Jarðskjálftar undan Eldey

Birta á :

Reykjaneshryggur120515

.

Í gærmorgun gekk yfir jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg, skammt sunnan við Eldey.  Mældust um 150 skjálftar og 8 þeirra yfir M 3 , sá sterkasti 3,9.  Líklegt er að sterkustu skjálftarnir hafi fundist lítillega á Suðurnesjum.

Hér var um að ræða hefðbundna hrinu á þessum slóðum sem tengist flekahreyfingum en slíkar hrinur ganga yfir árlega á þessum slóðum, jafnvel nokkrum sinnum á ári.  Sérlega snörp hrina varð þarna vorið  2013 sem sjá má hér.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í gær.  Hrinan virðist hafa gengið yfir á um  8 tímum en gæti þó vel tekið sig upp aftur miðað við söguna.

Stutt en snörp jarðskjálftahrina við Kleifarvatn

Birta á :

Í gær 29. Maí varð stutt en snörp skjálftahrina við Kleifarvatn.  Skjálftarnir urðu undir Sveifluhálsi, norðvestan til við vatnið og mældist stærsti

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök  jarðskjálfanna við Kleifarvatn.  Neðri myndin sýnir stærð og tímadreyfingu.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálfanna við Kleifarvatn. Neðri myndin sýnir stærð og tímadreyfingu.

skjálftinn M 4,0.  Sá fannst víða á suðvesturlandi.  Skjálftarnir voru grunnir siggengisskjálftar og engar kvikuhreyfingar fylgdu þeim.  Annar skjálfti M 3,1 mældist skömmu fyrir stóra skjálftann, hann fannst einnig á höfuðborgarsvæðinu.

Þó ekkert hafi skolfið þarna frá því í gær þá er algengt að hrinur á þessum slóðum taki sig upp aftur og standi með hléum í einhverjar vikur.

Krísuvíkursvæðið og Sveifluháls eru mjög virk jarðskjálftasvæði.  Síðast gaus hinsvegar á Sveifluhálsi um árið 1180 að því að talið er, en um miðja 12. öldina urðu nokkur eldgos á svæðinu og hafa verið nefnd “Krísuvíkureldar”.

Mjög rólegt hefur verið í jarðskorpu landsins eftir Holuhraunsgosið og fátt ef nokkuð fréttnæmt.  Enn dregur úr skjálftavirkni í Bárðarbungu og eru nú allar líkur á að þeim umbrotum sé lokið.

Jarðskjálftarnir á vef Veðurstofunnar

Eldgosinu í Holuhrauni lokið – Óvíst hvort umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið

Birta á :
Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.
Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar.

Ekkert kvikuflæði er lengur til yfirborðs í Holuhrauni og eldgosinu því þannig séð lokið.   Gosið hófst 31. ágúst og stóð því í rétt tæpt hálft ár.  Óvanalegt er að stök gos standi svo lengi þó goshrinur eins og t.d. Kröfluelda hafi staðið yfir mikið lengur.

Gosið skilaði um 1.4 rúmkílómetrum af hrauni sem þekur um 85 ferkílómetra.  Er þetta því langstærsta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum á 18. öld og reyndar ekkert eldgos síðan þá skilað eins miklu magni af gosefnum.

Bárðarbunga hefur sigið um amk 61 metra frá því umbrotin hófust.

EN ER UMBROTUNUM LOKIÐ ?  Það er alls óvíst.  Jarðfræðingar hafa bent á að það er gliðnunarhrina í gangi og þær geta staðið yfir í ár eða áratugi með nokkrum eða mörgum eldgosum.  Þannig stóðu Kröflueldar í 9 ár.

Nú verður fróðlegt að vita hvort askja Bárðarbungu taki að rísa á ný og þá hversu hratt.  Ef hún stendur í stað og jarðskjálftavirkni fjarar út þá má ætla að umbrotunum og gliðnunarhrinunni sé þar með lokið en sennilega mun taka nokkrar vikur að skera úr um það.

Það má segja að það sé mikil heppni að þessi umbrot þróuðust eins og þau gerðu, þ.e. fremur rólegt gos á íslausu landi víðsfjarri mannabyggðum.  Skaðinn enginn fyrir utan nokkur óþægindi vegna gasmengunar.   En eins og að ofan segir þá er ekki hægt enn sem komið er að slá því föstu að umbrotunum í Bárðarbungu sé lokið þó gosinu sé lokið.

Gosið í Holuhrauni tveggja mánaða gamalt

Birta á :
Myndin er fengin af facebook síðu Jarðvísindastofnunar.  Ármann Höskuldsson tók myndina.
Myndin er fengin af facebook síðu Jarðvísindastofnunar. Ármann Höskuldsson tók myndina.

Gosið sem hófst að morgni 31. ágúst er nú tveggja mánaða gamalt og ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.   Nýja hraunið er að nálgast 70 ferkílómetra að flatarmáli.  Rúmmál öskjusigsins í Bárðarbungu er orðið um 1 rúmkílómetri og má ætla að rúmmál hraunsins sé nálægt því enda bendir allt til þess að öskjusigið sé bein afleiðing kvikufærslu frá Bárðarbungu að Holuhrauni.

Gosið og umbrotin í Bárðarbungu hafa verið ótrúlega stöðug vikum saman.  Askjan sígur um 30-40 cm á dag, mikil skjálftavirkni fylgir siginu og gosið kraumar áfram.  Mjög hægt hefur dregið úr gosinu.

Í upphafi gossins nefndu vísindamenn þrjá möguleika helst varðandi framhald umbrotanna:

1.  Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.

2.  Stórt öskjusig í Bárðarbungu.  Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex.  Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli.  Einnig er mögulegt að sprungur opnist annarstaðar undir jöklinum.

3. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.  Öskufall gæti orðið nokkuð.

Eins og umbrotin hafa þróast lítur út fyrir að sviðsmynd 2 verði ofan á, þ.e. langvinnt gos í Holuhrauni, þó líklega án frekari gosa annarsstaðar í kerfinu.  Ekki er þó hægt að útiloka möguleikann á gosi í öskjunni.  Við sigið brotnar bergið og sprungur myndast í öskjugólfinu.  Þetta getur auðveldlega orðið nógu mikið jarðrask til þess að kvika fari að leita upp með þessum sprungum og brotum.   Ef það gerist þá má búast við öflugu en líklega stuttu sprengigosi í öskjunni.  Mundi það tappa hratt af kerfinu og líklega verða til þess að gosið í Holuhrauni  fjarar út.

Helsta vandamálið sem þessi umbrot hafa skapað enn sem komið er, er brennisteinsmengun.  Þetta gæti orðið enn meira vandamál í vetur í köldu og stillu veðri.

Gosið í Holuhrauni orðið mesta hraungos á Íslandi síðan Hekla gaus 1947

Birta á :
Útbreiðslukort af nýja hrauninu sem Jarðvísindastofnun Háskólans hefur gert.
Útbreiðslukort af nýja hrauninu sem Jarðvísindastofnun Háskólans gerði 20.9 2014

Ekki hefur komið upp meira hraun í einu eldgosi á Íslandi síðan í Heklugosinu 1947 sem taldist reyndar vera blandgos fremur en hraungos.  Nú er talið að um 0,5 rúmkílómetrar séu komnir upp af hrauni í gosinu en Hekluhraunið síðan 1947 er um 0,8 km3.  Ef Holuhraunsgosið nær því magni þá þarf að fara allt aftur til Skaftárelda árið 1783 til að finna gos sem hefur framleitt meira magn af hrauni.

Þá er Holuhraunsgosið orðið framleiðnasta gos á Íslandi í hálfa öld, síðan Surtseyjargosið hófst árið 1963.  Það gos stóð í fjögur ár og er talið hafa framleitt um 1,1 km3 af gosefnum en Holuhraunsgosið hefur staðið í rétt rúmar þrjár vikur og þegar framleitt um það bil helminginn af því sem Surtsey framleiddi á fjórum árum.

Það er því nokkuð sama hvar borið er niður í tölfræðinni, eldgosið sem nú stendur yfir í Holuhrauni er þegar orðið nokkuð stórt eldgos í sögulegu samhengi og ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.  Stöðugt sig mælist í öskjunni, skjálftavirkni er mikil og GPS mælingar sýna enn talsverða gliðnun.

Jafnvel í samanburði við fyrri hraungos í Bárðarbungukerfinu þá er gosið orðið allstórt.  Gamla Holuhraunið sem kom upp í gosi árið 1797 er aðeins um 5 ferkílómetrar að flatarmáli en nýja hraunið er að nálgast 40 ferklílómetra.  Þá er hraunið þegar orðið stærra en Tröllahraun sem kom upp suðvestan við Bárðarbungu í gosi sem stóð þó yfir í 2 ár árin 1862-4.  Hér er slóð á PDF skjal um það gos.,

Sennilega hefur ekki komið upp meira hraun í Bárðarbungukerfinu síðan í gosinu sem framleiddi hraun sem kallað er Frambruni á Dyngjuhálsi einhverntímann á 13. öld.   Það hefur verið verulega mikið gos því Frambruni (líka kallað Fjallsendahraun) er um 180 ferkílómetrar og 4 rúmkílómetrar að stærð.   Hinsvegar hafa orðið stærri gos í kerfinu t.d. Veiðivatnagosið um 1480 og nokkur gosanna í jöklinum á 18.öld voru allmikil.  Það voru  gjóskugos.

 

Scroll to Top