Jarðskjálftar í Kötluöskjunni – Hlaupvatn í ám

Birta á :
Skjálftar í Kötlu undanfarna sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Kötlu undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna óróa í Mýrdalsjökli.  Síðastliðna viku hafa mælst fjölmargir grunnir jarðskjálftar austarlega í Kötluöskjunni og nú hefur orðið vart við aukna leiðni og hlaupvatn i ám sem renna frá jöklinum, þ.e. Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl.

Það er þó ekkert sem bendir til þess að Kötlugos sé í aðsigi, skjálftarnir tengjast nær örugglega jarðhitakerfum i jöklinum og einnig hlaupvatnið.  Veðurfarslegar ástæður eru því líklegri heldur en að kvika sé að stíga upp en þegar Katla á í hlut þá er fylgst sérlega vel með og gefnar út tilkynningar um leið og eitthvað breytist.   Skjálftavirkni eykst að jafnaði um mitt sumar í Kötlu og helst fram á haust.  Virknin núna er eitthvað meiri en á sama tima undanfarin ár.

Sumarið 2011 varð eins og menn muna talsvert hlaup í Múlakvísl sem olli tjóni  á þjóðveginum auk þess að gjöreyðileggja brú yfir ána.  Bráðabirgðabrú var reist á nokkrum dögum og svo vill til að nýbúið er að hleypa umferð á nýja fullgerða brú yfir ána.  Eins og staðan er núna ætti hún þó ekki að vera í hættu.

Fréttir um óróann i Kötlu:

Rúv: Vísindamenn fylgjast grannt með Kötlu

Vísir.is: Órói í Kötlu bræðir hlaupvatn í jökulár

Mbl.is: Óvissustig vegna jökulhlaups

DV.is: Leiðsögumaður:”Það er venjulega ekkert vatn á þessu svæði”

 

 

 

Bárðarbunga skelfur

Birta á :
Skjálftar norðaustur af Bárðarbungu undanfarna sólarhringa.  Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar norðaustur af Bárðarbungu undanfarna sólarhringa. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Skjálfti upp á M 3,7 varð við Kistufell skammt norðaustur af Bárðarbungu um kl. 14 40 í dag.  Þarna hefur reyndar skolfið alla vikuna en skjálftinn í dag var sá stærsti í þessari hrinu hingað til.  Skjálftar á þessu svæði eru algengir og hafa jarðskjálftahrinur gengið yfir á þessum slóðum að jafnaði tvisvar á ári undanfarin ár.

Skjálftarnir tengjast Bárðarbungueldstöðinni en ýmislegt bendir til þess að það sé farið að styttast í það að þetta mikla eldfjall fari að minna á sig.

Eftir mjög rólega tíð þá hafa verið nokkrar skjálftahrinur í gangi undanfarna viku á og við landið.

Frétt mbl.is af skjálftanum

Skjálftahrina undan Reykjanesi

Birta á :
Skjálftaupptök á Reykjaneshrigg síðan í morgun.  Grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3 af stærð.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftaupptök á Reykjaneshrigg síðan í morgun. Grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3 af stærð. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

 

Skjálftahrina hófst undan Reykjanesi, skammt suðvestur af Geirfugladrangi í morgun.  Tveir skjálftar hafa verið sterkastir, 3,6 og 3,4 stig en mikill fjöldi smærri eftirskjálfta hefur fylgt og hrinan er enn í fullum gangi.  Hrinur á þessum slóðum eru mjög algengar og standa gjarnan í nokkra daga.  Svo vill til að fyrir réttu ári, 9.maí 2013 varð hrina svo að segja á nákvæmlega sama stað.

Þess má vænta að hrinan standi yfir næstu sólarhringa en skjálftar um og yfir M 3 gætu fundist á Reykjanesskaganum og um og yfir M 4 víðar á Suðvesturlandi ef þeir eiga sér stað.

 

Skjálfti upp á M 4 við Hestfjall

Birta á :
Hestfjall í Grímsnesi. Mynd: Kersti Nebelsiek
Hestfjall í Grímsnesi.
Mynd: Kersti Nebelsiek

Allsnarpur jarðskjálfti varð kl. 23 14 í gærkvöldi við Hestfjall í Grímsnesi.  Þetta er þekkt skjálftasvæði þar sem Suðurlandsskjálftar hafa stundum átt upptök og var þarna t.d. gríðarlega öflugur skjálfti á þessari sprungu árið 1784 um 7 af stærð.  Einn af Suðurlandsskjálftunum árið 2000 átti upptök á svipuðu slóðum og verður að teljast líklegt að þetta sé eftirskjálfti eftir þá atburði.  Vegna þess hve skammt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum eru tæplega líkur á mikið stærri skjálftum en þetta á þessum slóðum.  Hinsvegar voru vísbendingar um að enn væri einhver spenna á svæðinu eftir skjálftana 2000 og 2008 og í því ljósi kemur skjálfti af þessari stærð ekki á óvart.

 

Jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl

Birta á :
Upptök skjálfta við Herðubreiðartögl skammt norðaustur af Öskju.  Mynd frá vefsjá á vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta við Herðubreiðartögl skammt norðaustur af Öskju. Mynd frá vefsjá á vef Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálftahrina hófst við Herðubreiðartögl á laugardag og stendur enn nú þrem sólarhringum síðar en heldur virðist vera að draga úr henni.  Stærsti skjálftann mældist M 3,9 og varð hans vart í byggð.  Hafa yfir 500 skjálftar mælst á svæðinu undanfarna sólarhringa.

Hrinur sem þessar hafa verið algengar í norðurgosbeltinu undanfarinn áratug, bæði við Upptyppinga og Herðubreiðartögl.  Eru þær að hluta til taldar tengjast jarðskorpuhreyfingum í Öskjueldstöðinni.

Mjög vel hefur verið fylgst með þessu svæði en ljóst er að hrinurnar eru hluti af langtímaferli sem gæti stöðvast eða hægt á sér, eða orðið upphaf af rek- og gliðnunarhrinu líkt og átti sér stað við Kröflu frá 1975-1984.   Rétt er að taka fram að ekkert bendir þó til að slíkt sé yfirvofandi.

Scroll to Top