Jarðskjálfti við Keili

Birta á :

Jarðskjálfti varð laust fyrir kl. 1 í nótt skammt norðaustur af Keili á Reykjanesskaga.  Mældist hann um 3,1 af stærð og á rúmlega 6 km dýpi.  Tveir minni eftirskjálftar hafa mælst.  Skjálftinn fannst sumstaðar á Höfuðborgarsvæðinu, best þó í Hafnarfirði enda næst upptökunum.

Skjálftar eru mjög algengir á Reykjanesskaga en þó ekki nákvæmlega þarna.  Þessi skjálfti er nokkuð austar en meginsprungusveimur Krísuvíkursvæðisins við Sveifluháls.  Ekki er þó hægt að draga neinar sérstakar ályktanir af því enda geta jarðskjálftar orðið svo til allsstaðar á skaganum.

Fréttir af skjálftanum í fjölmiðlum:

Visir.is  – Jarðskjálfti við Keili

Mbl.is – Jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu

Ruv.is – All snarpur skjálfti á Reykjanesskaga

Skjálftar í Kistufelli

Birta á :

Jarðskjálfti, 3,4 að stærð varð í Kistufelli skammt n.a. af Bárðarbungu í Vatnajökli í nótt.  Skjálftar urðu bæði fyrir og eftir stærsta skjálftann en þeir voru allir undir 2 að stærð.  Skjálftar á þessum slóðum eru mjög algengir í seinni tíð og tengjast einhvernskonar hreyfingum í Bárðarbungukerfinu.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Við áramót: Tíðindalitlu ári að ljúka

Birta á :

Nú þegar árið 2012  er að baki er ekki úr vegi að fara lauslega yfir helstu atburði nýliðins árs hvað jarðrask varðar.  Ekkert eldgos varð á árinu og í heild var það fremur tíðindalítið á jarðfræðisviðinu.  Stærsti atburðurinn var tvímælalaust jarðskjálftahrinan í Eyjafjarðarál á haustmánuðum sem var kröftug og langvarandi en olli ekki teljanlegu tjóni.  Um tíma var óttast að hrinan kæmi af stað stórum skjálftum á Tjörnesbrotabeltinu en svo varð ekki.

Snarpir skjálftar í Bláfjöllum í lok ágúst ollu áhyggjum á höfuðborgarsvæðinu enda urðu þeir á svæði þar sem oft hefur gosið.  Hrinan hélst með hléum fram í október og er enn ein umbrotahrinan á Reykjanesskaganum sem segir okkur að þar gæti verið stutt í stóratburði.  Fyrr á árinu urðu nokkuð snarpir skjálftar við Krísuvík og í nágrenni Hafnarfjarðar.

Af öðrum eldstöðvum sem minntu á sig með skjálftum var að sjálfsögðu Katla með hefðbundna haustskjálfta en þó var eldstöðin rólegri en hún  hefur verið undanfarin ár.  Lengi hefur verið spáð og búist við gosi í Kötlu en hún ætlar enn að láta bíða eftir sér.

Af og til urðu skjálftar í og við Bárðarbungu eins og undanfarin ár án þess að það drægi til frekari tíðinda.

Hvað gerist árið 2013 ?

Það veit auðvitað enginn en að mati okkar eru þrjár eldstöðvar eða svæði hvað líklegust.  Það eru sem fyrr Katla enda hvíldin orðin óvenjulöng í eldstöðinni auk þess sem virkni undanfarinna ára bendir til þess að óðum styttist í gos.  Hekla er einnig líkleg hvenær sem er.  Þriðja svæðið er svo Reykjanesskaginn og þá helst í grennd við Krísuvík.  Síendurteknar jarðskjálftahrinur og landris á svæðinu bendir til þess að þar er kvika að safnast fyrir sem fyrr eða síðar finnur sér leið upp á yfirborðið.

Eldgos.is óskar lesendum gleðilegs árs.

Lítið hlaup úr Grímsvötnum

Birta á :

.

Allt bendir til þess að lítið hlaup sé hafið úr Grímsvötnum í Vatnajökli. Mun það væntanlega koma fram í ánni Gígju síðar í dag.  Eftir Grímsvatnagosið og stórhlaupið 1996 breyttust aðstæður í Grímsvötnum þannig að hlaupin eru minni og meinlausari en áður.  Eldgosið í fyrra hafði ekki teljandi áhrif enda fylgdi því ekki hlaup.

Frétt Ruv um hlaupið: Lítið hlaup hafið í Grímsvötnum

Ekkert lát á skjálftavirkni fyrir norðan – Óvissustigi lýst yfir

Birta á :

Í gær var lýst yfir óvissustigi vegna skjálftanna fyrir norðan.  Var það gert eftir að virknin færðist í austurátt að svæðinu norðan við Gjögur.  Það sem helst er óttast er að hrinan komi af stað stórum skjálfta á Flateyjar-Húsavíkur misgenginu en þar geta skjálftar farið yfir 7M af stærð.

Nú er ljóst að skjálftarnir eru siggengisskjálftar i sigdalnum í Eyjafjarðarál og skjálftar þar verða varla stærri en orðið er.  Hinsvegar eru skjálftar á Flateyjar-Húsavíkurmisgenginu annars eðlis, þ.e. misgengisskjálftar.

mbl.is  – næg spenna fyrir 6,8 stiga skjálfta.

Scroll to Top