur en austar í kerfinu þar sem færri mannvirki væru í hættu.
Jarðskjálftinn sem varð í Þrengslunum í gær virðist hafa verið brotaskálfti á flekaskilum og sú virkni hefur fjarað út í dag. Óvíst er að sá skjálfti tengist hrinunni vestar á skaganum.
Nú líða fáir dagar orðið á milli öflugra jarðskjálftahrina á Reykjanesskaganum og virknin flakkar á milli kerfa. Miðlæg kvikusöfnun virðist vera á miklu dýpi undir Fagradalsfjalli. Kvika er á hreyfingu grynnra í öllum hinum kerfunum á mið- og vestanverðum skaganum sem veldur þessum skjálftahrinum þ.e. í Reykjaneskerfinu vestast, þá í grenndi við Svartsengi og fjallið Þorbjörn og einnig hefur verið órói á Krísuvíkursvæðinu. Reikna verður með áframhaldandi virkni á næstunni, mögulega grunnstæðari kvikuinnskotum og eldgos er alls ekki hægt að útiloka.