Skjálftahrina undan Reykjanesi

Birta á :
Skjálftaupptök á Reykjaneshrigg síðan í morgun.  Grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3 af stærð.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftaupptök á Reykjaneshrigg síðan í morgun. Grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3 af stærð. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

 

Skjálftahrina hófst undan Reykjanesi, skammt suðvestur af Geirfugladrangi í morgun.  Tveir skjálftar hafa verið sterkastir, 3,6 og 3,4 stig en mikill fjöldi smærri eftirskjálfta hefur fylgt og hrinan er enn í fullum gangi.  Hrinur á þessum slóðum eru mjög algengar og standa gjarnan í nokkra daga.  Svo vill til að fyrir réttu ári, 9.maí 2013 varð hrina svo að segja á nákvæmlega sama stað.

Þess má vænta að hrinan standi yfir næstu sólarhringa en skjálftar um og yfir M 3 gætu fundist á Reykjanesskaganum og um og yfir M 4 víðar á Suðvesturlandi ef þeir eiga sér stað.

 

Skjálfti upp á M 4 við Hestfjall

Birta á :
Hestfjall í Grímsnesi. Mynd: Kersti Nebelsiek
Hestfjall í Grímsnesi.
Mynd: Kersti Nebelsiek

Allsnarpur jarðskjálfti varð kl. 23 14 í gærkvöldi við Hestfjall í Grímsnesi.  Þetta er þekkt skjálftasvæði þar sem Suðurlandsskjálftar hafa stundum átt upptök og var þarna t.d. gríðarlega öflugur skjálfti á þessari sprungu árið 1784 um 7 af stærð.  Einn af Suðurlandsskjálftunum árið 2000 átti upptök á svipuðu slóðum og verður að teljast líklegt að þetta sé eftirskjálfti eftir þá atburði.  Vegna þess hve skammt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum eru tæplega líkur á mikið stærri skjálftum en þetta á þessum slóðum.  Hinsvegar voru vísbendingar um að enn væri einhver spenna á svæðinu eftir skjálftana 2000 og 2008 og í því ljósi kemur skjálfti af þessari stærð ekki á óvart.

 

Jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl

Birta á :
Upptök skjálfta við Herðubreiðartögl skammt norðaustur af Öskju.  Mynd frá vefsjá á vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta við Herðubreiðartögl skammt norðaustur af Öskju. Mynd frá vefsjá á vef Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálftahrina hófst við Herðubreiðartögl á laugardag og stendur enn nú þrem sólarhringum síðar en heldur virðist vera að draga úr henni.  Stærsti skjálftann mældist M 3,9 og varð hans vart í byggð.  Hafa yfir 500 skjálftar mælst á svæðinu undanfarna sólarhringa.

Hrinur sem þessar hafa verið algengar í norðurgosbeltinu undanfarinn áratug, bæði við Upptyppinga og Herðubreiðartögl.  Eru þær að hluta til taldar tengjast jarðskorpuhreyfingum í Öskjueldstöðinni.

Mjög vel hefur verið fylgst með þessu svæði en ljóst er að hrinurnar eru hluti af langtímaferli sem gæti stöðvast eða hægt á sér, eða orðið upphaf af rek- og gliðnunarhrinu líkt og átti sér stað við Kröflu frá 1975-1984.   Rétt er að taka fram að ekkert bendir þó til að slíkt sé yfirvofandi.

Smáskjálftar bæði í Heklu og Kötlu

Birta á :
Skjálftar í eldstöðvum á Suðurlandi undanfarinn sólarhring.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í eldstöðvum á Suðurlandi undanfarinn sólarhring. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

 

Undanfarna sólarhringa hafa smáskjálftar orðið bæði í Heklu og Kötlu.  Hvað Heklu varðar þá birtust um það fréttir nýlega að kvikusöfnun væri orðin meiri í kvikuhólfi fjallsins en fyrir síðasta gos, reyndar var hún orðin það þegar árið 2006.  Skjálftar eru fátíðir í Heklu á milli gosa en undanfarnar vikur hefur mátt greina einn og einn smáskjálfta.  Í gær (föstudagur 28.mars) urðu nokkrir slíkir skjálftar á mjög litlu svæði um 4 km. norðaustur af Heklu og voru mældir á 6-14km dýpi samkvæmt vef Veðurstofu Íslands.  Ómögulegt er að segja hvort eldgos sé beinlínis yfirvofandi í Heklu en þar sem aðeins gæti gefist klukkustund og jafnvel minna en það frá því mælingar gefa til kynna að gos sé að hefjast, þá er engan veginn hægt að mæla með því að gengið sé á fjallið.

Í Kötlu hafa mælst um 20 smáskjálftar í dag, flestir mjög litlir í grennd við Goðabungu.  Þegar stillur eru þá eru mælar næmari fyrir smáum skjálftum og því þarf þetta í sjálfu sér ekki að vera neitt óeðlilegt en þó merki þess að eldstöðin sé lifandi.  Svo smáir skjálftar (0-1) geta reyndar allt eins verið íshrun í grennd við jarðhitasvæðin sem eru fjölmörg í Mýrdalsjökli.  Katla hefur reyndar verið mun rólegri í vetur en búast hefði mátt við eftir óróleika undanfarin ár.

Öflugt eldgos veldur tjóni á Jövu

Birta á :
Öskuregn í Yogakarta
Öskufall í Yogakarta

Eldfjallið Kelud veldur nú miklum usla á eyjunni Jövu í Indónesíu.  Kelud er eitt af 120 virkum eldfjöllum á eyjunni en Indónesía, einkum eyjarnar Java og Súmatra, er eldvirkasta svæði heims.

Að minnsta kosti tveir fórust þegar mikið sprengigos hófst í Kelud í gærkvöldi og hundruð þúsunda eru á flótta frá nærliggjandi héruðum.  Öskuskýið hefur lokað öllum helstu flugvöllum á austur – Jövu og flugfélög hafa aflýst ferðum til og frá Balí sem er mjög vinsæl ferðamannaeyja undan austurströnd Jövu.

Ösku rignir niður á stóru svæði, allt frá næststærstu borg Jövu, Yogakarta austur af fjallinu til borgarinnar Surabaya sem er í  um 130 km norðvestur af Kelud.   Eyjan Java er ein þéttbýlasta eyja heims og búa þar um 135 milljónir manna en Java er um þriðjungi stærri en Ísland að flatarmáli.

.

.

 

.

Eyjan Java í Indónesíu
Eyjan Java í Indónesíu

Tenglar:

http://en.wikipedia.org/wiki/Kelud

http://abcnews.go.com/International/wireStory/indonesias-mount-kelud-java-island-erupts-22502220

http://news.yahoo.com/indonesia-39-mount-kelud-java-island-erupts-183710752.html

http://en.wikipedia.org/wiki/Java

 

 

 

 

Scroll to Top