ELDGOS HAFIÐ Í GRÍMSVÖTNUM

Birta á :

ELDGOS HÓFST Í GRÍMSVÖTNUM UM KL. 18 Í DAG.  Tiltölulega rólegt hefur verið undanfarnar vikur á skjálftamælum á þessum slóðum sem og annarsstaðar á landinu svo segja má að gosið hafi komið nokkuð á óvart.  Hinsvegar hefur verið búist við gosi í nokkurn tíma í Grímsvötnum sem eru virkasta eldstöð landsins

Gosið virðist að sögn sjónarvotta nokkuð öflugt en nánari fréttir liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað.  Mikil jarðskjálftavirkni hefur fylgt upphafi gossins og vekja staðsetningar skjálfta suðvestan Vatnajökuls nokkra athygli en þetta geta verið skekkjur i mælitækjum sem oft gerist þegar öflugar skjálftahrinur ganga yfir.  Hér er jarðskjálftagraf Veðurstofu Íslands af Vatnajökli og nágrenni.  Myndin er einnig fengin þaðan.

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 og þar áður 1998.  Bæði þessi gos voru smá en hinsvegar var gosið tveim árum áður, 1996 allmikið.

Nánari fréttir af gosinu eru væntanlegar eftir því sem þær berast en hér má lesa um Grímsvatnaeldstöðina.

Öflugir skjálftar við Krísuvík – Fundust víða

Birta á :

Eldgos.isSkjálftahrinan sem gengið hefur yfir við Krísuvík og á Sveifluhálsi undanfarna daga færðist mjög i aukana í morgun með amk. þrem skjálftum vel yfir 3 á Richter, sá sterkasti 3,7 og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta er í raun framhald af hrinu sem segja má að hafi verið í gangi í tvö ár og gengur í lotum.   Sjá umfjöllun hér.     Þá bendum við á umfjöllun um eldstöðvar á Reykjanesskaga hér.

Skjálftar á þessu svæði eru mjög algengir og þurfa ekki að boða nein frekari tíðindi.   Hinsvegar hefur átt sér stað landris á svæðinu undanfarin ár sem ekki hefur verið fyllilega útskýrt.  Eldgos hafa orðið á þessu svæði síðan land byggðist og ganga yfir i hrinum.  Síðast gekk hrina eldgosa yfir á Reykjanesskaga á 12. og 13. öld.   en einnig eru heimildir um gos á 15. öld.   Mun styttra er síðan gosið hefur í sjó skammt undan Reykjanesi, eða á 19. öld.

Svæðið sem nú skelfur tilheyrir Trölladyngjukerfinu.  Árin 1150-1151 urðu allmikil eldsumbrot á þessu svæði og opnuðust nokkrar gossprungur.

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir jarðskjálfta síðustu 48 stundir, þeir nýjustu eru rauðir, þeir stærstu eru grænar stjörnur.

UPPFÆRT: Annar stór skjálfti varð kl. 17.27 í dag.  Upptökin á svipuðum stað og fyrri skjálftar eða tæpa 5 km. NNA af Krísuvík.  Mikilll fjöldi smærri eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið.

Skjálftahrina í Langjökli

Birta á :

Kortið sýnir upptakasvæðið - merkt með rauðu.Um 10 leitið í morgun hófst nokkuð öflug skjálftahrina í suðvestur- horni Langjökuls eða að því er virðist á milli Langjökuls og Þórisjökuls.  Samkvæmt vef Veðurstofunnar eru stærstu skjálftarnir hingað til 3,6 og 3,4 á Richter en þetta eru óyfirfarnar niðurstöður enn sem komið er.  Fyrsta klukkutimann mældust  nokkrir tugir skjálfta, flestir um 1,5 – 2,5 á Richter.

Skjálftahrinur í Langjökli eru nokkuð algengar en ekki hefur gosið í þessu eldstöðvakerfi síðan um árið 900.  Ekkert bendir enn sem komið er til þess að það sé eitthvað að breytast.

Enn ein skjálftahrinan við Kistufell

Birta á :

Undanfarið hefur verið heldur órólegt í Bárðarbungukerfinu í Vatnajökli og þá helst i kringum Kistufell sem er um 25 km. norðaustur af hásléttu (öskju) Bárðarbungu.  Aðfaranótt sunnudags mældust tveir skjálftar yfir 3 á richter og fjölmargir smærri.  Flestir skjálftarnir eru á talsverðu dýpi, um 7-10 km, og ekkert sem bendir til þess að kvika sé í þann veginn að brjótast upp á yfirborðið.   Sem fyrr er svæðið þó mjög virkt og líkur á að fyrr en síðar gjósi í Bárðarbungukerfinu.  Síðasta goshrina á þessum slóðum varð á árunum 1862-4.

Gos í Bárðarbungukerfinu geta þróast með þrennum hætti:  Í fyrsta lagi gos í eða við öskjuna sjálfa í jöklinum.  Vitað er að árið 1477 varð allstórt gos af þessu tagi.    Í öðru lagi geta orðið kvikuhlaup til suðvesturs og virðist þetta gerast á um 5-800 ára fresti.  Síðast varð slikur atburður árið 1480, Veiðivatnagosið.  Er því lýst hér. Það er athyglisvert að þetta mikla gos á sér stað aðeins fáum árum eftir mikið gos í jöklinum.   Kvikuhlaup til suðvesturs með allstóru gosi á jökullausu svæði varð einnig i kringum árið 870 og myndaði Landnámslagið svokallaða sem er tvílitt öskulag enda gaus á sama tima í Torfajökulskerfinu.  Það gerðist reyndar einnig árið 1480.    Í þriðja lagi verða gos norðaustur af Bárðarbungu, í eða norðan Kistufells og jafnvel á jökullausu svæði þar norður af.  Slíkt gerðist síðast á árunu 1862-4 eins og áður sagði.  Þetta eru hættuminnstu gosin í Bárðarbungusvæðinu enda víðsfjarri mannabyggðum og komi gos upp á jökullausu svæði veldur það engu tjóni.   Það gildir auðvitað allt annað um stórgos i jöklinum sjálfum, þar kemur bæði til öskufall og flóðahætta.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálfta í Vatnajökli undanfarna sólarhringa.

Jarðhræringar við Grímsvötn

Birta á :

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni varð jarðskjálfti sem mældist af stærðinni 4,2 við Grímsfjall í Vatnajökli í morgun.  Skömmu áður varð skjálfti upp á 3,5.  Búist hafði verið verið gosi á þessum slóðum í byrjun nóvember á síðasta ári þegar hlaup varð úr Grímsvötnum en það gerðist ekki.  Þarna er virkasta eldstöð landsins og jarðskjálftar algengir.  Nokkur órói hefur verið viðvarandi í eldstöðvum í Vatnajökli undanfarið, sérstaklega við Grímsvötn og Bárðarbungu.  Einnig hafa orðið skjálftahrinur við Esjufjöll austarlega í jöklinum og þá mælast skjálftar af og til við Kverkfjöll í norðurbrún jökulsins.  Ekki er  talið að eldgos sé beinlínis yfirvofandi á þessum slóðum en Grímsvötn þó hvað líklegust.

Scroll to Top