Skjálfti um stærð M 5.0 varð um 1,6 km NV af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 23 36 í gærkvöldi. Skjálftinn fannst meira og minna um allt suðvesturland, einnig í Vestmannaeyjum.
Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands varð skjálftinn á 10,4 km dýpi sem er óvenju djúpur skjálfti meðað við það sem gengur og gerist á Reykjanesskaga. Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst, þar af amk. tveir yfir M 3 og hafa því fundist vel í nágrenninu.
Síðustu daga hefur verið enn ein hrinan í gangi í Svartsengiskerfinu nærri Grindavík, sem tengist landrisinu á þeim slóðum. Hvort þessir skjálftar við Fagradalsfjall tengist þessu landrisi á einhvern hátt er óljóst en það eru um 9-10 km á milli upptakasvæðanna.
Skjálftar eru algengir við Fagradalsfjall en þar hefur þó ekki gosið í um 6000 ár af því að talið er. það þýðir þó að sjálfsögðu ekki að þar geti ekki orðið gos.
Þar með eru upptakasvæði jarðhræringa á Reykjanesskaganum sem staðið hafa linnulítið frá áramótum orðin þrjú, Reykjaneskerfið vestast á skaganum, Svartsengi við Grindavík og nú Fagradalsfjall.