Skjálfti af stærðinni M 3,4 mældist í Mýrdalsjökli kl 07 41 í morgun. Annar M 2,8 mældist skammri stundu áður. Sá stærri fannst í næsta nágrenni við eldstöðina. Upptök skjálftanna voru í Kötluöskjunni.
Algengt er að jarðskjálftavirkni aukist í Mýrdalsjökli síðsumars og fram á haust vegna jökulbráðnunar og fargbreytinga. Þetta hefur einnig áhrif á jarðhitasvæði í jöklinum og hefur einmitt mælst há leiðni í Múlakvísl undanfarnar vikur, svo há að fólki er ráðlagt að gæta sín þar sem áin rennur undan jöklinum því gas getur safnast í lægðir.
Allra síðustu árin hefur verið tiltölulega rólegt á Kötlusvæðinu eftir nokkur umbrot í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og einning lét Katla illa árið 2016. Nú eru liðin tæp 102 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé sem vitað er um í fjallinu frá landnámi. Reyndar er talið að smágos hafi orðið nokkrum sinnum á þessu tímabili sem ekki hafi náð uppúr jöklinum.