Hrina af grunnum jarðskjálftum varð í Kötlu í Mýrdalsjökli í nótt. Stærsti skjálftinn mældist M 3,3 og hefur tæplega fundist í byggð, til þess þurfa skjálftar í Kötlu að vera töluvert öflugri. Þar sem skjálftarnir eru grunnir þá bendir það til jarðhitavirkni frekar en að kvika sé á hreyfingu.
Jarðskjálftavirkni í Kötlu er að jafnaði meiri á haustin en á öðrum árstímum og orsakast væntanlega af þrýstingsbreytingum vegna bráðnunar á jöklinum yfir sumartímann. Í sögunni hafa einnig flest eldgosin þar hafist að hausti til, oftast í október. Fremur rólegt hefur verið yfir Kötlu hin allra síðustu ár. Hlaupvatn komst þó í ár sem renna frá jöklinum í júlí 2014 í kjölfar jarðskjálftavirkni en ekkert meira varð úr því.
Í heild hefur verið afar rólegt yfir landinu síðan gosinu í Holuhrauni lauk, helst að snarpar jarðskjálftahrinur á Reykjaneshrygg hafi vakið athygli.
Nú gætum við verið að horfa fram á óróatíð hvað varðar Kötlu sem gaus síðast árið 1918. Einnig hefur verið nokkuð um smáskjálfta á Torfajökulssvæðinu norðan við Mýrdalsjökul en það gerist endrum og eins og tengist tæplega Kötlu.
Þá virðist órói vera að aukast aftur í grennd við Bárðarbungu og jafnvel taldar líkur á að kvika sé farin að safnast saman aftur í iðrum eldfjallsins.