Í gær 29. Maí varð stutt en snörp skjálftahrina við Kleifarvatn. Skjálftarnir urðu undir Sveifluhálsi, norðvestan til við vatnið og mældist stærsti
skjálftinn M 4,0. Sá fannst víða á suðvesturlandi. Skjálftarnir voru grunnir siggengisskjálftar og engar kvikuhreyfingar fylgdu þeim. Annar skjálfti M 3,1 mældist skömmu fyrir stóra skjálftann, hann fannst einnig á höfuðborgarsvæðinu.
Þó ekkert hafi skolfið þarna frá því í gær þá er algengt að hrinur á þessum slóðum taki sig upp aftur og standi með hléum í einhverjar vikur.
Krísuvíkursvæðið og Sveifluháls eru mjög virk jarðskjálftasvæði. Síðast gaus hinsvegar á Sveifluhálsi um árið 1180 að því að talið er, en um miðja 12. öldina urðu nokkur eldgos á svæðinu og hafa verið nefnd “Krísuvíkureldar”.
Mjög rólegt hefur verið í jarðskorpu landsins eftir Holuhraunsgosið og fátt ef nokkuð fréttnæmt. Enn dregur úr skjálftavirkni í Bárðarbungu og eru nú allar líkur á að þeim umbrotum sé lokið.
Jarðskjálftarnir á vef Veðurstofunnar