Hratt landris við Svartsengi

Birta á :
Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir landrisið við Svartsengi síðasta sólarhringinn. Gervitunglagögn fengin í samstarfi við ICEYE

Síðasta sólarhringinn hefur land risið um 3 cm á svæði við Svartsengi og virðist rismiðjan vera rétt vestan við Bláa Lónið.  Landrisið er talið stafa af kvikusöfnun á verulegu dýpi en þó óvíst nákvæmlega hve miklu.  Kvika er ekki talin vera hættulega nálægt yfirborði en það gæti breyst hratt.  Þetta er mjög ört landris og til samanburðar hefur land risið um “aðeins” 4 cm við Fagradalsfjall frá goslokum í ágúst og taldist það þó vera nokkuð hratt landris.  Beðið er eftir nýjum myndum frá SENTINEL, gervitungli Evrópsku geimferðastofnunarinnar sem væntanlegar eru á morgun.  Þá ætti staðan að skýrast betur.

Undanfarna sólarhringa hefur öflug jarðskjálftahrina riðið yfir í og við Svartsengi.  Skjálftarnir hafa verið taldir vera svokallaðir gikkskjálftar af völdum landriss við Fagradalsfjall sem er enn í gangi.  Það eru því tvær rismiðjur í gangi á Reykjanesskaganum og staðan afar flókin og getur breyst með skömmum fyrirvara.

Mögulega voru skjálftarnir í Svartsengi aldrei gikkskjálftar, heldur var kvika að þrýsta á bergið neðan frá þó landris hafi ekki mælst fyrr en ég gær.  Það skiptir kanski ekki öllu máli en jarðfræðingar eru að reyna að átta sig betur á stöðunni, enda óvenjulegt að hafa landris og aflögun í gangi í tveimur eldstöðvakerfum hlið við hlið eins og þarna er að gerast.

Það er ljóst að eldgos í eða við Svartsengi gæti haft margvíslegar og mjög alvarlegar afleiðingar.  Þarna er vitaskuld Bláa lónið, tvö hótel og orkuver.  Að auki gæti Grindavík verið í hættu ef staðsetning gossprungu er nógu óheppileg.  

Þetta er fimmta kvikuinnskotið við Svartsengi síðan 2020 og hingað til hafa þau ekki endað með eldgosi.  Landrisið nú er hinsvegar miklu hraðara og því líklega öflugra innskot en áður og eðlilegt að menn séu á tánum.  Síðla kvölds 28.oct dró verulega úr jarðskjálftavirkninni sem gæti þýtt að innskotið hafi hægt á sér eða stöðvast en þetta skýrist betur á næstu sólarhringum.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top