Eldfjöll erlendis

Gos í eldfjallinu Agung á Balí

frá gosinu sem hófst í Agung í gær
frá gosinu sem hófst í Agung í gær

Indónesía er eldvirkasta svæði jarðar, hundruð eldfjalla raða sér eftir endilöngum eyjunum, Súmötru , Jövu og minni eyjunum austan við Jövu.  Balí er ein þeirra.  Það sem veldur eldvirkninni í Indónesíu er að Indó-Ástralíuflekinn svokallaði rennur undir Evrasíu flekann.  Sá fyrr nefndi er gerður úr úthafsskorpu sem er mun þyngri en meginlandsskorpan sem Evrasíuflekinn er gerður úr.  Það verða því mikil átök þegar þessir tveir stóru flekar mætast og Indó-Ástralíuflekinn treður sér undir Evrasíuflekann.  Þetta þýðir mikil jarðskjálftavirkni sem og eldvirkni í Indónesíu.

Balí er vinsæl ferðamannaparadis i Indónesíu.  Þrátt fyrir að eyjan sé lítil, aðeins um 5000 ferkílómetrar þá eru á henni nokkur eldfjöll.  Mest virkni hefur verið í eldkeilunni Agung sem jafnframt er hæsta fjallið eyjunni eða 3.142 metrar.  Agung gaust síðast árið 1963 og fórust þá um 1,500 manns.  Það er því engin furða að eyjaskeggjar séu óttaslegnir þegar þetta mikla eldfjall bærir á sér.

Mikil skjálftavirkni hefur verið í Agung undanfarna mánuði og hefur verið ljóst í nokkurn tíma að fjallið mundi gjósa fljótlega.  Hafa því verið gerðar ráðstafanir

Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu
Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu

til að rýma hættusvæði.  Helstu ferðamannastaðir á Balí eru nokkuð frá Agung og ættu ekki að vera í neinni hættu þó aska gæti fallið þar.

Eldgos hófst fyrir alvöru í fjallinu í gær, sunnudag 26.nóvember og hefur þegar orðið talsvert öskufall í næsta nágrenni fjallsins og flug til og frá Balí hefur farið úr skorðum.  Efnahagur Balí byggir nær eingöngu á ferðamannaþjónustu svo fyrir heimamenn er þetta bagalegt ástand.

Eldfjöll í Indónesíu eru oft óútreiknanleg.  Á Íslandi er algengast að mestur kraftur sé upphafi eldgoss. Það er ekki endilega þannig í Indónesíu og þó gosið sé enn sem komið er fremur lítið þá er ómögulegt að segja til um hvernig það þróast.

Öflugt eldgos veldur tjóni á Jövu

Öskuregn í Yogakarta
Öskufall í Yogakarta

Eldfjallið Kelud veldur nú miklum usla á eyjunni Jövu í Indónesíu.  Kelud er eitt af 120 virkum eldfjöllum á eyjunni en Indónesía, einkum eyjarnar Java og Súmatra, er eldvirkasta svæði heims.

Að minnsta kosti tveir fórust þegar mikið sprengigos hófst í Kelud í gærkvöldi og hundruð þúsunda eru á flótta frá nærliggjandi héruðum.  Öskuskýið hefur lokað öllum helstu flugvöllum á austur – Jövu og flugfélög hafa aflýst ferðum til og frá Balí sem er mjög vinsæl ferðamannaeyja undan austurströnd Jövu.

Ösku rignir niður á stóru svæði, allt frá næststærstu borg Jövu, Yogakarta austur af fjallinu til borgarinnar Surabaya sem er í  um 130 km norðvestur af Kelud.   Eyjan Java er ein þéttbýlasta eyja heims og búa þar um 135 milljónir manna en Java er um þriðjungi stærri en Ísland að flatarmáli.

.

.

 

.

Eyjan Java í Indónesíu
Eyjan Java í Indónesíu

Tenglar:

http://en.wikipedia.org/wiki/Kelud

http://abcnews.go.com/International/wireStory/indonesias-mount-kelud-java-island-erupts-22502220

http://news.yahoo.com/indonesia-39-mount-kelud-java-island-erupts-183710752.html

http://en.wikipedia.org/wiki/Java

 

 

 

 

130 ár frá eldgosinu mikla í Krakatá

Anak Krakatoa
Myndi er frá litlu gosi í Anak Krakatoa árið 2008

Krakatá (Krakatoa) er eyja á milli tveggja stærstu eyja Indónesíu, Súmötru og Jövu.  Eldgos hófst á Krakatá í maí 1883 og fram í ágúst sama ár gaus kröftuglega með hléum.  Jarðskjálftar og höggbylgjur frá gosinu riðu yfir nágrennið.  Þann 26. ágúst herti gosið mjög og náði gosmökkurinn 25 km hæð með tilheyrandi öskufalli í Indónesíu.

Morguninn eftir, þann 27. ágúst kváðu við fjórar gríðarlegar sprengingar og eyjan Krakatá hreinlega splundraðist.  Svo mikill var krafturinn í sprengingunum að þær heyrðust til borgarinnar Perth í Ástralíu sem er í 3.100 km. fjarlægð.  Risavaxnar flóðbylgjur (tsunami) sem náðu allt að 40 metra hæð skullu á eyjunum í kring og urðu amk. 36.000 manns að bana.

Þetta er eitt af allra mestu eldgosum sem mannkynið hefur orðið vitni að.  Árið eftir kólnaði veðurfar um allan heim vegna ösku í háloftunum og varð ekki eðlilegt fyrr en 5 árum síðar.

Eyjan Krakatá  minnkaði mikið og breyttist í kjölfar gossins, askja myndaðist sem er um 300 metra djúp og um 6km í þvermál.  Eyja myndaðist í öskjunni í  gosi árið 1930 sem nefnd var Anak Krakatoa eða barn Krakatá og hefur gosið af og til síðan.

Mayon á Filippseyjum veldur usla

Þegar lítið er um að vera hér á landi er ekki úr vegi að fræðast aðeins um eldfjöll erlendis.  Á Filippseyjum eru fjölmörg eldfjöll enda eyjaklasinn á hinu svokalla eldbelti “ring of fire” sem umlykur Kyrrahafsflekann svokallaða.  Virkasta eldfjall Filippseyja er hin 2462 metra háa eldkeila Mayon sem þykir einstaklega regluleg í laginu.

Þann 7. maí síðastliðinn komst Mayon í fréttirnar þegar þar  fórust 5 fjallgöngumenn  þegar lítið sprengigos ,eða öllu heldur ein stök sprenging, varð í fjallinu. Vitað er um 48 gos í Mayon á síðustu 400 árum.  Nýleg gos í Mayon: 2009-10, 2008, 2006, 1993, 1986 og 1984.  Mayon hefur oft valdið dauðsföllum og tjóni enda allmikil byggð í héröðum nærri fjallinu.  Þá fylgja gjóskuflóð gjarnan eldgosum í Mayon en þau eru einhver hættulegustu fyrirbrigði sem fylgja eldgosum.

Á meðfylgjandi mynd má einmitt sjá gjóskuflóð æða niður hlíðar Mayon í eldgosi árið 1984.

Mayon_Volcano

 

 

Fallegt gos í Etnu

Eldfjallið Etna á Sikiley er virkasta eldfjall Evrópu og hóf að gjósa þann 19.febrúar síðastliðinn.  Etna er jafnframt hæsta virka eldfjall Evrópu, 3329 metra hátt.  Algengustu gosin í Etnu eru róleg, meinlaus og falleg flæðigos þar sem hraunið liðast um hlíðar fjallsins.  Etna á sér þó einnig sögu um mikil hamfaragos sem hafa kostað mörg mannslíf.  Hér er myndband frá gosinu sem hófst í síðasta mánuði.

httpv://www.youtube.com/watch?v=oMrsdL_IhRM

Scroll to Top