Náttúruvá á Íslandi

Birta á :

.

Í lok janúar sl. kom út bókin Náttúruvá á Íslandi.  Bókin sem fjallar um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi er gríðarlega efnismikil, tæplega 800 síður og um 1000 ljósmyndir og skýringarmyndir.  Það sem okkur hjá eldgos.is þykir þó merkilegast er að í þessari bók er birt mikið af upplýsingum sem rannsóknir allra síðustu ár hafa leitt í ljós um t.d. einstök eldstöðvakerfi og jarðskjálftasvæði.  Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar fyrir almenning áður.  Það er Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan sem gefa bókina út.

Nærri 60 manns, flestir færustu vísindamenn þjóðarinnar á þessum sviðum, leggja til efni í þetta mikla verk en aðalritstjóri er Júlíus Sólnes, ritstjóri eldgosakaflanna er Freysteinn Sigmundsson og ritstjóri jarðskjálftahlutans er Bjarni Bessason.  Bókinni er ætlað að vera bæði fræðirit fyrir almenning og uppsláttarrit fyrir vísindamenn.  Síðuhöfundur tók sér drjúgan tíma til að kynna sér þessa bók áður en þessi færsla var skrifuð og má segja að hér á eftir komi léttur ritdómur!

Kostir bókarinnar eru að í einni bók eru nánast allar upplýsingar um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi samankomnar og skýringarmyndirnar eru margar sérstaklega góðar.  Einstaka jarðfræðikort eru þó ekki nógu skýr, þ.e. litirnir líkjast hver öðrum fullmikið svo erfitt getur verið að átta sig á hvað er hvað.  Þá er skemmtilegur kafli um sögu jarðvísindanna og jarðsögu Íslands eru gerð góð skil.  Innri gerð eldfjalla eru gerð ýtarleg skil, þá eru sérstakir kaflar um jökulhlaup og flóðbylgjur.

Kaflarnir um eldgos og einstök eldstöðvakerfi eru flestir hverjir ýtarlegir og yfirgripsmiklir en þó yfirleitt skrifaðir þannig að þeir ættu að vera auðskiljanlegir.  Maður saknar einna helst í bókinni yfirgripsmeiri annáls um eldgos síðan land byggðist – en það skiptir ekki máli því hann er að finna hér á þessari síðu!   Seinni hluti bókarinnar fjallar um jarðskjálfta.  Þeir kaflar eru óhjákvæmilega dálítið þyngri svona fyrir leikmenn, enda í sjálfu sér ekki annað hægt því erfitt er að fjalla á fræðilegan hátt um jarðskjálfta án þess að eðlisfræði komi við sögu sem dæmi.

Í heildina er um sérlega metnaðarfullt og mikið verk að ræða sem við getum algjörlega mælt með.  Bókin er ekki ódýr enda var henni áreiðanlega ekki ætlað að vera það.  Besta verðið sem við höfum séð er hjá Bóksölu Stúdenta kr. 17.895.

Á næstunni er ætlunin að yfirfara síðurnar á eldgos.is  um einstök eldstöðvakerfi með tilliti til nýrra upplýsinga m.a. sem koma fram í þessari bók.  Höfundaréttar verður að sjálfsögðu gætt.

 

STÓR JARÐSKJÁLFTI ÚTI FYRIR NORÐURLANDI – M 5,3

Birta á :

Um kl. 1 í nótt fannst jarðskjálfti víða á Norðurlandi sem átti upptök um 16km austur af Grímsey.  Skjálftar hafa verið þarna undanfarna daga og þeir stærstu um 3 stig þar til stóri skjálftinn kom nú í nótt en fyrstu mælingar benda til þess að hann hafi verið um 5,3 M af stærð.  Skjálftinn er á Tjörnesbeltinu en þar eru stórir skjálftar vel þekktir.  Skjálftahrinan nú virðist vera á sömu brotalínu og skjálfti sem varð árið 1910 og er talinn hafa verið um 7 stig, þ.e. nyrstu brotalínunni í Tjörnesbeltinu sem teygir sig inn í Öxarfjörð.  Hér má sjá umfjöllun um svæðið eftir jarðskjálftana i september í fyrra.

Fullvíst má telja að eftirskjálftar verða margir næstu sólarhringa en ómögulegt er að segja til um hvort þetta sé stærsti skjálftinn í þessari hrinu.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. og sýnir skjálftaupptökin í hrinunni.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum í nótt

Pressan.is:  Harður jarðskjálfti austur af Grímsey

mbl.is:  Stór skjálfti austur af Grímsey

Ruv.is:  Snarpur skjálfti fyrir norðan

Uppfært kl. 12:15

Óvissustigi lýst yfir

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftanna.  Stóri skjálftinn í gær reyndist vera 5,5 M af stærð.  Eins og búist var við hafa hundruð eftirskjálfta mælst, sá stærsti þeirra varð um kl. 9 í morgun og mældist 4,7.  Einnig mátti búast við því að virknin teygði sig til suðausturs og það virðist einnig vera að gerast.  Á þessu svæði er fjöldi misgengja og sprungna og óvíst hvaða áhrif þessir skjálftar hafa á þau.  Eldvirkni á þessu svæði tengd skjálftunum er afar ólíkleg.

Uppfært 3.apríl kl. 00 30

Enn er mikil virkni á svæðinu og í kvöld urðu skjálftar uppá 4,7 og 4,4 talsvert suðaustan við skjálftaupptökin í gær og er ljóst að misgengið er að brotna upp í átt að Öxarfirði og Kópaskeri.  Líklegt er að sú þróun haldi áfram.

Á neðri myndinni sem tekin er af vef Veðustofunnar um kl. 00 15 sést þessi færsla vel en grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3,0.  Þessi hrina er allsekkert einsdæmi á þessum slóðum, þarna varð öflug hrina árið 2002 með skjálfta yfir 5 M.  Hrinan sem nú er í gangi er þó enn öflugri.

 

 

Skjálftar við rætur Langjökuls

Birta á :

Um hádegið í dag hófst jarðskjálftahrina á litlu svæði um 5km. undan suðausturhorni Langjökuls.  Hafa á annan tug skjálfta mælst, sá stærsti um 3,5 og hefur heldur gefið í hrinuna undir kvöld.  Þetta eru að öllum líkindum hefðbundnir brotaskjálftar sem tengjast brotabeltinu á milli Langjökuls og Þingvalla.   Jarðskjálftar eru mjög algengir við Langjökul án þess að þeir boði nokkuð meira en þeir eru þó meira við vesturhluta jökulsins heldur en á þessu svæði sem er þó einnig vel virkt.

Myndin sýnir upptök skjálftanna og er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Sjá umfjöllun á eldgos.is um Langjökul hér

Umfjallanir fréttamiðla um skjálftana við Langjökul:

Ruv.is:  Jarðskjálftar tengjast gamla brotabeltinu

Visir.is: Ekki talið að skjálftarnir séu undanfari eldgoss

Mbl.is:  Jörð skalf við Jarlhettur

Annáll Heklugosa

Birta á :

Hekla verður að teljast nokkuð líkleg til að gjósa á næstu vikum eða mánuðum þó enn sé of snemmt að fullyrða það.  Því er ekki úr vegi að fara lauslega yfir  Heklugos á sögulegum tíma.  Vegna nálægðar Heklu við byggð þá er ekkert vafamál að öll Heklugosin eru þekkt, ólíkt því sem á við um eldstöðvar sem eru lengra uppi á hálendinu eða í Vatnajökli sem dæmi.

1104  Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta.  Goshlé hefur verið amk. 250 ár frá næsta gosi á undan en svo langt hlé hefur ekki orðið á Heklugosum síðan.  Gosið var eingöngu gjóskugos og komu upp um 2,5 km3 af súrri gjósku.  Mjög mikið tjón varð enda var blómleg byggð í Þjórsárdal um þetta leyti sem eyddist svo að segja öll í gosinu.    Aðeins eitt öskugos hefur verið stærra síðan land byggðist, það varð í Öræfajökli árið 1362.  Veturinn 1105 var kallaður “sandfallsvetur” og er skýringin væntanlega öskufall eða öskufok frá gosstöðvunum enda súr ríólít askan kísilrík og eðlisléttari en gosefni úr basalti sem eru algengari.  Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.

Óvissustig vegna hræringa í Heklu

Birta á :

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á Hvolsvelli hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðhræringa í og við Heklu.  Eitthvað hefur verið um djúpa jarðskjálfta undanfarið við fjallið en kvikuhreyfingar mælast þó ekki.    Ekki er talið að gos sé endilega yfirvofandi en vandamálið með Heklu er að aðdragandi að gosi er yfirleitt mjög stuttur, nokkrir klukkutímar eða jafnvel enn styttri.  Með nýjum tækjabúnaði sem settur hefur verið upp síðustu ár er markmiðið að greina hættuna fyrr en þar sem þessi tæki voru ekki til staðar fyrir síðustu gos í fjallinu þá er ekki nákvæmlega vitað hvernskonar jarðskorpuhreyfingar eru undanfari goss.

Hekla gaus síðast árið 2000 og hafði þá gosið á 10-11 ára fresti frá árinu 1970.  Vitað er að þrýstingur undir eldstöðinni er orðinn meiri en hann var fyrir síðasta gos svo það ætti ekki að koma neinum á óvart  ef gos hefst á næstunni.  Verði gos í Heklu þá verður það að öllum líkindum hefðbundið fremur lítið gos eins og þau hafa verið síðustu áratugi, etv. nokkuð kraftmikið í fyrstu en dregur fljótt úr því og ólíklegt að það komi til með að valda meiriháttar skaða.

Í Júlí 2011 urðu einnig óvenjulegar hreyfingar við Heklu sem ekkert varð meira úr.

Fréttir af hræringunum í Heklu í fjölmiðlum:

Ruv.is:  Engin bráðahætta á eldgosi

Dv.is: Óvissustig vegna óvenjuegra hreyfinga í Heklu

Mbl.is: Óvissustig vegna Heklu

 

Scroll to Top