Snörp jarðskjálftahrina við Svartsengi

Birta á :
Upptök skjálftanna í nótt og í morgun. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Uppúr miðnætti hófst snörp skjálftahrina í grennd við Svartsengi.  Miðja hrinunnar virðist vera ca 0,5-1 km sunnan við Bláa Lónið, um 4-5 km norðan Grindavíkur.  Stærsti skjálftinn hingað til mældist M 4,5 og fannst vel á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.  Veðurstofan telur að um gikkskjálfta sé að ræða sem þýðir að þarna er ekki kvika að troða sér upp heldur verða þeir vegna aflögunar sem stafar af kvikusöfnun undir Fagradalsfjalli.

Það virðist jafnframt vera sem meiri kraftur hafi færst í landrisið undanfarnar vikur þ.e. meiri kvika flæðir inn undir Fagradalsfjall.  Það má því reikna með að stutt sé orðið í myndun kvikugangs eins og fyrir síðustu gos á svæðinu.  Langlíklegast er að slíkur gangur myndist í grennd við Fagradalsfjall á stöðum nærri upptökum fyrri eldgosa á svæðinu undanfarin ár.  Skjálftarnir geta hinsvegar orðið víða um Reykjanesskagann vegna aflögunar eins og nú er að gerast.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna skjálftanna og fólk beðið að huga að lausamunum og forðast staði þar sem grjóthruns má vænta.  Heldur virtist draga úr hrinunni eftir hádegi en það getur vel verið tímabundið.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top