Skjálftahrina í Langjökli

Birta á :

Kortið sýnir upptakasvæðið - merkt með rauðu.Um 10 leitið í morgun hófst nokkuð öflug skjálftahrina í suðvestur- horni Langjökuls eða að því er virðist á milli Langjökuls og Þórisjökuls.  Samkvæmt vef Veðurstofunnar eru stærstu skjálftarnir hingað til 3,6 og 3,4 á Richter en þetta eru óyfirfarnar niðurstöður enn sem komið er.  Fyrsta klukkutimann mældust  nokkrir tugir skjálfta, flestir um 1,5 – 2,5 á Richter.

Skjálftahrinur í Langjökli eru nokkuð algengar en ekki hefur gosið í þessu eldstöðvakerfi síðan um árið 900.  Ekkert bendir enn sem komið er til þess að það sé eitthvað að breytast.

Enn ein skjálftahrinan við Kistufell

Birta á :

Undanfarið hefur verið heldur órólegt í Bárðarbungukerfinu í Vatnajökli og þá helst i kringum Kistufell sem er um 25 km. norðaustur af hásléttu (öskju) Bárðarbungu.  Aðfaranótt sunnudags mældust tveir skjálftar yfir 3 á richter og fjölmargir smærri.  Flestir skjálftarnir eru á talsverðu dýpi, um 7-10 km, og ekkert sem bendir til þess að kvika sé í þann veginn að brjótast upp á yfirborðið.   Sem fyrr er svæðið þó mjög virkt og líkur á að fyrr en síðar gjósi í Bárðarbungukerfinu.  Síðasta goshrina á þessum slóðum varð á árunum 1862-4.

Gos í Bárðarbungukerfinu geta þróast með þrennum hætti:  Í fyrsta lagi gos í eða við öskjuna sjálfa í jöklinum.  Vitað er að árið 1477 varð allstórt gos af þessu tagi.    Í öðru lagi geta orðið kvikuhlaup til suðvesturs og virðist þetta gerast á um 5-800 ára fresti.  Síðast varð slikur atburður árið 1480, Veiðivatnagosið.  Er því lýst hér. Það er athyglisvert að þetta mikla gos á sér stað aðeins fáum árum eftir mikið gos í jöklinum.   Kvikuhlaup til suðvesturs með allstóru gosi á jökullausu svæði varð einnig i kringum árið 870 og myndaði Landnámslagið svokallaða sem er tvílitt öskulag enda gaus á sama tima í Torfajökulskerfinu.  Það gerðist reyndar einnig árið 1480.    Í þriðja lagi verða gos norðaustur af Bárðarbungu, í eða norðan Kistufells og jafnvel á jökullausu svæði þar norður af.  Slíkt gerðist síðast á árunu 1862-4 eins og áður sagði.  Þetta eru hættuminnstu gosin í Bárðarbungusvæðinu enda víðsfjarri mannabyggðum og komi gos upp á jökullausu svæði veldur það engu tjóni.   Það gildir auðvitað allt annað um stórgos i jöklinum sjálfum, þar kemur bæði til öskufall og flóðahætta.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálfta í Vatnajökli undanfarna sólarhringa.

Jarðhræringar við Grímsvötn

Birta á :

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni varð jarðskjálfti sem mældist af stærðinni 4,2 við Grímsfjall í Vatnajökli í morgun.  Skömmu áður varð skjálfti upp á 3,5.  Búist hafði verið verið gosi á þessum slóðum í byrjun nóvember á síðasta ári þegar hlaup varð úr Grímsvötnum en það gerðist ekki.  Þarna er virkasta eldstöð landsins og jarðskjálftar algengir.  Nokkur órói hefur verið viðvarandi í eldstöðvum í Vatnajökli undanfarið, sérstaklega við Grímsvötn og Bárðarbungu.  Einnig hafa orðið skjálftahrinur við Esjufjöll austarlega í jöklinum og þá mælast skjálftar af og til við Kverkfjöll í norðurbrún jökulsins.  Ekki er  talið að eldgos sé beinlínis yfirvofandi á þessum slóðum en Grímsvötn þó hvað líklegust.

Frostbrestir mælast sem jarðskjálftar í Eyjafjallajökli

Birta á :

Samkvæmt jarðskjálftayfirliti Veðurstofunnar hefur mælst nokkur fjöldi jarðskjálfta í Eyjafjallajökli og reyndar í Mýrdalsjökli einnig í dag.  Vísir.is greinir frá því að þetta eru frostbrestir vegna mikilla kulda á svæðinu en ekki jarðhræringar.  Einhverjir skjálftanna í Mýrdalsjökli eru þó “eðlilegir” ef svo má segja.  Þarna er mælanetið orðið mjög nákvæmt og greinir því minni hreyfingar en víða annarsstaðar sem er væntanlega skýringin á því að frostbrestir koma ekki fram á mælum í öðrum jöklum landsins.

Árið kveður með skjálftahrinu við Kistufell

Birta á :

Skjálftar við Bárðarbungu og KistufellEldgosaárinu 2010 er nú að ljúka og með viðeigandi hætti –  Eldstöðin Bárðarbunga lætur vita af sér með skálftahrinu nálægt Kistufelli um 20 km. norðaustur af Bárðarbungu.  Það hefur verið viðvarandi órói á þessu svæði lengi.   Fyrr í vikunni var einnig skjálftavirkni í Bárðarbungu sjálfri eins og sést á meðfylgjandi mynd,  bláu punktarnir eru skjálftar í Bárðarbungu en þeir rauðu eru flestir í nánd við Kistufell.  Smáskjálftar sjást þarna einnig nærri Öskju og norður af Kverkfjöllum.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Eldgos.is óskar landsmönnum gleðilegs árs og friðar. 

Scroll to Top