Gosinu að ljúka

Birta á :

Nú að morgni miðvikudags 25.maí virðist eldgosinu í Grímsvötnum vera lokið eða í þann mund að ljúka.  Aðeins gufubólstrar stíga nú upp frá eldstöðinni.  Þetta var því stutt en mjög öflugt gos að því gefnu að því sé lokið.  Þó er ekki hægt að útiloka að það taki sig upp aftur en varla af þeim krafti sem var í gosinu um helgina.

STÓRGOS Í GRÍMSVÖTNUMÖSKUFALL MJÖG VÍÐA

Birta á :

Eldgosið sem nú stendur yfir í Grímsvötnum er stórgos og eitt af öflugustu eldgosum sem hér hafa orðið  í yfir 100 ár.

Krafturinn í gosinu var þegar hann var mestur áætlaður 10-20 sinnum meiri en krafturinn í gosinu í Eyjafjallajökli fyrir rúmu ári síðan.  Er þá miðað við áætlað gosefnamagn sem eldstöðin lætur frá sér á tilteknu tímabili.  Má ætla að aðeins Kötlugosið 1918 og Heklugosið 1947 séu sambærileg við þetta gos hvað sprengikraft varðar sé litið til gosa á þessari öld og síðustu.   Gosmökkurinn náði um tíma 20 kílómetra hæð sem er mesta hæð sem gosmökkur hefur náð síðan í upphafi Heklugossins 1947.  Gríðarlegur fjöldi eldinga hefur mælst í gosmökknum, yfir 2000 á klukkustund þegar mest var í nótt.  Hér hefur Veðurstofan sett upp vefsvæði sem sýnir tíðni eldinga yfir gosstöðvunum.   Athyglisvert er að fylgjast með gosóróanum á mælum Veðurstofunnar.  Á kortinu er smellt á punktinn á vestanverðum Vatnajökli en þar eru Grímsvötn.

Þrátt fyrir að rúmur sólarhringur sé liðinn frá því gosið hófst þá hefur ekki tekist að komast nærri gosstöðvunum en ca 30 km. og því ekki enn  vitað nákvæmlega hve löng gossprungan er en það getur skipt nokkru máli upp á hugsanlegt hlaup.  Þó er ekki talið að stórhlaup sé yfirvofandi því stutt er síðan hljóp úr Grímsvötnum og því ekki mikið vatnsmagn í þeim.

Gos í Grímsvötnum eru venjulega öflugust í upphafi en svo dregur úr þeim og yfirleitt standa þau ekki lengi yfir.  Hitt verður þó að athuga að þetta gos er gríðarlega öflugt og gæti því staðið lengur fyrir vikið.  Í flestum tilvikum eru Grímsvatnagos tiltölulega saklaus og lítil en það á svo sannarlega ekki við nú.   Einnig verður forvitnilegt að sjá hvaða breytingar verða á eldstöðinni í kjölfar gossins því stærð þess er þess eðlis að það gæti breytt landslagi við Grímsvötn og þeirri hefðbundnu rútínu sem Grímsvatnahlaup hafa verið í.  Mjög öflug gos geta einnig valdið landsigi undir eldstöðinni (öskjumyndun) en ekkert bendir þó til þess að það sé að eiga sér stað nú.

Öskufall hefur orðið mjög víða um landið, mest þó sunnan og suðaustan lands.  Undir kvöld lagði mökkinn vestur og náði höfuðborgarsvæðinu um kvöldmatarleytið.  Myndirnar hér að neðan voru teknar á suðurlandi í dag.

Hér er Youtube videó tekið skömmu eftir gosbyrjun

httpv://www.youtube.com/watch?v=oMStcqHfwQ4

ELDGOS HAFIÐ Í GRÍMSVÖTNUM

Birta á :

ELDGOS HÓFST Í GRÍMSVÖTNUM UM KL. 18 Í DAG.  Tiltölulega rólegt hefur verið undanfarnar vikur á skjálftamælum á þessum slóðum sem og annarsstaðar á landinu svo segja má að gosið hafi komið nokkuð á óvart.  Hinsvegar hefur verið búist við gosi í nokkurn tíma í Grímsvötnum sem eru virkasta eldstöð landsins

Gosið virðist að sögn sjónarvotta nokkuð öflugt en nánari fréttir liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað.  Mikil jarðskjálftavirkni hefur fylgt upphafi gossins og vekja staðsetningar skjálfta suðvestan Vatnajökuls nokkra athygli en þetta geta verið skekkjur i mælitækjum sem oft gerist þegar öflugar skjálftahrinur ganga yfir.  Hér er jarðskjálftagraf Veðurstofu Íslands af Vatnajökli og nágrenni.  Myndin er einnig fengin þaðan.

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 og þar áður 1998.  Bæði þessi gos voru smá en hinsvegar var gosið tveim árum áður, 1996 allmikið.

Nánari fréttir af gosinu eru væntanlegar eftir því sem þær berast en hér má lesa um Grímsvatnaeldstöðina.

Öflugir skjálftar við Krísuvík – Fundust víða

Birta á :

Eldgos.isSkjálftahrinan sem gengið hefur yfir við Krísuvík og á Sveifluhálsi undanfarna daga færðist mjög i aukana í morgun með amk. þrem skjálftum vel yfir 3 á Richter, sá sterkasti 3,7 og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta er í raun framhald af hrinu sem segja má að hafi verið í gangi í tvö ár og gengur í lotum.   Sjá umfjöllun hér.     Þá bendum við á umfjöllun um eldstöðvar á Reykjanesskaga hér.

Skjálftar á þessu svæði eru mjög algengir og þurfa ekki að boða nein frekari tíðindi.   Hinsvegar hefur átt sér stað landris á svæðinu undanfarin ár sem ekki hefur verið fyllilega útskýrt.  Eldgos hafa orðið á þessu svæði síðan land byggðist og ganga yfir i hrinum.  Síðast gekk hrina eldgosa yfir á Reykjanesskaga á 12. og 13. öld.   en einnig eru heimildir um gos á 15. öld.   Mun styttra er síðan gosið hefur í sjó skammt undan Reykjanesi, eða á 19. öld.

Svæðið sem nú skelfur tilheyrir Trölladyngjukerfinu.  Árin 1150-1151 urðu allmikil eldsumbrot á þessu svæði og opnuðust nokkrar gossprungur.

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir jarðskjálfta síðustu 48 stundir, þeir nýjustu eru rauðir, þeir stærstu eru grænar stjörnur.

UPPFÆRT: Annar stór skjálfti varð kl. 17.27 í dag.  Upptökin á svipuðum stað og fyrri skjálftar eða tæpa 5 km. NNA af Krísuvík.  Mikilll fjöldi smærri eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið.

Skjálftahrina í Langjökli

Birta á :

Kortið sýnir upptakasvæðið - merkt með rauðu.Um 10 leitið í morgun hófst nokkuð öflug skjálftahrina í suðvestur- horni Langjökuls eða að því er virðist á milli Langjökuls og Þórisjökuls.  Samkvæmt vef Veðurstofunnar eru stærstu skjálftarnir hingað til 3,6 og 3,4 á Richter en þetta eru óyfirfarnar niðurstöður enn sem komið er.  Fyrsta klukkutimann mældust  nokkrir tugir skjálfta, flestir um 1,5 – 2,5 á Richter.

Skjálftahrinur í Langjökli eru nokkuð algengar en ekki hefur gosið í þessu eldstöðvakerfi síðan um árið 900.  Ekkert bendir enn sem komið er til þess að það sé eitthvað að breytast.

Scroll to Top