Reykjanesskagi

Smáskjálftahrina í gangi við Vífilsfell

vifilfell18nov2013

.

Á laugardag hófst jarðskjálftahrina við Vifilsfell við enda Bláfjallaranans.  Í dag herti mikið á hrinunni og mældust yfir 100 skjálftar, þar af tveir um M 2,9 af stærð en langflestir eru þeirþó um 0,5-1,5 af stærð.  Miðað við staðsetninguna mátti fyrst ætla að þessir skjálftar tengdust niðurælingu affallvatns hjá Orkuveitunni en þetta er reyndar nokkrum kílómetrum suðvestur af því svæði og er því ekki skýringin.

Hinsvegar eru smáskjálftahrinur mjög algengar á Reykjanesskaganum og Hengilssvæðinu án nokkurra eftirmála svo þessi hrina kemur lítið á óvart og má búast við að eitthvað skjálfi þarna áfram.

Myndin sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir upptök, fjölda og stærð skjálftanna undanfarna sólarhringa.

Snarpur skjálfti og mikill fjöldi eftirskjálfta við Reykjanestá

Upptök jarðskjálfta við Reykjanestá.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta við Reykjanestá. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Uppúr miðnætti hófst jarðskjálftahrina við Reykjanestá.  Mikill fjöldi skjálfta hefur mælst.  Til að byrja með voru þeir flestir smáir, um 1-2 af stærð en kl. 7.32 í morgun varð skjálfti af stærðinni 4,8 sem fannst víða um Suðvestanvert landið.  Er þetta með stærri skjálftum sem mælst hafa á Reykjanesskaga undanfarin ár.  Fjölmargir eftirskjálftar hafa mælst og hrinan enn í fullum gangi þó eitthvað hafi dregið úr henni.

Þrátt fyrir að þetta sé mjög eldbrunnið svæði þá er ekkert sem bendir til annars en að þetta séu hefðbundnir brotaskjálftar á flekaskilum.  Skjálftahrinur á Reykjanesskaganum geta verið þrálátar og má þvi ætla að þarna skjálfi eitthvað áfram og ekki hægt að útiloka fleiri skjálfta á bilinu 4-5 af stærð.  Flestir skjálftarnir eru á um 4-6 km. dýpi.

 

Fréttir af skjálftunum:

Mbl.is:  Jörð skelfur við Reykjanestá

Ruv.is:  Skjálfti af stærð 4,8 fannst víða

.

.

.

.

.

 

Við Reykjanestá
Við Reykjanestá. Þarna gaus síðast á 13. öld, líklegast árið 1226.

 

Viðvarandi spenna á Krýsuvíkursvæðinu – Gæti endað með gosi

Á mbl.is í dag er að finna fróðlegt viðtal við Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing.  Þar kemur fram að spenna hefur byggst upp undanfarin ár við suðurenda Kleifarvatns og á Sveifluhálsi og er ástandið viðvarandi.  Landris hefur mælst á þessum slóðum og þó þess sé ekki getið í viðtalinu þá má leiða líkum að því að það stafi af kvikusöfnun neðanjarðar.  Á síðasta ári urðu auk skjálfta á Krísuvíkursvæðinu, skjálftar við Grindavík og öflug hrina á Bláfjallasvæðinu.  Nú í janúar varð svo allsnarpur skjálfti við Keili.

Eins og fram kemur í viðtalinu við Ara Trausta þá verða goshrinur á Reykjanesskaganum á ca 500-1000 ára fresti.  Síðustu staðfestu gos á svæðinu urðu um árið 1240 og því eru rúm 770 ár liðin frá því Reykjanesskaginn lét síðast að sér kveða.  Þrátt fyrir þennan óróa á skaganum undanfarin ár þá gætu enn liðið margir áratugir, jafnvel aldir áður en goshrina hefst því eldstöðvar geta verið mjög lengi að undirbúa gos.  Órói hófst í Eyjafjallajökli um 15 árum fyrir gosið, Bárðarbunga hefur verið óróleg í 40 ár og Katla er með reglulega tilburði án þess að til goss komi svo dæmi séu tekin.  En vegna nálægðar eldstöðva á Reykjanesskaga við þéttbýlasta svæði landsins er nauðsynlegt að rannsaka eldstöðvarnar mjög vel og hafa fullunna viðbragðsáætlun til staðar svo eldgos komi fólki ekki í opna skjöldu þegar og ef til þess kemur.

Meðfylgjandi mynd er tekin við hverasvæðið í Krýsuvík sem er mjög virkt.

 

Jarðskjálfti við Keili

Jarðskjálfti varð laust fyrir kl. 1 í nótt skammt norðaustur af Keili á Reykjanesskaga.  Mældist hann um 3,1 af stærð og á rúmlega 6 km dýpi.  Tveir minni eftirskjálftar hafa mælst.  Skjálftinn fannst sumstaðar á Höfuðborgarsvæðinu, best þó í Hafnarfirði enda næst upptökunum.

Skjálftar eru mjög algengir á Reykjanesskaga en þó ekki nákvæmlega þarna.  Þessi skjálfti er nokkuð austar en meginsprungusveimur Krísuvíkursvæðisins við Sveifluháls.  Ekki er þó hægt að draga neinar sérstakar ályktanir af því enda geta jarðskjálftar orðið svo til allsstaðar á skaganum.

Fréttir af skjálftanum í fjölmiðlum:

Visir.is  – Jarðskjálfti við Keili

Mbl.is – Jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu

Ruv.is – All snarpur skjálfti á Reykjanesskaga

Jarðskjálftahrina við Bláfjöll á ný

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

 

.

Í kvöld hófst aftur skjálftavirkni við Bláfjöll.  Stærsti skjálftinn hingað til mældist 3,5 samkvæmt óyfirförnum mælingum Veðurstofunnar.  Upptökin eru nokkrum kílómetrum sunnar en skjálftarnir sem urðu á svæðinu um mánaðarmótin ágúst-september.  Stærsti skjálftinn í kvöld fannst víða á höfuðborgarsvæðinu.  Fastlega má reikna með framhaldi á þessari virkni næstu klukkustundir og jafnvel sólarhringa miðað við aðrar hrinur á þessum slóðum.

Fréttir um skjálftann í kvöld:

Ruv.is  Jarðskjálfti up á 3,5 í Bláfjöllum

Visir.is  Jarðskjálfti í Bláfjöllum

Mbl.is  Jarðskjálftar við Bláfjöll

Scroll to Top