Jarðskjáltar um víða veröld

  • No Earthquakes

Aðrar færslur

Heimsókn í steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði

(http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2018/06/20170803_115324_HDR NULL.jpg)Eldgos.is heimsótti á dögunum steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði.  Það er staðsett í húsnæði N1 bensínstöðvarinnar þegar komið er inn í bæinn.   Hér er um að ræða eitt stærsta steinasafn í einkaeigu á Íslandi og má finna þar langflestar steindir sem finnast á landinu auk fróðlegra jarðfræðilegra útskýringa.  Mælum við eindregið með heimsókn í Ljósbrá fyrir áhugafólk um jarðfræði og ekki skemmir fyrir að aðgangur er ókeypis.

Íslensk náttúra er ríkari af merkilegum steindum en marga grunar þrátt fyrir ungan aldur landsins í jarðfræðilegum skilningi.

Það er Hafsteinn Þór Auðunsson sem rekur safnið ásamt fjölskyldu sinni en steinum sem finna má á safninu hefur verið safnað síðan um árið 1960.  Þá er einnig mjög áhugavert handverk að finna á safninu.

Safnið er opið frá 9 – 17 á virkum dögum og 10-17 um helgar.  Vefsíða safnsins:  mineralsoficeland.com (https://www NULL.mineralsoficeland NULL.com/)

(http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2018/06/20170803_115333_HDR NULL.jpg)

Eldgos.is lá niðri í rúma viku vegna bilunar

Vegna alvarlegrar kerfisbilunar hjá hýsingaraðila okkar, 1984.is lá eldgos.is niðri í rúma viku. Til allrar hamingju virðast engin gögn hafa tapast og það er auðvitað fyrir mestu. –   Þetta leit alls ekki vel út á tímabili en við þökkum starfsfólk 1984.is fyrir  að    leggja nótt við dag við að koma vefsíðum hýstum hjá þeim í lag.

Heimsókn í Lava Centre á Hvolsvelli – Glæsileg sýning

Umsjónarmaður Eldgos.is heimsótti um helgina hið nýja “Lava Centre” á Hvolsvelli.  Lava Centre er , svo notaður sé þeirra eigin texti: “LAVA er tæknileg, gagnvirk afþreyingar- og upplifunarmiðstöð til fræðslu um fjölbreytta eldvirkni og jarðskorpuhreyfingar á Íslandi og hvernig landið hefur orðið til á milljónum ára.”

Er skemmst frá því að segja að Lava Centre kom mér verulega á óvart.  Þarna hefur verið unnið frábært starf af miklum metnaði og algjörri fagmennsku.  Sérstaklega var það öll gagnvirknin sem síðuhöfundur hreifst af.  Margir snertiskjáir og í einum salnum var gagnvirkur risaskjár sem náði yfir þrjár hliðar salarins og sýndi þær fimm eldstöðvar sem eru í næsta nágrenni við Hvolsvöll- gjósandi!

Sýningin er mjög fræðandi og myndræn.  Hraunrennsli í návígi, upplífun jarðskjálfta, möttulstrókurinn undir Íslandi – öllu er þessu lýst eins vel og hægt er.  Byggingin sjálf er sérlega skemmtileg og fellur vel í landslagið.  Auk sýningarsala er stór og smekklega innréttaður veitingasalur þar sem verð á mat og veitingum eru sanngjörn.  Þá er verslun með mynjagripi og vörur tengdar eldvirkni á staðnum.

Heimasíða sýningarinnar: Lava Centre. (http://lavacentre NULL.is/the-experience/?lang=is)  Einnig er  á sýninguna undir “Tenglar um jarðfræði”.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sýningunni.  Hægt er að smella á þær til að stækka.

20170625_160937_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_160937_HDR NULL.jpg) 20170625_161633_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_161633_HDR NULL.jpg) 20170625_162051_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_162051_HDR NULL.jpg) 20170625_162330_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_162330_HDR NULL.jpg) 20170625_163039_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_163039_HDR NULL.jpg) 20170625_163458_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_163458_HDR NULL.jpg) 20170625_164301_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_164301_HDR NULL.jpg) 20170625_164525_HDR (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2017/06/20170625_164525_HDR NULL.jpg)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimsókn á Krakatá

Anak Krakatoa (http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/02/IMG_2925 NULL.jpg)Síðuhöfundur varð þeirrar ánægju aðnjótandi um helgina að heimsækja eitt frægasta eldfjall heims, Krakatá (Krakatoa) í Indónesíu.   Krakatá var eyja á milli hinna tveggja stóru eyja í Indónesíu, Súmötru og Jövu.  Í gríðarlegu gosi árið 1883 splundraðist eyjan og hvarf að mestu í hafið.  Hér er fróðleikur um það gos (http://eldgos NULL.is/130-ar-fra-eldgosinu-mikla-i-krakata/).

Anak Krakatoa eða barn Krakatá hefur risið úr sæ í öskjunni og er þar nokkuð viðvarandi eldvirkni.  Síðast var virkni i Anak Krakatoa fyrir aðeins 2 vikum og eins og sést á myndunum þá stíga enn gosgufur uppúr toppgígnum.

Það var 3ja tíma ökuferð frá höfuðborg Indónesíu, Jakarta, að ströndinni við vesturenda Jövu og svo 90 mínútna bátsferð til Krakatá.  Ógleymanlegt ævintýri.

(http://eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2014/02/IMG_2925 NULL.jpg)

Bretar rannsaka áhrif mögulegs stórgoss á Íslandi

(http://www NULL.eldgos NULL.is/wp-content/uploads/2010/08/12mai7 NULL.jpg)Samkvæmt frétt RÚV er hópur Breskra vísindamanna (http://www NULL.ruv NULL.is/frett/bretar-bua-sig-undir-adra-skaftarelda) að hefja vinnu við að rannsaka áhrif sem eldgos á stærð við Skaftárelda kann að valda í Bretlandi.  Gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 virðist hafa hreyft við Bretum enda setti gosið flugsamgöngur í Evrópu algjörlega á hliðina í nokkra daga.  Þau skakkaföll eru þó smámunir miðað við möguleg áhrif frá stórgosi á Íslandi.

Fram kemur í fréttinni að stórgos eins og Skaftáreldar verði á um 250-500 ára fresti á Íslandi.  Sennilega eru 500 ár nærri lagi en frá því land byggðist hafa orðið tvö gos af þessari stærðargráðu,  Eldgjárgosið árin 932-4 og Skaftáreldar 1783-5.    Það er vitað að Skaftáreldar ollu miklum búsifjum í Evrópu.  Uppskerubrestur varð og veðurfar kólnaði.  Flest bendir til þess að yfir 2 milljónir manns hafi látið lífið í hungursneið af völdum Skaftárelda í Evrópu og reyndar víðar.    Eldgjárgosið var reyndar enn stærra.  Það er þó ekki bara stærð gossins sem hefur áhrif heldur einnig hvers eðlis gosið er og samsetning gjóskunnar sem dæmi.  Ríkjandi vindátt hefur svo mikið að segja.  Í Eyjafjallajökulsgosinu lagðist allt á eitt.  Þó gosið hafi alls ekki verið stórt í samanburði við td. Skaftárelda þá var askan mjög fíngerð, barst langt og vindáttir voru einstaklega óhagstæðar.

En eru líkur á öðru Eldgjárgosi eða Skaftáreldum ?  Svarið er eiginlega nei.  Eldgjárgosið var mjög óhefðbundið Kötlugos þar sem gossprungan teygði sig langt norðaustur fyrir jökulinn og var óhemju stórt af Kötlugosi að vera.  Slík gos verða á mörg þúsund ára fresti í Kötlueldstöðinni og líkur á svona gosi á okkar tímum afar litlar.  Síðasta gos af þessari stærðargráðu í Kötlu er talið hafa orðið fyrir um 12000 árum.

Sama má segja um Skaftárelda.  Þeir voru mjög óhefðbundið Grímsvatnagos, þ.e. kvikuhlaup varð úr Grímsvötnum til suðausturs og gosið einnig óhemjustórt miðað við Grímsvatnagos.  Þúsundir eða jafnvel tugþúsundir ára líða á milli slíkra gosa frá Grímsvötnum.

Hvar eru þá mestar líkur á stórgosi sem getur valdið búsifjum út fyrir Ísland ?  Langlíklegasta eldstöðin er Bárðarbunga.   Á um 500-800 ára fresti veldur hún stórum eldgosum á hálendinu suðaustur af Bárðarbungu, þ.e. kvikuhlaup eiga sér stað líkt og í Eldgjár- og Lakagígagosunum.  Vatnaöldugosið árið 870 og Veiðivatnagosið árið 1477 voru í hópi mestu eldgosa Íslandssögunnar þó ekki væru þau jafnöflug og Skaftáreldar eða Eldgjárgosin.  Gos á þessum slóðum geta orðið enn stærri, t.d. er Þjórsárhraunið mikla sem rann til sjávar milli Ölfusár og Þjórsár fyrir um 8000 árum ættað úr samskonar gosi, þe. frá Bárðarbungukerfinu.  Er það talið mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni úr einu gosi frá því ísöld lauk fyrir  um 10-12000 árum.

Óróleiki hefur verið í Bárðarbungu í áratugi þó ekki hafi orðið gos.  Jarðskjálftar eru þar mjög tíðir og gæti þessi óróleiki vel verið undanfari stórgoss.  Það getur þó kraumað undir í nokkra áratugi í viðbót áður en til tíðinda dregur en það er okkar mat að Bárðarbunga er langlíklegust í stórgos af Íslenskum eldstöðvum.

Náttúruvá á Íslandi

.

Í lok janúar sl. kom út bókin Náttúruvá á Íslandi.  Bókin sem fjallar um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi er gríðarlega efnismikil, tæplega 800 síður og um 1000 ljósmyndir og skýringarmyndir.  Það sem okkur hjá eldgos.is þykir þó merkilegast er að í þessari bók er birt mikið af upplýsingum sem rannsóknir allra síðustu ár hafa leitt í ljós um t.d. einstök eldstöðvakerfi og jarðskjálftasvæði.  Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar fyrir almenning áður.  Það er Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan sem gefa bókina út.

Nærri 60 manns, flestir færustu vísindamenn þjóðarinnar á þessum sviðum, leggja til efni í þetta mikla verk en aðalritstjóri er Júlíus Sólnes, ritstjóri eldgosakaflanna er Freysteinn Sigmundsson og ritstjóri jarðskjálftahlutans er Bjarni Bessason.  Bókinni er ætlað að vera bæði fræðirit fyrir almenning og uppsláttarrit fyrir vísindamenn.  Síðuhöfundur tók sér drjúgan tíma til að kynna sér þessa bók áður en þessi færsla var skrifuð og má segja að hér á eftir komi léttur ritdómur!

Kostir bókarinnar eru að í einni bók eru nánast allar upplýsingar um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi samankomnar og skýringarmyndirnar eru margar sérstaklega góðar.  Einstaka jarðfræðikort eru þó ekki nógu skýr, þ.e. litirnir líkjast hver öðrum fullmikið svo erfitt getur verið að átta sig á hvað er hvað.  Þá er skemmtilegur kafli um sögu jarðvísindanna og jarðsögu Íslands eru gerð góð skil.  Innri gerð eldfjalla eru gerð ýtarleg skil, þá eru sérstakir kaflar um jökulhlaup og flóðbylgjur.

Kaflarnir um eldgos og einstök eldstöðvakerfi eru flestir hverjir ýtarlegir og yfirgripsmiklir en þó yfirleitt skrifaðir þannig að þeir ættu að vera auðskiljanlegir.  Maður saknar einna helst í bókinni yfirgripsmeiri annáls um eldgos síðan land byggðist – en það skiptir ekki máli því hann er að finna hér á þessari síðu!   Seinni hluti bókarinnar fjallar um jarðskjálfta.  Þeir kaflar eru óhjákvæmilega dálítið þyngri svona fyrir leikmenn, enda í sjálfu sér ekki annað hægt því erfitt er að fjalla á fræðilegan hátt um jarðskjálfta án þess að eðlisfræði komi við sögu sem dæmi.

Í heildina er um sérlega metnaðarfullt og mikið verk að ræða sem við getum algjörlega mælt með.  Bókin er ekki ódýr enda var henni áreiðanlega ekki ætlað að vera það.  Besta verðið sem við höfum séð er hjá Bóksölu Stúdenta kr. 17.895.

Á næstunni er ætlunin að yfirfara síðurnar á eldgos.is  um einstök eldstöðvakerfi með tilliti til nýrra upplýsinga m.a. sem koma fram í þessari bók.  Höfundaréttar verður að sjálfsögðu gætt.

 

Færslusafn eftir mánuðum