Haustskjálftar í Kötlu

Birta á :
Jarðskjálftar í Kötlu og á Torfajökulssvæðinu undanfarna sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Kötlu og á Torfajökulssvæðinu undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Hrina af grunnum jarðskjálftum varð í Kötlu í Mýrdalsjökli í nótt.  Stærsti skjálftinn mældist M 3,3 og hefur tæplega fundist í byggð, til þess þurfa skjálftar í Kötlu að vera töluvert öflugri.    Þar sem skjálftarnir eru grunnir þá bendir það til jarðhitavirkni frekar en að kvika sé á hreyfingu.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu er að jafnaði meiri á haustin en á öðrum árstímum og orsakast væntanlega af þrýstingsbreytingum vegna bráðnunar á jöklinum yfir sumartímann.  Í sögunni hafa einnig flest eldgosin þar hafist að hausti til, oftast í október.  Fremur rólegt hefur verið yfir Kötlu hin allra síðustu ár.  Hlaupvatn komst þó í ár sem renna frá jöklinum í júlí 2014 í kjölfar jarðskjálftavirkni en ekkert meira varð úr því.

Í heild hefur verið afar rólegt yfir landinu síðan gosinu í Holuhrauni lauk, helst að snarpar jarðskjálftahrinur á Reykjaneshrygg hafi vakið athygli.

Nú gætum við verið að horfa fram á óróatíð hvað varðar Kötlu sem gaus síðast árið 1918.  Einnig hefur verið nokkuð um smáskjálfta á Torfajökulssvæðinu norðan við Mýrdalsjökul en það gerist endrum og eins og tengist tæplega Kötlu.

Þá virðist órói vera að aukast aftur í grennd við Bárðarbungu og jafnvel taldar líkur á að kvika sé farin að safnast saman aftur í iðrum eldfjallsins.

Snörp jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í kvöld.  Þegar um svo mikinn fjölda er að ræða þá geta slæðst inn villur, t.d. er ólíklegt að þessir skjálftar sem sýndir eru á Reykjanesskaganum sjálfum hafi átt upptök þar.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í kvöld. Þegar um svo mikinn fjölda er að ræða þá geta slæðst inn villur, t.d. er ólíklegt að þessir skjálftar sem sýndir eru á Reykjanesskaganum sjálfum hafi átt upptök þar.

Um kl 21 í kvöld hófst allsnörp jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, skammt norðvestur af Geirfugladrangi, á svipuðum slóðum og hrinan sem varð 12. júní sl.  Skjálftarnir nú virðast  þó heldur öflugri og eru amk. tveir þeirra í kringum M4 af stærð og fundust á Reykjanesskaganum.  Þá bárust tilkynningar frá Akranesi um að skjálftarnir hafi fundist þar.  Mikill fjöldi skjálfta mældist fyrstu klukkutímana, vel á annað hundrað.  Skjálftarnir eru margir hverjir á allmiklu dýpi, 10-12 km og allt niður á 16 km sem er fremur óvenjulegt á þessu svæði.

Hrinur af þessu tagi eru algengar á þessum slóðum og þurfa ekki að boða neitt meira.   Það  þarf þó alltaf að hafa varann á þegar kröftugar skjálftahrinur ganga yfir á Reykjaneshryggnum því þarna eru mörg dæmi um neðansjávargos.

Fréttir fjölmiðla af skjálftunum:

Visir.is : Skjálftahrina vestur af Reykjanesi

Pressan.is : Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg í kvöld: Hundrað skjálftar á rúmum klukkutíma

UPPFÆRT 1. júlí kl. 23:45

Jarðkjálfti upp á M 5 og litakóði yfir Eldeyjareldstöðinni úr grænum í gulan

Skjálftahrinan hefur haldið áfram og urðu nokkrir verulega snarpir skjálftar í fyrrinótt.  Sá stærsti mældist M5 og annar M4.9.  Veðurstofan hefur ákveðið í samráði við Almannavarnir RLS að breyta litakóða eldstöðvarinnar við Eldey úr grænum í gulan sem þýðir að virkni er yfir meðaltali.  Heldur hefur dregið úr hrinunni eftir því sem liðið hefur á daginn en þó mælast nokkuð þéttir skjálftar og hrinunni hvergi nærri lokið.  Síðast gaus á þessum slóðum svo vitað sé með vissu árið 1926.  Það gos var lítið og varð skammt Norðaustan við Eldey.  Amk. 3 gos urðu á þessum slóðum á 19. öld, árin 1830, 1879 og 1884.  Það er því ljóst að harðir jarðskjálftar á þessu svæði er eitthvað sem fylgjast þarf með.

 

 

Jarðskjálftar undan Eldey

Birta á :

Reykjaneshryggur120515

.

Í gærmorgun gekk yfir jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, skammt sunnan við Eldey.  Mældust um 150 skjálftar og 8 þeirra yfir M 3 , sá sterkasti 3,9.  Líklegt er að sterkustu skjálftarnir hafi fundist lítillega á Suðurnesjum.

Hér var um að ræða hefðbundna hrinu á þessum slóðum sem tengist flekahreyfingum en slíkar hrinur ganga yfir árlega á þessum slóðum, jafnvel nokkrum sinnum á ári.  Sérlega snörp hrina varð þarna vorið  2013 sem sjá má hér.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í gær.  Hrinan virðist hafa gengið yfir á um  8 tímum en gæti þó vel tekið sig upp aftur miðað við söguna.

Stutt en snörp jarðskjálftahrina við Kleifarvatn

Birta á :

Í gær 29. Maí varð stutt en snörp skjálftahrina við Kleifarvatn.  Skjálftarnir urðu undir Sveifluhálsi, norðvestan til við vatnið og mældist stærsti

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök  jarðskjálfanna við Kleifarvatn.  Neðri myndin sýnir stærð og tímadreyfingu.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálfanna við Kleifarvatn. Neðri myndin sýnir stærð og tímadreyfingu.

skjálftinn M 4,0.  Sá fannst víða á suðvesturlandi.  Skjálftarnir voru grunnir siggengisskjálftar og engar kvikuhreyfingar fylgdu þeim.  Annar skjálfti M 3,1 mældist skömmu fyrir stóra skjálftann, hann fannst einnig á höfuðborgarsvæðinu.

Þó ekkert hafi skolfið þarna frá því í gær þá er algengt að hrinur á þessum slóðum taki sig upp aftur og standi með hléum í einhverjar vikur.

Krísuvíkursvæðið og Sveifluháls eru mjög virk jarðskjálftasvæði.  Síðast gaus hinsvegar á Sveifluhálsi um árið 1180 að því að talið er, en um miðja 12. öldina urðu nokkur eldgos á svæðinu og hafa verið nefnd “Krísuvíkureldar”.

Mjög rólegt hefur verið í jarðskorpu landsins eftir Holuhraunsgosið og fátt ef nokkuð fréttnæmt.  Enn dregur úr skjálftavirkni í Bárðarbungu og eru nú allar líkur á að þeim umbrotum sé lokið.

Jarðskjálftarnir á vef Veðurstofunnar

Eldgosinu í Holuhrauni lokið – Óvíst hvort umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið

Birta á :
Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.
Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.

Ekkert kvikuflæði er lengur til yfirborðs í Holuhrauni og eldgosinu því þannig séð lokið.   Gosið hófst 31. ágúst og stóð því í rétt tæpt hálft ár.  Óvanalegt er að stök gos standi svo lengi þó goshrinur eins og t.d. Kröfluelda hafi staðið yfir mikið lengur.

Gosið skilaði um 1.4 rúmkílómetrum af hrauni sem þekur um 85 ferkílómetra.  Er þetta því langstærsta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum á 18. öld og reyndar ekkert eldgos síðan þá skilað eins miklu magni af gosefnum.

Bárðarbunga hefur sigið um amk 61 metra frá því umbrotin hófust.

EN ER UMBROTUNUM LOKIÐ ?  Það er alls óvíst.  Jarðfræðingar hafa bent á að það er gliðnunarhrina í gangi og þær geta staðið yfir í ár eða áratugi með nokkrum eða mörgum eldgosum.  Þannig stóðu Kröflueldar í 9 ár.

Nú verður fróðlegt að vita hvort askja Bárðarbungu taki að rísa á ný og þá hversu hratt.  Ef hún stendur í stað og jarðskjálftavirkni fjarar út þá má ætla að umbrotunum og gliðnunarhrinunni sé þar með lokið en sennilega mun taka nokkrar vikur að skera úr um það.

Það má segja að það sé mikil heppni að þessi umbrot þróuðust eins og þau gerðu, þ.e. fremur rólegt gos á íslausu landi víðsfjarri mannabyggðum.  Skaðinn enginn fyrir utan nokkur óþægindi vegna gasmengunar.   En eins og að ofan segir þá er ekki hægt enn sem komið er að slá því föstu að umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið þó gosinu sé lokið.

Scroll to Top