Tjörnesbrotabeltið

Snörp jarðskjálftahrina austur af Grímsey

Upptök skjálfta við Grímsey síðasta sólarhring. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftahrina hófst um 10 km austur af Grímsey síðastliðna nótt með skjálfta upp á M 4,9 sem var mjög snarpur í Grímsey.  Síðan hefur skolfið stöðugt og fjölmargir skjálftar yfir M 3.  Hrinur sem þessar á Tjörnesbrotabeltinu eru algengar og verða svo að segja á hverju ári einhversstaðar á beltinu.  Reikna má með að hrinan haldi áfram einhverja sólarhringa í viðbót. 

Eldgos eru ekki óþekkt úti fyrir norðurlandi.  Síðast er vitað um gos við Mánáreyjar á 19.öld, nánar tiltekið árið 1867.  Kolbeinsey hefur einnig risið úr sæ í neðansjávargosi ekki fyrir svo löngu.  Grímsey sjálf er öllu eldri.  Ekkert bendir þó til þess að gos sé í aðsigi.

Flekaskilin liggja um þessar slóðir og eru nokkuð flókin því sniðreksbelti liggur í austur og skiptist í einar þrjár megingreinar.  Grímseyjarbeltið svokallað sem þarna liggur er virkast af af þessum greinum á sniðreksbeltinu hvað jarðskjálfta varðar en eldgos sjaldgæf.

Mjög stórir skjálftar geta orðið á Tjörnesbrotabeltinu, allt að M 7.

 

 

 

Tjörnesbrotabeltið: Snarpir skjálftar á Skjálfanda – færast nær Húsavík

Skjálfti upp á M 4,6 varð í dag um 7 km SA af Flatey á Skjálfanda. Annar skjálfti upp á M 4.0 varð skömmu síðar. Þetta er framhald hrinu sem hefur verið i gangi vestar á þessu sama misgengi, Húsavíkur-Flateyjar misgenginu svokallaða.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna. Þeir stærstu og nýjustu eru vestarlega á Skjálfandaflóa.

Það sem er að gerast nú er að skjálftarnir eru að færa sig austur eftir misgenginu í átt að Húsavík. Það eru ekkert sérlega góð tíðindi því þetta misgengi liggur alveg að Húsavík og skjálftar geta orðið mjög stórir á þessu misgengi. Talið er að skjálfti sem varð á þessum slóðum árið 1755 hafi verið um M 7,0 af stærð. Síðast urðu mjög harðir skjálftar árið 1872, þá urðu amk. tveir skjálftar um og yfir M 6 af stærð. það er því nokkuð ljóst að spenna til að framkalla stóran skjálfta er til staðar á misgenginu.

Það er erfitt að segja til um framhaldið en íbúar á Húsavík og nágrenni ættu að vera viðbúnir skjálftum á næstu dögum og vikum , hvort heldur þeir verða svipaðir af stærð og þessir í dag eða stærri.

Þessi mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir misgengin á Tjörnesbrotabeltinu og upptök jarðskjálfta á þeim. Skjálftahrinan nú er á vestara og syðra beltinu sem liggur frá Eyjafjarðarál og inn á Skjálfandaflóa að Húsavík.

Snarpir jarðskjálftar úti fyrir Eyjafirði – Sá stærsti M 5,6 – Óvissustigi lýst yfir

Skjálftarnir úti fyrir Eyjafirði.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftarnir úti fyrir Eyjafirði. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Snörp jarðskjálftahrina hófst um 20 km. norðaustur af Siglufirði uppúr hádegi í gær föstudaginn 19. júní.  Mikið bætti svo í hrinuna í dag og mældist stærsti sjálftinn M 5,3 og fannst hann víða á Norðurlandi, frá Blönduósi til Húsavíkur.  Snarpastur var hann í grennd við Siglufjörð og Ólafsfjörð.  Ekki er vitað um tiltakanlegt tjón.  Skjálftar af þessari stærð geta auðveldlega valdið hruni úr fjöllum  og það er kanski helsta hættan á þessu svæði.

UPPFÆRT:  KL. 19:26 VARÐ SKJÁLFTI SEM ER TALINN VERA M 5,6 AF STÆRÐ.

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi, ekki síst vegna hættu á stærri skjálftum en á þessu svæði er mikið af misgengjum og óvíst hvaða áhrif skjálftarnir geta haft á þau.  Mjög stórir skjálftar eru þekktir úr sögunni á þessu svæði, jafnvel yfir M 7 en slíkur skjálti er um 20 sinnum öflugri en sá sem varð í dag.

Skjálftarnir eru á Tjörnesbrotabeltinu sem er er tvískipt auk minna hliðarbeltis.  Nyrðra beltið er venjulega mun virkara en það liggur frá Grímseyjarsundi inn yfir Axarfjörð. Það er þó syðri hlutinn sem er að hristast núna.  Lítil sem engin eldgosahætta er talin vera á þessu svæði þó dæmi séu um gos úti fyrir Norðurlandi, þau eru þó fá á sögulegum tíma.

Reikna má með að áfram skjálfi á svæðinu enda eiga skjálftahrinur á Tjörnesbrotabeltinu það til að vera nokkuð þrálátar og geta varað með einhverjum hléum vikum saman.  Það er væntanlega ein ástæða þess að lýsti hefur verið yfir óvissustigi.

Þessi hrina líkist mjög hrinu sem varð á sömu slóðum í september og október 2012 en þá varð einmitt skjálfti upp á M 5,6.  Lesa má um þá skjálfta hér  og  hér

UPPÆRT 24. JÚN KL 01:20

ELDGOS.IS LÁ NIÐRI UM HELGINA VEGNA TÆKNIÖRÐUGLEIKA EN Á MEÐAN VARÐ STÆRSTI SKJÁLFTINN HINGAÐ TIL Í ÞESSARI  HRINU, M 5,8.  HRINAN HEFUR HALDIÐ ÁFRAM UNDANFARNA DAGA OG ENN ER HÆTTA Á STÆRRI SKJÁLFTUM.

Öflug og þrálát jarðskjálftahrina við Kópasker

Upptök skjálfta nærri Kópaskeri síðustu sólarhringa
Upptök skjálfta nærri Kópaskeri síðustu sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrina sem hefur verið í gangi síðustu sólarhringa skammt Suðvestur af Kópaskeri hefur færst í aukana síðasta sólarhringinn.  Hátt í 1000 skjálftar hafa mælst í hrinunni og þeir stærstu um og yfir M 4.  Skjálftarnir finnast vel á Kópaskeri og í nágrenni.  Skjálftasvæðið tilheyrir Tjörnesbrotabeltinu þar sem skjálftar eru algengir og í sjálfu sér ekkert óvanalegt við hrinuna.  Hinsvegar þarf að hafa í huga að á þessu svæði geta orðið mjög stórir skjálftar samanber Kópaskersskjálftann árið 1976 sem mældist rúmlega M 6.  Sá skjálfti tengdist gos- og rekhrinu á Kröflusvæðinu en nú er ekkert slíkt í gangi en samt aldrei hægt að útiloka stóran skjálfta.

Hrinan sem nú er í gangi hefur verið öflug og síður en svo að draga úr henni þegar þetta er skrifað.

Snarpir skjálftar við Grímsey

Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinan sem hófst í lok janúar NA af Grímsey hefur færst mikið í aukana síðastliðinn sólarhring.  Skjálftarnir eru margir og þéttir.  Stærsti skjálftinn mældis M 4,1.  Jarðfræðingar útiloka ekki frekari tíðindi en þá er verið að tala um stóran jarðskjálfta frekar en eldgos sem eru fátíð á þessum slóðum.

Tjörnesbrotabeltið er hinsvegar fært um að framkalla jarðskjálfta allt að stærð M 7 og er orðið all langt síðan slíkur skjálfti hefur orðið.  Það sem einkennir oft hrinur á þessum slóðum er að þær geta verið nokkuð langvarandi og færast gjarnan í aukana eftir því sem líður á þær. Það er einmitt tilfellið með hrinuna núna.

Þetta svæði er sniðreksbelti sem tilheyrir Tjörnesbeltinu.  Þá er einnig vitað um jarðhitavirkni á þessu svæði þannig að talsverð umbrot eru viðvarandi á þessum slóðum.

UPPFÆRT 19.FEBRÚAR

Mikill kraftur hljóp í jarðskjálftahrinuna snemma að morgni 19.febrúar.  Hafa vel á annað þúsund skjálfta mælst síðustu sólarhringa og stærsti skjálftinn mældinst M 5,2.  Er þetta orðin öflugasta jarðskjálftahrina á Grímseyjarsvæðinu í 30 ár.

Mælingar benda ekki til kvikuhreyfinga. Þessir skjálftar tengjast flekahreyfingum.

Scroll to Top