Skjálftar í Kistufelli

Birta á :

Jarðskjálfti, 3,4 að stærð varð í Kistufelli skammt n.a. af Bárðarbungu í Vatnajökli í nótt.  Skjálftar urðu bæði fyrir og eftir stærsta skjálftann en þeir voru allir undir 2 að stærð.  Skjálftar á þessum slóðum eru mjög algengir í seinni tíð og tengjast einhvernskonar hreyfingum í Bárðarbungukerfinu.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Við áramót: Tíðindalitlu ári að ljúka

Birta á :

Nú þegar árið 2012  er að baki er ekki úr vegi að fara lauslega yfir helstu atburði nýliðins árs hvað jarðrask varðar.  Ekkert eldgos varð á árinu og í heild var það fremur tíðindalítið á jarðfræðisviðinu.  Stærsti atburðurinn var tvímælalaust jarðskjálftahrinan í Eyjafjarðarál á haustmánuðum sem var kröftug og langvarandi en olli ekki teljanlegu tjóni.  Um tíma var óttast að hrinan kæmi af stað stórum skjálftum á Tjörnesbrotabeltinu en svo varð ekki.

Snarpir skjálftar í Bláfjöllum í lok ágúst ollu áhyggjum á höfuðborgarsvæðinu enda urðu þeir á svæði þar sem oft hefur gosið.  Hrinan hélst með hléum fram í október og er enn ein umbrotahrinan á Reykjanesskaganum sem segir okkur að þar gæti verið stutt í stóratburði.  Fyrr á árinu urðu nokkuð snarpir skjálftar við Krísuvík og í nágrenni Hafnarfjarðar.

Af öðrum eldstöðvum sem minntu á sig með skjálftum var að sjálfsögðu Katla með hefðbundna haustskjálfta en þó var eldstöðin rólegri en hún  hefur verið undanfarin ár.  Lengi hefur verið spáð og búist við gosi í Kötlu en hún ætlar enn að láta bíða eftir sér.

Af og til urðu skjálftar í og við Bárðarbungu eins og undanfarin ár án þess að það drægi til frekari tíðinda.

Hvað gerist árið 2013 ?

Það veit auðvitað enginn en að mati okkar eru þrjár eldstöðvar eða svæði hvað líklegust.  Það eru sem fyrr Katla enda hvíldin orðin óvenjulöng í eldstöðinni auk þess sem virkni undanfarinna ára bendir til þess að óðum styttist í gos.  Hekla er einnig líkleg hvenær sem er.  Þriðja svæðið er svo Reykjanesskaginn og þá helst í grennd við Krísuvík.  Síendurteknar jarðskjálftahrinur og landris á svæðinu bendir til þess að þar er kvika að safnast fyrir sem fyrr eða síðar finnur sér leið upp á yfirborðið.

Eldgos.is óskar lesendum gleðilegs árs.

Lítið hlaup úr Grímsvötnum

Birta á :

.

Allt bendir til þess að lítið hlaup sé hafið úr Grímsvötnum í Vatnajökli. Mun það væntanlega koma fram í ánni Gígju síðar í dag.  Eftir Grímsvatnagosið og stórhlaupið 1996 breyttust aðstæður í Grímsvötnum þannig að hlaupin eru minni og meinlausari en áður.  Eldgosið í fyrra hafði ekki teljandi áhrif enda fylgdi því ekki hlaup.

Frétt Ruv um hlaupið: Lítið hlaup hafið í Grímsvötnum

Ekkert lát á skjálftavirkni fyrir norðan – Óvissustigi lýst yfir

Birta á :

Í gær var lýst yfir óvissustigi vegna skjálftanna fyrir norðan.  Var það gert eftir að virknin færðist í austurátt að svæðinu norðan við Gjögur.  Það sem helst er óttast er að hrinan komi af stað stórum skjálfta á Flateyjar-Húsavíkur misgenginu en þar geta skjálftar farið yfir 7M af stærð.

Nú er ljóst að skjálftarnir eru siggengisskjálftar i sigdalnum í Eyjafjarðarál og skjálftar þar verða varla stærri en orðið er.  Hinsvegar eru skjálftar á Flateyjar-Húsavíkurmisgenginu annars eðlis, þ.e. misgengisskjálftar.

mbl.is  – næg spenna fyrir 6,8 stiga skjálfta.

Skjálftar í Kverkfjöllum

Birta á :

.

Nokkuð hefur verið um jarðskjálfta í Kverkfjöllum við norðurbrún Vatnajökuls undanfarna sólarhringa og hafa stærstu skjálftarnir verið um og yfir 3 stig.  Kverkfjallasvæðið er virk og umfangsmikil megineldstöð.  Af og til koma fram skjálftahrinur á mælum með upptök í Kverkfjöllum og því er þetta ekkert óvenjulegt.  Á svæðinu er mikið um misgengi og einnig mikill jarðhiti.  Skjálftarnir geta vel tengst hreyfingum í kvikuhólfi Kverkfjalla eða kvikuinnskoti en ekkert sérstakt bendir þó til eldsumbrota á svæðinu á næstunni.  Oft hefur gosið í Kverkfjöllum, líklega síðast árið 1929.  Gos í Kverkfjöllum hafa í gegnum tíðina valdið miklum hlaupum í Jökulsá á Fjöllum.  Þá er talið að forsöguleg stórgos í Kverkfjöllum hafi valdið jökulhlaupum sem  hafi grafið Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Frétt um skjálftana á mbl.is –  Jarðskjálftahrina í Vatnajökli

Scroll to Top