Landris og óvissa á Reykjanesskaga

Birta á :
Grunnkortið er frá Veðurstofu Íslands og sýnir Gps stöðvar á Reykjanesskaga. Ég hef sett rauða hringi á þær stöðvar sem greina má landris og stóri hringurinn sýnir nokkurnveginn áhrifasvæðið.   Slóð á mælistöðvar: GNSS time-series (vedur.is)

Svo virðist sem landris sé þegar hafið á Reykjanesskaga í kjölfar gossins sem lauk fyrir rúmum mánuði.  Bendir það til nokkuð ákveðinnar kvikusöfnunar því risið er mun hraðar og á sér stað fyrr en eftir síðustu gos á skaganum.   Þá hafa rannsóknir á kvikunni í síðustu gosum leitt í ljós að hún er líkari kviku ættuð úr möttulstróknum undir austur gosbeltinu en áður hefur fundist í hraunlögum á Reykjanesskaga.

Veðurstofan vaktar Reykjanesskagann mjög vel með Gps stöðvum þar sem allar færslur á landi eru mældar með mikilli nákvæmni.  Þessar mælingar sýna að þensla virðist hafa hafist um miðbik skagans um það leiti sem síðasta gosi lauk , þ.e. snemma í ágúst.  Land  hefur risið um ca 1,5 cm við Festarfjall á rúmum mánuði en er einnig greinilegt á fleiri stöðvum, svosem við Krísuvík, við Voga og jafnvel við Helgafell sunnan Hafnarfjarðar.  Þó má ætla að upptakastaðurinn sé nokkurnveginn undir Fagradalsfjalli þó breytingar mælist víða um miðbik Reykjanesskagans.   Það bendi því flest til þess að innstreymi kviku úr möttli sé að aukast.  Nokkur smáskjálftavirkni hefur verið undanfarnar vikur.  Mest hefur hún verið í grennd við Keili, einnig við Krísuvík/Kleifarvatn og í grennd við Fagradalsfjall.  Hún tengist vafalítið kvikusöfnun og landrisi.

Efnisinnihald kvikunnar sem hefur komið upp í síðustu gosum vekur upp margar spurningar.  Eins og áður segir er kvikan lík kviku sem gjarnan kemur upp í austur gosbeltinu þ.e. í stórum eldstöðvum eins og Kötlu, Torfajökli, Bárðarbungu og Öskju.  Ef að möttulstrókurinn undir landinu er farinn að teygja sig undir Reykjanesskagann þá er mögulegt að eldvirkni þar aukist umtalsvert, gosin verði bæði tíðari og stærri.  Þetta gerist þó líklega á hundruðum ára frekar en alveg í náinni framtíð.

Að framansögðu má ljóst vera að reikna verður með frekari tíðindum á Reykjanesskaga fljótlega, jafnvel á þessu ári.  Kvikan hefur fundið sér leið upp á sprungurein við og norðan við Fagradalsfjall og líklegast er að á þessu svæði verði næstu gos.  Hversu mörg  þau verða og hversu lengi þessir goshrina stendur er erfitt að svara en svona eldgosahrinur sem gjarnan eru kallaðir “eldar”  t.d. Kröflueldar standa gjarnan í ca 10-30 ár með nokkuð reglulegum gosum.  Ef miðað er við síðustu goshrinu á Reykjanesskaganum ca frá árinu 800-1240 þá gengu nokkrir svona “eldar” yfir og nokkuð löng goshlé á milli.  það sem flækir hinsvegar málið núna er að Fagradalsfjallskerfið hefur ekki gosið í 6000 ár fyrr en nú og menn vita ekki hvernig það hagar sér.  Einnig veldur aðkoma möttulstróksins fyrrnefnda óvissu.

Scroll to Top