Hraun farið að renna úr Geldingadölum – Átta gosop virk

17. Apríl 2021

Hraun er nú farið að renna úr Geldingadölum um haft sem liggur yfir í Meradali.  Þar mun þessi hraunstraumur sameinast því hrauni sem fyrir er þar, haldi hann áfram að renna.  Meradalir eru hinsvegar allmikið flatlendi og erfitt að sjá fyrir sér að að hraun nái að renna útúr þeim meðan gosið er ekki aflmeira.

Virknin hefur verið mest í syðstu gígunum síðustu sólarhringa, þ.e. þeim sem opnuðust nú í vikunni.  Einnig er enn góður gangur í Norðra, sem er annar gíganna sem opnuðust fyrst í gosinu.

Myndin er skjáskot úr Vefmyndavél Rúv og sýnir syðstu gígana á sprungunni.  Nýjustu gígarnir bera hæst en þeir eru uppi á hryggnum sem Morgunblaðs vefmyndavélin var staðsett á upphaflega.

Vefurinn opinn en enn unnið við uppfærslu

16. Apríl 2021

Þá er búið að opna Eldgos.is á nýjan leik. Skipt var um útlitsþema sem var þónokkur aðgerð og er reyndar ekki alveg lokið því enn er verið að vinna í að laga undirsíður í aðalvalmynd, (submenu)
Helstu breytingar eru þessar:

  • Textinn er allur mun læsilegri, skipt um font og meira línubil
  • Síðan er orðin snjallsímavæn
  • Síðan ætti að vera mun hraðari því hún keyrir á Astra þemanu í WordPress kerfinu sem er mun einfaldara og betur kóðað en fyrra þema
  • Nú er bara einn hliðargluggi (Sidebar) í stað tveggja áður
  • Þemað býður upp á meiri fjölbreytni hvað varðar nýtingu á plássi en áður var

Allar ábendingar varðandi útlitið og efnistök eru vel þegnar!

Að lokum er bent á að stefnt er að því að selja auglýsingar á vefinn enda aðsóknin stöðugt að aukast.  Það verður nánar tilkynnt síðar.

Uppfærsla á vefnum – Eldgos.is mun liggja niðri í nokkra daga

Útlitsþemað sem Eldgos.is notast við er orðið nokkuð gamalt og þjónar illa nútímakröfum um viðmót á snjallsímum og spjaldtölvum auk þess sem nýjustu uppfærslur á WordPress og viðbótum vinna ekki með þessu þema.   það hefur staðið til í nokkurn tíma að fara í þessar breytingar en svo hófust umbrotin á Reykjanesskaga og það var varla hægt að taka niður vefinn meðan staðan var frekar óljós.  Nú virðist ástandið þar nokkuð stöðugt fyrir utan nýjar opnanir af og til á gossprungunni og má allt eins gera ráð fyrir langvarandi gosi.

Þessi vinna hefst væntanlega í fyrramálið, mánudagsmorgunn og vonandi gerist ekkert stórfenglegt á meðan!

Enn einn gígur opnaðist á gossprungunni í nótt

Um kl. 3 í nótt mátti sjá á Vefmyndavél Mbl.is nýr gígur opnaðist nokkurnveginn á milli gíganna sem opnuðust um páskana.  Hér er talað um nýjan gíg frekar en gossprungu því vissulega liggja allir gígarnir sem hafa opnast í röð á sömu gossprungunni.  Þessi sprunga liggur yfir kvikuganginum margumtalaða sem nær frá Nátthaga að Keili og má reikna með að nýir gígar geti opnast hvar sem er á því svæði.

Það virðist sem allir fimm gígarnir sem hafa opnast séu vel virkir og hraunrennslið kann því enn að vera að aukast.  Nú hefur gosið staðið í þrjár vikur og er algjörlega á skjön við flest þekkt eldgos á Íslandi hvað hegðun varðar.  Oftast er mesti krafturinn í eldgosum til að byrja með og því engin furða að menn töldu gosið ekki verða langlíft miðað við mjög rólega opnun.  En virknin og hraunrennslið hefur smámsaman verið að aukast í gosinu, sérstaklega síðustu vikuna.

Hér hefur þetta verið flokkað sem dyngjugos þó engin sé dyngjan enn sem komið er.  Ástæðan fyrir því er efnasamsetning kvikunnar sem er mjög lík efnasamsetningu hrauna úr stóru dyngjunum á Reykjanesskaganum.  Möttulgos væri kanski heppilegri skilgreining því gosið á það einnig sameiginlegt með dyngjunum að kvikan streymir beint frá möttli af miklu dýpi.  

Eins og gosið er að haga sér þá kæmi það hreinlega á óvart ef því lýkur í bráð.  Þeim sem þessar línur ritar þykir líklegast að það vari mánuðum saman í það minnsta en haldi sig við sprunguna sem liggur yfir kvikuganginum.  Ástæðan er auðvitað stöðugt rennsli úr möttli, þar er væntanlega allstór kvikugeymsla sem þarf að tappa af.  Ekki er ólíklegt að gígar opnist nær Keili á næstu vikum eða mánuðum og jafnvel suður af Geldingadölum niður í Nátthaga.

Það er ólíklegt að hraunrennsli muni ógna Suðurstrandavegi eða öðrum mannvirkjum nema gosið standi mjög lengi, í það minnsta 4-6 mánuði, nema gígar opnist í grennd við Nátthaga.  Hraunið mun fyrst og fremst hlaðast upp í nágrenni gíganna í Geldinga- og Merardölum áður en það nær að renna útaf því svæði.  Meradalir eru allmikið flatlendi og þarf að gjósa lengi áður en hraun nær að renna frá þeim.  Þetta sést betur á meðfylgjandi korti frá Veðurstofu Íslands.

Meðfylgjandi kort er á vef Veðurstofu Íslands og sýnir legu eldstöðvanna.

 

Sprunga opnaðist á milli jarðeldanna í nótt

Um miðnætti í nótt, reyndar afskaplega stundvíslega á miðnætti, opnaðist ný gossprunga í Fagradalsfjalli.  Opnaðist hún á milli gosstöðvanna í Geldingadölum og fyrir ofan Merardali.  Hraun rennur frá nýju sprungunni niður í Geldingadali þar sem það mætir hrauninu sem þar hefur runnið áður.  

Skjáskot af vefmyndavél Rúv frá því í nótt. Bjarminn í miðjunni er nýjasta gossprungan.

Í raun er þetta allt á sömu sprungunni, þ.e. yfir kvikuganginum margumtalaða sem liggur frá Keili í norðaustri niður að Nátthaga í suðvestri.  Þetta er því tæplega 1 km löng slitrótt gossprunga eins og er þar sem þrjár meginopnanir eða gígar eru virkir.  Þessi sprunga getur vel lengst og telja jarðfræðingar mestar líkur á að hún lengist í norðaustur þ.e. í átt að Keili.  Minni líkur eru taldar á að hún rifni upp í grennd við Nátthaga þar sem ekki hefur orðið vart við neinar landbreytingar þar, svosem yfirborðssprungur.  

Nú koma upp um 7-10 rúmmetrar af kviku á sekúndu sem er talsverð aukning frá því sem var þegar einungis gígarnir í Geldingadölum voru virkir.  Það er því nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að þessu gosi sé að ljúka í bráð.

Scroll to Top