Snarpir skjálftar við Grímsey

Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálfta nærri Grímsey síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrinan sem hófst í lok janúar NA af Grímsey hefur færst mikið í aukana síðastliðinn sólarhring.  Skjálftarnir eru margir og þéttir.  Stærsti skjálftinn mældis M 4,1.  Jarðfræðingar útiloka ekki frekari tíðindi en þá er verið að tala um stóran jarðskjálfta frekar en eldgos sem eru fátíð á þessum slóðum.

Tjörnesbrotabeltið er hinsvegar fært um að framkalla jarðskjálfta allt að stærð M 7 og er orðið all langt síðan slíkur skjálfti hefur orðið.  Það sem einkennir oft hrinur á þessum slóðum er að þær geta verið nokkuð langvarandi og færast gjarnan í aukana eftir því sem líður á þær. Það er einmitt tilfellið með hrinuna núna.

Þetta svæði er sniðreksbelti sem tilheyrir Tjörnesbeltinu.  Þá er einnig vitað um jarðhitavirkni á þessu svæði þannig að talsverð umbrot eru viðvarandi á þessum slóðum.

UPPFÆRT 19.FEBRÚAR

Mikill kraftur hljóp í jarðskjálftahrinuna snemma að morgni 19.febrúar.  Hafa vel á annað þúsund skjálfta mælst síðustu sólarhringa og stærsti skjálftinn mældinst M 5,2.  Er þetta orðin öflugasta jarðskjálftahrina á Grímseyjarsvæðinu í 30 ár.

Mælingar benda ekki til kvikuhreyfinga. Þessir skjálftar tengjast flekahreyfingum.

Þitt álit

Scroll to Top
%d bloggers like this: