Askja

Veruleg jarðskjálftavirkni norðan Herðubreiðar

Upptök skjálftanna við Herðubreið

Jarðskjálftavirkni hefur verið viðvarandi rétt norðan Herðubreiðar í þrjá sólarhringa og virðist draga lítið úr henni.  Stærsti skjálftinn varð í upphafi hrinunnar, M 4,0 og fannst hann á Norðurlandi.  það er sterkasti skjálftinn á þessum slóðum allt frá því að mælingar hófust þar fyrir rúmum 30 árum.  Skjálftahrinur hafa orðið af og til á þessu svæði undanfarin ár, einkum við Herðubreiðartögl.  

Athygli vekur að hluti skjálftanna eiga upptök á verulegu dýpi, 10- 15 km sem alltaf bendir til kvikuhreyfinga.  það verður þó að teljast afar ólíklegt að sú kvika komist upp á yfirborðið á þessu svæði.  Eldgos væri alltaf líklegast nær Öskju þó´sprungusveimur kerfisins teygi sig norður fyrir Herðubreið.

Órói hefur verið í Öskjukerfinu í heild frá Holuhraunsgosinu og verulegt landris mælst þar síðustu árin.  Telja vísindamenn að mikið magn kviku hafi safnast fyrir í kvikuhólfi undi Öskju. 

Verulegt landris við Öskju

Askja – Mynd fengin frá Wikimedia Commons

Landris upp á um 5 cm hefur mælst á svæði vestan við Öskjuvatn síðan í byrjun ágúst samkvæmt GPS mælingum og gervitunglagögnum.  Þetta er í fyrsta skipti frá því slíkar mælingar hófust að þensla mælist við Öskju.  Jarðskjálftar hafa þó verið tíðir á svæðinu.  Þensla upp á 5 cm verður að teljast verulega mikil á aðeins mánuði og verður eiginlega ekki skýrð á annan hátt en að um kvikuinnskot sé að ræða.  

Síðast gaus við Öskju árið 1961.  Var það fremur lítið gos.  Á árunum 1921-1930 gekk yfir goshrina á svæðinu með allmörgum minniháttar gosum.  Árið 1875 varð sannkallað stórgos í Öskju og eftir það gos myndaðist Öskjuvatn í kjölfar öskjumyndunar sem eldstöðin dregur nafn sitt af.  Gríðarleg aska féll á austurlandi í þessu gosi sem verð vegna sprengigos í gígnum Víti.  Í kjölfar þessa goss fluttu fjölmargir austfirðingar vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna.

Þótt landris sé nú að eiga sér stað við Öskju þá er það engin ávísun á eldgos í náinni framtíð.  Oftar en ekki lognast slíkar hrinur útaf eða að eldstöðvar taki sér langan tíma í undirbúning goss.  Eyjafjallajökull bærði t.d. á sér fimmtán árum áður en hann gaus með þenslu og jarðskjálftum.  

Það verðu þó athyglisvert að sjá hvert framhaldið verður því Askja er vissulega ein af öflugustu eldstöðvum landsins.

Gríðarstórt berghlaup féll í Öskjuvatn

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.  Jara Fatíma Brynjólfsdóttir tók myndina.   Ljósi flekkurinn sem þarna sést er laust efni sem skolaðist í vatnið með skriðunni.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. Jara Fatíma Brynjólfsdóttir tók myndina.
Ljósi flekkurinn sem þarna sést er laust efni sem skolaðist í vatnið með skriðunni.

Óhemjustór skriða féll ofan í Öskjuvatn í fyrrakvöld.  Er talið að um 24 milljónir rúmmetra af efni hafi fallið í vatnið suðaustantil og skapað flóðbylgjur sem slettust allt að 50 metra upp á hamraveggina umhverfis vatnið.  Náði vatn meira að segja að komast yfir haftið á milli Öskju og gígsins Víti.  Varla þarf að spyrja að leikslokum hefði einhver verið niður við vatnið þegar þetta átti sér stað en til allrar hamingju var enginn á svæðinu.  Yfirborð Öskjuvatns er nú tveim metrum hærra en fyrir berghlaupið.

Svo miklar voru hamfarirnar að óróapúls kom fram á jarðskjálftamælum í um 20 mínútur eftir atburðinn og ljós mökkur steig til himins.

Talið er að mikil hlýindi og snjóbráð að undanförnu hafi komið skriðunni af stað.  Öskjuvatn myndaðist eftir stórgos árið 1875 og því er landslagið þarna mjög ungt og rof-og mótunaröfl í fullum gangi á svæðinu.  Þessi atburður sem slíkur hefur ekkert með eldvirkni að gera né þann óróa og jarðskjálftahrinur sem átt hafa sér stað á svæðinu undanfarin ár.

Fréttir í fjölmiðlum um atburðinn:

RUV:  Mikið rof í jarðlögum við Öskju

Visir.is: Flóðbylgjan náði inn í Víti

Mbl.is: Stór skriða féll í Öskjuvatn

Mbl.is: “Bráðabani” að fara niður að vatninu

Jarðskjálftahrina við Herðubreiðartögl

Upptök skjálfta við Herðubreiðartögl skammt norðaustur af Öskju.  Mynd frá vefsjá á vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta við Herðubreiðartögl skammt norðaustur af Öskju. Mynd frá vefsjá á vef Veðurstofu Íslands.

 

Jarðskjálftahrina hófst við Herðubreiðartögl á laugardag og stendur enn nú þrem sólarhringum síðar en heldur virðist vera að draga úr henni.  Stærsti skjálftann mældist M 3,9 og varð hans vart í byggð.  Hafa yfir 500 skjálftar mælst á svæðinu undanfarna sólarhringa.

Hrinur sem þessar hafa verið algengar í norðurgosbeltinu undanfarinn áratug, bæði við Upptyppinga og Herðubreiðartögl.  Eru þær að hluta til taldar tengjast jarðskorpuhreyfingum í Öskjueldstöðinni.

Mjög vel hefur verið fylgst með þessu svæði en ljóst er að hrinurnar eru hluti af langtímaferli sem gæti stöðvast eða hægt á sér, eða orðið upphaf af rek- og gliðnunarhrinu líkt og átti sér stað við Kröflu frá 1975-1984.   Rétt er að taka fram að ekkert bendir þó til að slíkt sé yfirvofandi.

Allsnarpur jarðskjálfti norður af Öskju

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands varð jarðskjálfti af stærðinni 3,5 um 30 km. NNA af Öskju um kl. 12 45 í dag.  Skjálftinn er enn óyfirfarinn og kemur á vefnum fram sem tveir skjálftar en líklega er um einn atburð að ræða.  Enn er óljóst hvað um er að vera en smáskjálftahrinur hafa verið algengar á þessum slóðum undanfarin ár.  Upptökin eru fáeina kílómetra frá Herðubreið en hún er ekki virkt eldfjall.  Samkvæmt óróamælum er ekki um lágtíðniskjálfta að ræða en þeir fylgja kvikuhreyfingum neðanjarðar.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftans sem græna stjörnu.

UPPFÆRT KL. 01 18 –  Hátt í 100 skjálftar hafa mælst í kvöld á svæðinu.  Flestir af stærðinni 1,5 -2.

Scroll to Top