Gos í eldfjallinu Agung á Balí

Birta á :
frá gosinu sem hófst í Agung í gær
frá gosinu sem hófst í Agung í gær

Indónesía er eldvirkasta svæði jarðar, hundruð eldfjalla raða sér eftir endilöngum eyjunum, Súmötru , Jövu og minni eyjunum austan við Jövu.  Balí er ein þeirra.  Það sem veldur eldvirkninni í Indónesíu er að Indó-Ástralíuflekinn svokallaði rennur undir Evrasíu flekann.  Sá fyrr nefndi er gerður úr úthafsskorpu sem er mun þyngri en meginlandsskorpan sem Evrasíuflekinn er gerður úr.  Það verða því mikil átök þegar þessir tveir stóru flekar mætast og Indó-Ástralíuflekinn treður sér undir Evrasíuflekann.  Þetta þýðir mikil jarðskjálftavirkni sem og eldvirkni í Indónesíu.

Balí er vinsæl ferðamannaparadis i Indónesíu.  Þrátt fyrir að eyjan sé lítil, aðeins um 5000 ferkílómetrar þá eru á henni nokkur eldfjöll.  Mest virkni hefur verið í eldkeilunni Agung sem jafnframt er hæsta fjallið eyjunni eða 3.142 metrar.  Agung gaust síðast árið 1963 og fórust þá um 1,500 manns.  Það er því engin furða að eyjaskeggjar séu óttaslegnir þegar þetta mikla eldfjall bærir á sér.

Mikil skjálftavirkni hefur verið í Agung undanfarna mánuði og hefur verið ljóst í nokkurn tíma að fjallið mundi gjósa fljótlega.  Hafa því verið gerðar ráðstafanir

Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu
Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu

til að rýma hættusvæði.  Helstu ferðamannastaðir á Balí eru nokkuð frá Agung og ættu ekki að vera í neinni hættu þó aska gæti fallið þar.

Eldgos hófst fyrir alvöru í fjallinu í gær, sunnudag 26.nóvember og hefur þegar orðið talsvert öskufall í næsta nágrenni fjallsins og flug til og frá Balí hefur farið úr skorðum.  Efnahagur Balí byggir nær eingöngu á ferðamannaþjónustu svo fyrir heimamenn er þetta bagalegt ástand.

Eldfjöll í Indónesíu eru oft óútreiknanleg.  Á Íslandi er algengast að mestur kraftur sé upphafi eldgoss. Það er ekki endilega þannig í Indónesíu og þó gosið sé enn sem komið er fremur lítið þá er ómögulegt að segja til um hvernig það þróast.

Scroll to Top